Enn skrifa ég og enn með fyrirvara um hugsanlegt frum eða síðeðli bloggsins, þ.e. að þetta gæti verið síðasta blogg sinnar tegundar.
Síðustu daga hef ég verið á nýja vinnustað mínum Valhöll á Þingvöllum. Einmitt hugsið þið sem hafið verið að reyna að hringja í mig undanfarna daga, þess vegna hefur ekki náðst á Sverri! Það er a.m.k. nóg að gera þar og samkvæmt íslenskum stöðlum er það forsenda lífshamingjunnar að hafa nóg að gera sbr. spurninguna: „Er ekki alltaf nóg að gera?“ Sem er í svo aftur spurningin: „Finnurðu lífshamingjuna bærast innra með þér?“ í dulbúningi.
Síðustu dagar hafa verið í meira lagi sérstakir en ég var svo heppinn að vera í fríi þessa rosalegu sumardaga, fór mas á ðe bídsj og allt saman. Hitinn í borginni var í loftinu sem og fólkinu. Nú bíð ég bara eftir að vofu Ceacescu hjónanna (Kann e-r að skrifa þetta í alvörunni?) verði boðið í opinbera heimsókn svona til að toppa þetta allt saman.
Ég lenti í því að það var traðkað á tjáningarfrelsi mínu og friðhelgi einkalífs eins og svo margir aðrir um síðustu helgi. Ég hafði fest upp svona Falun Gong fána í bílnum mínum og svo lagt honum á svæði sem svo varð að öryggissvæði ætlað til þess að Zemin og hörundsára fylgdarliðið færi ekki í fýlu. Hugsanlega gerði ég þetta alveg viljandi. Nema hvað að þegar svæðið er að verða öryggissvæði þá sé ég að löggan er e-ð að bisa við bílinn og er komin með dráttarbíl og allar græjur. Ég fer og athuga málið og er spurður hvort ég sé eigandi bílsins sem ég játa. Þá segir lögregluþjónninn:„Annaðhvort fjarlægir þú fánann eða að ég fjarlægi bílinn.“ Ég innti manninn eftir rökstuðningi sem var eitthvað á þá leið að hann réði en ekki ég, frábært. Ég gerði honum grein fyrir því að mér þætti þetta brot á stjórnarskrárbundnum rétti mínum til tjáningarfrelsis og bað hann að íhuga hvort ekki stefndi í óefni þegar skoðanir almennings væru álitnar hættulegar af ríkinu. Þetta túlkaði lögreglumaðurinn heimski (nr. 8801) sem ögrun og undanbrögð. Í þágu friðar og skort á vilja til að láta draga bílinn minn fjarlægði ég fánann. Vinnuveitanda mínum og samstarfsfólki fannst hegðun mín óskynsamleg en hvernig er það með skynsemi á landamærum skynseminnar? Hver er skynsamur í óskynsömu samfélagi; sá hlýðni og skynsami eða sá óhlýðni og óskynsami? Ég bara spyr. En svona rétt í lokinn vil ég myndskreyta með link,mynd af mér.