þriðjudagur, júlí 30, 2002

Svo virðist vera sem stríð sé komið á en Bragi hefur nú slegið við meti mínu (c.a. 6200 stig) í tunglleiknum góða og náði hann rúmum einum þúsundi stigum meira. Ég mun nú eyða því sem eftir lifir dags í að ná yfir 7.000 stiga múrinn og helst eitthvað betur en það. Reynda má geta þess að þeir bestu eru með í kringum 17.000 stig. Eini leikurinn sem ég til mig geta náð 17.000 eitthvað í væri hugsanlega golf og þá högg en ekki stig.
Annars vil ég fá að skerpa á þeirri staðreynd að Bragi Valdimar er ekki nema hænufeti frá þvi að vera haldinn snilligáfu, óværu sem eingöngu leggst á hina fáu og ólánssömu. Þessi tilvitnun kemur úr smiðju hans og er æði fyndin en dæmi hver fyrir sig (að því gefnu að einhver lesi þetta). Tilurð þessa bréfkorns bar til um þær mundir er finna átti nafn á Þjóðernissósíalistaflokk Þýskalands. Skyldi „Nazi“ vera „Þjósi“ á íslensku?
"Hermann minn, þú ert alltaf svo sniðugur - geturðu ekki fundið eitthvað svona 'inn, hipp og happening' nafn á smá pródjekt sem ég er að starta? - þetta er svona karlaklúbbur - við ætlum að byrja á því að spila RISk og sjá svo bara til hvað gerist - kv, Adolf."

mánudagur, júlí 15, 2002

Tilvitnun dagsins er tvímælalaust eignuð Sigurði Hólm Gunnarssyni (Shogun) þar sem hann var í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 á vegum Siðmenntar: „Ég hafði, eins og yfirleitt, mest gaman af Norðmönnunum.“ Þar hafið þið það og segir það allt um SHG sem segja þarf.


Reyndar eru Norðmenn ekki alslæmir og vonandi eru þeir sammála mér sem sáu Þegar ég sá Jesús ágæta kvikmynd sem sýnd var á laugardagskvöldið. Lítill strákur í norskri sveit tekst á við lífið og sannleikann í yfirvofandi heimsstyrjöld og merkir endalok æsku sinnar við daginn sem klukkan á veggnum stoppaði.


Mér er skapi næst að gera alvarleika, þunga og svartnætti lífsins að ákaflega eftirsóttum eiginleikum. Mér til fulltingis mun ég ráða besta markaðsfólk í heimi og í sameiningu munum við gera ofangreinda eiginleika hipp, kúl og umfram allt vinsæla. Þetta verður svona existentíalísk Britney Spears styrkt af hugmyndasetri Nietzsches í samvinnu við Goth samband Íslands (GSí). Þegar þetta verður, þá mun útfararherbergið á Celtic Cross öðlast vinsældir sem aldrei fyrr og Kaupfélagið mun heita „Café Grimmd“ með undirtitlinum „Örlög hins eigingjarna samfélags (einfélags)“. Mikið hlakka ég til.

laugardagur, júlí 13, 2002

Glymurinn í kvöldfréttabjöllunum var óvenju dómsdagslegur í kvöld enda í þungbúnara lagi. Ég fór að skoða hinn magnaða miðbæ í dag og var nokkuð ánægður uns það tók að rigna. Meðal annarra mikilmenna sem voru á vappi í magnaða miðbænum í dag hitti ég Katrínu, einhvern mesta bloggara sem þetta land hefur alið af sér. Og hef ég nú sinnt hlekksskyldu minni í samfélagi bloggara.


Það hefur hellst yfir mig og ég virðist ætla að drukkna í þeirri hugsun að heimska tröllríði samfélagi voru. Ósköp einfalt er að höfða til heimskunnar enda geta allir verið heimskir ef þeim sýnist, gáfur og þá sérílagi snilligáfa er aftur á móti einungis fáum gefin. Þannig eru vörur ætlaðar snillingum t.a.m. ekki líklegar til að gera framleiðendur sína ríka og mun ég hér stikla á stóru í ástæðum þess. Fyrir hið fyrsta eru væntanlegir kaupendur ekki ýkja fjölmennur hópur og er þetta stærsta ljónið í vegi ríkidæmis kapítaleiganda. Þetta leiðir því til þversagnar því eingöngu snillingur gæti hannað vöru sem væri flestum snillingum þóknanleg enda eru snillingar yfirleitt sérlundaðir eðli málsins samkvæmt. Snillingurinn sem þá þyrfti að finna vöruna upp væri enginn snillingur ef hann legði út í þróunar- og markaðskostnað. En ef við gefum okkur að vara fyrir snillinga rataði upp á yfirborð hugmynda-hafsjós mannkyns þá væri sennilega ekki til sú markaðsdeild sem hefði gáfurnar til að gera vörunni skil með slíkum hætti að snillingur fengi ekki samstundis bjánahrollinn. Og þó svo að einhver markaðsdeild gæti gert viðunandi auglýsingu þá væri vonlaust að finna einn miðil til að kynna vöruna enda er snillingar iðulega sérlundaðir eins og áður hefur fram komið og taka því ekki til sín skilaboð massamiðlanna.


(Ofanskrifað er þvættingur skrifaður í bríaríi en gæti framkallað stöku bros meðal lesanda. Grundvallarvillan í framsetningunni er að sjálfsögðu sú að ekki er gert ráð fyrir því að snillingar fái notið hins einfalda en verði að leita að metnaðarfullu takmarki hvert andartak. Margir snillingar eru metnaðarlausir.)

mánudagur, júlí 01, 2002

Ég heyrði það í útvarpinu í þættinum hans Freysa á næstbestu útvarpsstöð Ríkisútvarpsins að Damon Albarn hafi verið í bænum um helgina. Mér hlýnar ávallt um hjartaræturnar þegar ég veit að hann er ekki orðinn afhuga okkur eyjaskeggjum og finnst sem ég þekki hann persónulega og ætti að bjóða hann velkominn sem slíkan, t.d. með kaffiboði. (Afsakið þetta lítilræði) Ég hef aldrei yrt á manninn og varla þorað að líta til hans þegar ég hef séð hann á vappi í bænum. Svipuð staða kemur oft upp með „venjulegt“ fólk þegar maður þekkir svip þess, nafn og jafnvel fleira um hagi þess en það sjálft virðist aldrei hafa séð mann.
Úr því að ég minntist á Rúv hér í upphafi langar mig til að árétta það að Rás 1 er besta útvarpsstöðin og á hana þykir mér skemmtilegast að hlusta. Þó er ég poppfíkill og hugsanlega verðandi poppstjarna og þá skipti ég yfir á Rás 2 sem er næstbest. Mest svekkjandi er RadioX, af hverju í ósköpunum er það svona léleg útvarpsstöð? Tónlistin sem þar er spiluð er bara alveg (gargg, æluhljóð), ja mig bara skortir orð. Æi svona „Ég er heimskur og graður unglingur úr úthverfum miðstéttar Ameríku og finnst ég afskiptur af foreldrum mínum því sjónvarp hefur heilaþvegið þjóð mína til að halda að foreldrar eigi að hlaða undir mig allan daginn þótt ég píni þau áfram í neyslukapphlaupinu og þess vegna er ég reiður út í allt og alla og hugsa á yfirborðskenndan hátt um merkingu endanlegrar fjarveru minnar af jarðlífi hér og ætla sko ekki að láta valta yfir mig allt mitt líf og hef jafnvel byrjað að undirbúa mig með því að hegða mér dólgslega hvert sem ég fer“ rokktónlist sem er nú alveg gaaa. Og ég veit að Noel Gallagher er mér opinberlega sammála. Af hverju er enginn að kynna fyrir mér allar þessar hljómsveitir sem bresku tónlistarblöðin t.d. tapa sér yfir mánaðarlega? Þau eru alltaf að pissa á sig af spenningi yfir einhverju öndergránd og hipp en við fáum alltaf sama meinstrím sorann og helst frá Amríku sem er alveg glatað. Ég hef ekki tíma né atorku til að fylgjast með þessu öllu og vil að einhver fagmaður aðstoði mig gegnum þetta meðan ég ekki sinni menningarneyslunni betur. Frekar hlusta ég á ekkert en á fullt af sora sem gæti vanist.
Sennilega er þetta allt vandamál af sama meiði, fagmennsku er sérlega ábótavant í fjölmiðlum hér á landi og þess vegna sæki ég í RÚV því þar er fagmennskan í fyrirrúmi og það gerir ólíklegasta efni mjög áhugavert og skemmtilegt. Ég skora á alla að tékka t.d. á svalasta útvarpsmanni í heimi sem virðist reyndar vera í sumarfríi en hefur verið með þáttinn Nýjustu fréttir af tunglinu þar sem hann fer um bæinn með hljóðnema og tekur upp samtöl og hljóð úr umhverfinu. Alveg hugvíkkandi hlustunarreynsla. Svo má mæla með Hlaupanótunni fyrir þá sem leita að nýrri og framandi tónlist og svo auðvitað Víðsjá, sérstaklega á laugardögum fyrir frétta og dægurmálasjúka.
Bylgjan t.a.m. sem hefur stillt sér upp sem valkosti við Rás 2 og er fulltrúi hinna heftu frjálsu fjölmiðla gerir ekkert fyrir mig en að veita mér stanslausan bjánahroll. Einhver frjálshyggjupíkan, drengstauli í Verzló (kemur á óvart) skrifaði að mig minnir í vetur sem leið grein í Mbl. þar sem hann fjallaði um hvað „frjálsu“ fjölmiðlarnir séu áreiðanlegir og nefndi t.d. CNN sem dæmi. Þetta er náttúrulega bara bull því CNN sérstaklega flytur ákaflega einhliða og pólitískt litaða umfjöllun ef þeir ná yfir höfuð að fjalla svo ítarlega um málefni því þar á bæ gildir bara að koma fyrstur með frétt en nákvæmni, dýpt og slíkt er látið lönd og leið. Ríkisstöðvar á borð við BBC eru svo það sem raunverulegir fréttahaukar leita í því þar eru hendur stjórnenda ekki bundnar af fjármagnseigendum. Susarar og frjálshyggjupostular aðrir hafa á einhvern undraverðan hátt náð að sannfæra fjölda fólks að það fari saman að aukinn hagnaður risavaxinna fyrirtækja og frelsi einstaklinga fari saman. Fyrirtæki sem eru stærri að umfangi en sumar ríkisstjórnir eru ekkert gáfaðri í sólundun verðmæta en ríkisstjórnir víða um heim og er síst best treystandi fyrir fé og öryggi borgaranna öfugt við boðskap heilags HannesarHólmsteins. Bendi ég á nokkur dæmi máli mínu til stuðnings: Arthur Andersen, Enron, WorldCom, Xerox, GE, Dilbert, íslenskir athafnamenn, púnktur com.
Úr því að minnst var á sjálfstæðisflokkinn þá var mér hugsað til Sverris Hermannssonar í morgun þegar hluthafafundur Landsbankans var auglýstur í útvarpinu. Hann er að ég held talinn ákaflega illa heppnaður stjórnmálamaður, sérlundaður og ekki vinsæll nema innan mjög lokaðs hóps trillukarla á sunnanverðum Vestfjörðum. Ef svo er var þá ekki svo fyrr? Þessi maður gegndi trúnaðarstörfum fyrir sjálfstæðisflokkinn, sat á þingi fyrir hann og var bankastjóri þá stærsta banka landsins fyrir þeirra hönd. Hverjum datt þetta eiginlega í hug og taldi snjallræði?