Páll Pétursson heitir framsóknarmaður einn sem hefur á undraverðan hátt náð því að verða ráðherra félagsmála. Hann er ljóslifandi sönnun þess að jafnvel þótt heili manns sé fjarlægður og geymdur í krukku geti maður engu að síður náð töluverðum pólitískum frama.
Téður Páll hefur nefnilega komist að því að meðal leiguverð á tveggja herbergja íbúð sé ekki langt frá 35 þúsund kallinum á mánuði. Já þetta er alveg satt; hann má gjarnan hringja í mig ef hann finnur eina slíka (að vísu bara fyrir forvitnissakir því ég er sko búinn að finna íbúð). Tölurnar byggjast á skýrslum skattmanns og einhverjum ámóta gögnum. Aðspurður um hvort þessar tölur endurspegluðu raunveruleikann, hvort ekki væri líklegt að mikið leigufé færi óskráð sagðist hann ekki geta ímyndað sér að svo væri. Nei þú mátt hætta að hlæja núna.
Hvernig getur maður sem er í svona lélegu sambandi við umheiminn komist í ríkisstjórn? Augljóslega eru þetta einhver hrossakaup Sjálfstæðismanna og Framsóknar, á ég þá við hrossakaup í bókstaflegri merkingu orðsins því þetta fer að líta svo út sem Páll hafi átt inni fyrir tvívetrahryssu sem hann seldi Kjartani Gunnarssyni um árið eða eitthvað ámóta lélegt. Hvenær fáum við að sleppa undan ógnarríki þessarra smáborgaraflokka? Tökum Svía okkur til fyrirmyndar á komandi vetri!
Merkilegt hvað Framsókn er með lélega ráðherra: Jón Kristjánsson, Páll Pétursson og Halldór Ásgrímsson, what a team! (Já ég veit að þú manst ekki hvernig Jón lítur út þess vegna er mynd af honum hér.) Þessir menn vita ekkert og þá meina ég ekkert hvað þeir eru að gera. Meira að segja Sturla Böðvarsson kemur vel út úr samanburði við þá bakkabræður úr sveitinni. Enda er hann með vefsetur og allt en fregnir herma að Páll Pé kunni ekki einu sinni á ritvél hvað þá annað.
Linum sársauka Framsóknarmanna og höldum þeim frá ráðuneytum á næsta kjörtímabili. Þetta fer að verða ákaflega vandræðalegt.