fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Stúdentaráðsskipti

Í dag var skiptafundur í Stúdentaráði. Frekar fyndin athöfn með sérkennilegum (en nauðsynlegum) handauppréttingum.
Skipan í nefndir var frestað þangað til eftir helgi skv. tillögu frá Vöku sem er sennilega enn að plotta hvernig það skuli gerast í sínum röðum. Held að ég verði tilnefndur í eina nefnd, meira um það síðar.
MS verkefnið er byrjað að fljóta, ég er kominn af stað með bóka- og greinalestur. Einhverjar hugmyndir eru komnar á blað en ekkert skrifað þannig lagað.
Keypti belti á útsölu á Indriða vörum í Saltfélaginu. Systkinin Styrmir og Marta stóðu vaktina eins og hetjur, ekkert kort fer út nema með smá yl í veskinu.

fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Umhverfismálin á toppinn

Ég get svarið það, umhverfismál virðast vera orðin alvörumál. Það líður varla sá dagur að ekki sé fjallað um umhverfismál af einhverju tagi og þá af alvöru án yfirlætis.
Athyglisverð er umræðan um svifrykið sem nú fer mikinn. Morgunblaðið hefur með réttu ákveðið að leggja töluverða áherslu á mengun í kringum opinberar stofnanir og kom í gær með frétt á forsíðu um mann sem benti umhverfisyfirvöldum á vandann fyrir mörgum árum síðan. Þetta á svo að nota til að finna höggstað á umhverfisstefnu R listans. En sú taktík gerir ráð fyrir því að svifryksmengun sé á einhvern hátt staðbundin og þó óháð skipulagi umferðarkerfisins. En hvernig er það? Munu mislægu gatnamótin við Kringlumýrarbraut - Miklubraut minnka svifryksmengun í borginni? Bara svo eitt dæmi sé nefnt. Eða mun aukin áhersla á réttindi einkabílista og veigrun við að taka gjald af nagladekkjum hafa góð áhrif á svifryksmengun? Er lakari strætisvagnaþjónusta á stofnleiðum vísir að minni svifryksmengun? Svarið er nei og Sjálfstæðismeirihlutinn í borginni ber ábyrgð á þessum þáttum.
Nagladekkin eru klárlega mikill sökudólgur í þessu máli og það er hreinasti barnaskapur að ímynda sér að auglýsingaskilti sem hvetja til minni notkunar hafi einhver áhrif. Vandamál hinna svokölluðu hægri manna í Sjálfstæðisflokknum er að þeir hafa enga trú á markaðnum sem tæki til breytinga. Staðreyndin er sú að fólk velur sér ekki einkabíla með nagladekkjum af löngun eða vegna meðvitaðrar ákvörðunar. Það er einfaldlega hagkvæmasti kosturinn í borg sem dekrar svona við einkabílinn. Með sama hætti eru Kaupmannahafnarbúar ekki bara rosalega hrifnir af reiðhjólum og lestum og velja þess vegna að nota þá ferðamáta. Það er bara svo ömurlegt að aka í borginni og engin bílastæði að fá (1 stæði á hverjar 5 íbúðir samanborið við 1,5 stæði á íbúð hér). Þar eru hinir kostirnir hagkvæmari í samkeppni.
Annað mál er svo grein Péturs Blöndal um umhverfismál Íslendinga í alheimssamhengi. Innihald greinarinnar er gott en eins og svo margir af hans kynslóð á hann erfitt með að koma kjarna málsins til skila og kann ekki að nota réttan orðaforða til að lýsa hugtökum. Ég eins og aðrir alheimssinnaðir umhverfisverndarsinnar hef löngum skilið þann ábata sem álframleiðsla hér á landi skilar í útblásturssparnaði. Og það er rétt sem Pétur segir að ál verður framleitt hvort sem við byggjum álver eða ekki og því getum við lagt eitthvað af mörkum til heimsbyggðarinnar með því að framleiða það undir ströngum skilyrðum hér með vistvænni orku. En það er samgönguþátturinn sem ég efast um í grein Péturs. Nú eru 3/4 hlutar orku á Íslandi innlend framleiðsla og restin innflutt olía. Sem er mikið. Hann segir að losun CO2 á einstakling sé stöðug í kringum 10 Mtonn. En það getur ekki staðist sé horft til fjölgunar bíla, fjölgunar stórra bíla, bætts vegakerfis og umtalsvert fleiri flugkílómetra. Ætla að skoða málið. Einhver sagði á samgönguþingi á Akureyri um daginn að við Íslendingar værum svo aftarlega á merinni að við þyrftum sjónauka til að sjá merina.
En nú vonast ég til að sjá aukna umræðu um bindingu kolefnis, kolefniskvóta og kílómetrana að baki matvælunum okkar svo fátt eitt sé nefnt.

miðvikudagur, janúar 31, 2007

Þyrping á norðurkantinum

Fréttin um hverfið sem Þyrping vill reisa á landfyllingum norðan Örfiriseyjar er mjög áhugaverð fyrir flest annað en fréttina sjálfa.
Í fyrsta lagi má lesa úr orðum framkvæmdastjórans að skipulagning byggðar á svæðinu sé hugarfóstur Þyrpingar og að með framkvæmdunum sé Þyrping að bjarga miklu í baklandi miðborgarinnar. Hins vegar vita það allir að Aðalskipulag sem var samþykkt fyrir um 6 árum síðan gerir ráð fyrir byggð á landfyllingum á norðanverðu Nesinu, að vísu nokkuð vestar. Sú hugmynd var töluvert gagnrýnd fyrir það að standa uppi í rokinu af Sundunum og fyrir að vera á landfyllingum.
Viðbrögð Björns Inga eru líka mjög sérstök. Hann tekur þann pólinn í hæðina að vera spenntur og jákvæður sem eru einmitt klisjuviðbrögð íslenskra stjórnmálamanna. Hann bendir þó á að eftirspurn eftir landi á þessu svæði sé töluverð og að skipulagi þurfi að breyta. En hvergi er minnst á þátt borgarbúa í þeim breytingum.
Það er ljóst að við erum komin í sama gamla farið í Reykjavíkurborg.

Græni maðurinn orðinn grár

Ég held að Ómar Ragnarsson sé eitthvað aðeins að misskilja. Á sama tíma og hann þykist vera að bjarga landinu með ankannalegum æsingi og furðuverkum þá mælist hann til þess að bílaumferð í Reykjavík sé aukin! Hann vill endurvekja rúntinn og þá þarf að vera hægt að keyra Austurstræti til beggja átta... Maðurinn er búinn að tapa því.
Sjálfur hef ég reyndar haldið því fram að Bankastræti eigi að loka fyrir umferð og raunar Laugaveginum öllum upp að Frakkastíg að minnsta kosti. Hver þarf í alvörunni að keyra þarna? Flestir sem eiga erindi í verslanirnar hafa hvort eð er komið úr nærliggjandi hverfum eða lagt á bílastæðum í nágrenninu. Hreint tölulega séð getur ekki munað um ca. 30 bílastæði og nokkra bíla á klukkustund sem flestir eru hvort eð er að rúnta.
Þessi tvískinnungsháttur Ómars bendir samt á þann vanda sem umhverfismál eiga við að glíma hér á landi, umræðan um þau er ekki á eðlilegum nótum. Við gleymum í þessu eins og svo mörgu öðru að átta okkur á því hvað það er sem við viljum fá út úr umhverfisvernd því að það er ekki bara óljós greiðastarfsemi heldur alvarleg kaup kaups. Við erum bæði of lítið og of mikið sjálfmiðuð í þessu sambandi. Umhverfisverndarsamtök víða um heim hafa t.d. yfir ánægju með "sjálfbær álver" af því tagi sem við byggjum hér og áhrifum þeirra á loftslagið. En íslensk samtök hafa skiljanlega áhyggjur af íslenskri náttúru en minnast ekki orði á ábyrgð okkar gagnvart umheiminum. Við hreykjum okkur af því að framleiða allt rafmagn með hreinni orku og megnið af upphitun húsanna okkar. En á sama tíma notum við óhemju orku í flutninga, innflutt orka (þ.e. olía) er 30% af notaðri orku á Íslandi. Er það ekki frekar dapurlegur árangur miðað við að orkan gýs bara upp úr jörðinni hér?
Átti annars góðan afmælisdag, sushi og kampavín yfir leiknum, svo hélt Árni Matt upp á afmælið okkar með mögnuðum tónleikum á Nasa.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

Afmæli

Já það er engum blöðum um það að flett að ég á afmæli í dag. Nokkur símtöl og tölvupóstar hafa borist það sem af er degi en ég tek við hamingjuóskum fram til miðnættis.
Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að konan mín ætli að gefa mér Sushi að kjamsa á í kvöld. Svo keypti ég kampavínsflösku fyrir jólin sem ég held að sé kominn tími á að smakka á.
Nokkrar gjafir hafa borist en þeim mun ég taka við til vikuloka. Inga Rún gaf mér gullfallegar skóhlífar af gerðinni Swims. Foreldrar mínir gáfu mér grillpönnu, svuntu og hnífapör. Svo var það meistari Trausti Valsson sem gaf mér áritað eintak af nýjustu bók sinni: ?How the world will change with global warming.?

mánudagur, janúar 29, 2007

Ó sjitt

Síðustu dagarnir í DK voru nú erfiðir. Fyrst var lokapartí eftir risa skipulagskúrsinn minn. Prófinu lauk og ég bauð hópnum mínum upp á kampavín og það setti bara tóninn fyrir skemmtilegt kvöld.
Daginn eftir, þ.e. á laugardagskvöldið, var meistari Kenneth Breiðfjörð mættur til að halda upp á þrítugsafmælið sitt. Mikið af félögum hans úr verkfræðinni eru í námi þar svo það var bara ákveðið að halda partíið þar sem fólkið er. Ekki svo galið og ekki svo galið partí. Kenneth tók yfir Pilegården og bauð upp á bjór ofan í liðið. (Sjálfur kann hann að hafa drukkið einn eða tvo umfram.)
Á leiðinni heim fékk ég mér kjúklinga kebab á Runddelens King of Kebab no. 1. Eitthvað fannst mér vera orðið fönkí bragð af honum. Byrjaði svo ferðadaginn á að skila honum sömu leið og hann kom inn. Og það setti bara tóninn fyrir daginn. Ógleði og flugvélar, flugvellir og strætisvagnar... kokteill vanlíðunar. Ég er nú allur að koma til sem bendir til að ég hafi bara fengið gubbupest að heiman frá þessu víðreista liði í afmælinu. En ég held mig samt við þá skýringu að ég hafi í raun fengið matareitrun.
Ætla að taka því með rólegra móti í dag og skelli mér svo í baráttuna með Röskvu á morgun ef guð lofar.

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Kúl að blogga?

Stundum getur maður nú saknað þess að blogga ekki. Eftir að hafa tékkað aðeins á málum get ég ekki séð betur en að það er frekar kúla að blogga ennþá. En á maður kannski að vera á blog.is? Er það meira kúl en blogger? Nei.
Kannski sakna einhverjir lesendur mín bæði í raun og líka á neti. Á netinu hef ég verið meira eða minna horfinn á fjöllum. En í raun hef ég verið í Köben. Góðu fréttirnar eru þær að ég ætla að vera til staðar á neti og í raun um ókomna framtíð. Næstu helgi kem ég aftur heim en fyrst er að taka próf í skipulagsverkefni sem ég hef verið að vinna í síðan í september. Svo verður að sjálfsögðu partí eftir það og þar á eftir mun stórvinur minn Kenneth Breiðfjörð halda afmælisveislu hér í borg. Pökkuð dagskrá eða hvað.
Ég er núna orðinn Röskvu maður. Það kemur kannski ekki sérstaklega á óvart. Ég er frjálslyndur félagshyggjumaður, Atli bróðir minn er í SHÍ fyrir Röskvu og Einar elsti bróðir var í framboði fyrir Röskvu. Sá er að vísu meiri frjálshyggjumaður en flestir í dag og rekur kapítal fyrirtæki í Svíþjóð. (Sem er að vísu dálítið fyndið.) Markmið mitt með því að vera með Röskvu er að koma meistaranemum og þeirra aðbúnaði frekar á kortið. Þetta er ört stækkandi hópur sem þarf sinn málsvara í SHÍ. Þar sem ég útskrifast vonandi í vor verð ég þó bara með um stutta stund.

miðvikudagur, október 12, 2005

Lestur

Allt í einu fór ég að spá hvort nokkur kíki á þetta lengur því ég er alltaf að hætta og byrja aftur. RSS sjúklingarnir munu nú sjá þetta sama hvað en þeir eru nú ekki svo margir. Kannski ég ætti að fara að skrifa í svona dagbókarstíl með tímasetningum og örstuttri lýsingu. Þá ætti færsla dagsins að líta svona út:
Vaknaði við klukkuna kl. 7.30 en nennti ekki framúr svo útvarpið malaði óáreitt til 8.15 þegar ég fór framúr og rauk í tíma hjá Trausta Valssyni.
Gerði grein fyrir verkefni mínu í Mati á umhverfisáhrifum og hlaut lof fyrir ítarlegan texta og góða ensku.

þriðjudagur, október 11, 2005

Kominn á lappir

Sverrir er kominn á lappir. Ég varð eiginlega skítstressaður af því að mæta aftur í skólann eftir viku í rúminu og án þess að hafa gert handtak. Nú vinn ég yfirvinnu við að reyna að koma málum í rétt horf. Meðal þess sem þarf að gera er að klára að skrifa kafla um hafnarstæði víða um landið og umhverfisáhrif þess að setja þar upp olíuflutninga eða vörumiðlunarhöfn. Svo sýndum við Biggi hraðsoðna hugmynd um umferðarskipulag í Vatnsmýrinni. Ætlunin er að taka þéttan vinnufund fyrir helgi og koma fleiri málum á hreint í þessu skipulagsverkefni okkar.
Heyrði í fréttum af skoðanakönnun samgönguráðuneytis þar sem kannað var hvort fólk hefði áhuga á að flytja innanlandsflug til Keflavíkur. Kemur ekki í ljós að landsbyggðin var á móti en Reykvíkingum virtist mörgum vera sama eða fylgjandi flutningnum. Áróður embættismanna landsbyggðarinnar hefur þó haft sín áhrif og vakið samúð borgarbúa sem eru með samviskubit yfir að hafa flutt á mölina. Áhugaverðast var samt að jaðarbyggðir Reykjavíkur, Árborg og Borgarnes o.þ.h. voru frekar fylgjandi flutningi flugsins til Keflavíkur.
Spurning hvort maður eyði laugardeginum á ráðstefnu um skipulag Vatnsmýrar?

föstudagur, október 07, 2005

Veikindaplogg

Nú hef ég legið í á sjötta dag í veikindum og er farið að leiðast svo að ég held bloggfærsla gæti jafnvel drepið niður leiðindin. Kannski munu þá einhverjir með RSS yfirlit yfir bloggið mitt hafa samband og vekja veikann andann minn.
Í veikindum síðustu daga hef ég eignast nýjan vin, sjónvarpið. Ég er alveg flæktur í mikið sjónvarpsnet núna, sérstaklega var gaman þessa tvo daga sem það var opið fyrir stöð 2. þeir á 365 gleymdu nefnilega að kveikja á ruglaranum sínum eftir rafmagnsleysið hér um daginn (ég er hættur að gera dagamun, afsakið). Ég sakna þess mjög að geta ekki horft á rugludallana í Simpsons fjölskyldunni. Kannski verð ég bara að leita á netið eftir efni?
Fékk einhver annar en ég rosalegan bjánahroll við að lesa um það hvernig Kiri Te Kenawa þurfti að biðja fólk um að slökkva á símanum sínum í tvígang? Ég meina hvers konar hálfviti eyðileggur vísvitandi fyrir sjálfum sér 10.000 króna miða með því að vera í sífelldu spennukasti, bíðandi eftir því að Nokia konsertinn hefjist í brjóstvasanum? Nei svona fólk á heima á Litla Hrauni enda búið að valda tugþúsunda króna skaða, spurning hvenær fyrsta skaðabótamálið vegna símhringingar verður höfðað og hvort hægt sé að fá eitthvað út úr því?