mánudagur, september 16, 2002

Páll Pétursson heitir framsóknarmaður einn sem hefur á undraverðan hátt náð því að verða ráðherra félagsmála. Hann er ljóslifandi sönnun þess að jafnvel þótt heili manns sé fjarlægður og geymdur í krukku geti maður engu að síður náð töluverðum pólitískum frama.

Téður Páll hefur nefnilega komist að því að meðal leiguverð á tveggja herbergja íbúð sé ekki langt frá 35 þúsund kallinum á mánuði. Já þetta er alveg satt; hann má gjarnan hringja í mig ef hann finnur eina slíka (að vísu bara fyrir forvitnissakir því ég er sko búinn að finna íbúð). Tölurnar byggjast á skýrslum skattmanns og einhverjum ámóta gögnum. Aðspurður um hvort þessar tölur endurspegluðu raunveruleikann, hvort ekki væri líklegt að mikið leigufé færi óskráð sagðist hann ekki geta ímyndað sér að svo væri. Nei þú mátt hætta að hlæja núna.

Hvernig getur maður sem er í svona lélegu sambandi við umheiminn komist í ríkisstjórn? Augljóslega eru þetta einhver hrossakaup Sjálfstæðismanna og Framsóknar, á ég þá við hrossakaup í bókstaflegri merkingu orðsins því þetta fer að líta svo út sem Páll hafi átt inni fyrir tvívetrahryssu sem hann seldi Kjartani Gunnarssyni um árið eða eitthvað ámóta lélegt. Hvenær fáum við að sleppa undan ógnarríki þessarra smáborgaraflokka? Tökum Svía okkur til fyrirmyndar á komandi vetri!

Merkilegt hvað Framsókn er með lélega ráðherra: Jón Kristjánsson, Páll Pétursson og Halldór Ásgrímsson, what a team! (Já ég veit að þú manst ekki hvernig Jón lítur út þess vegna er mynd af honum hér.) Þessir menn vita ekkert og þá meina ég ekkert hvað þeir eru að gera. Meira að segja Sturla Böðvarsson kemur vel út úr samanburði við þá bakkabræður úr sveitinni. Enda er hann með vefsetur og allt en fregnir herma að Páll Pé kunni ekki einu sinni á ritvél hvað þá annað.

Linum sársauka Framsóknarmanna og höldum þeim frá ráðuneytum á næsta kjörtímabili. Þetta fer að verða ákaflega vandræðalegt.

laugardagur, september 14, 2002

Helstu verkefni mín (fyrir utan samfelldaraflfræði og co) eru rauðvínsgerð og mottugerð. Af víninu er það að segja að ég hef stoppað gerjunina og er það nú að fella en svo heitir það þegar jukkið í víninu, berin og slíkt falla til botns í tunnunni. Innan tíðar mun ég því fara að drekka eigin afurð (oj þér ef þú hugsaðir það!) og hafa öðlast nýja sýn á hvað vín í raun og veru er ásamt því að spara nokkra tíkalla.
Yfirvaraskeggið gengur líka alveg ljómandi vel. Loks létu samnemendur mínir eitthvað í sér heyra um málið í gær þegar þeir voru komnir vel í glas; merkilegt fólk þessir verkfræðinemar. Allar þær þrjár vikur sem ég hef verið í skólanum hefur enginn haft sig í að gera nokkra einustu athugasemd við skeggið en í gær brustu veggir hins afskipta sjálfs og tilfinningaflaumnum skolaðist yfir mig. Algengasta (og minnst frumlega) athugasemdin kenndi mig við þýskan klámiðnað sem mér fannst nokkuð fyndið og bara einusinni var ég kenndur við austur evrópskan þungaiðnað sem mér fannst töluvert svalara. Mest þótti mér þó svekkjandi að enginn sér kúreka þemað eða 19. aldar bóhemið sem eru í raun miklu áhugaverðari mótíf en kannski ekki á færi allra að skilgreina með hliðsjón af sjálfum mér, hugsanlega vegna þess að ég á minna sameiginlegt með síðarnefndum flokkum en hinum fyrri? Ég spyr og get ei svarað.

þriðjudagur, september 03, 2002

Ekki hafa verið kynntar einstaklega bjánalegar fyrirætlanir rekstrarstjóra fasteigna HÍ, Skúla Júlíussonar um að skerða þann tíma sem byggingar Háskólans eru opnar. Það er ekki sem svo að sá tími hafi verið óhóflegur fyrir. Ég mælist til þess að þessi maður verði sviptur starfi sínu hið fyrsta. Fyrir hverjum ætlaði hann að kynna málið fyrst hann sá sér ekki fært að láta nokkurn vita? Ætlaði hann kannski að hafa þetta útaf fyrir sig?

Raunar hefur mér allt frá því ég tók að venja komur mínar í VRII fundist eitthvað asnalegt við það að húsin séu opnuð kl. 7 á morgnana um helgar svo hægt sé að loka kl. 17. Mér fyndist nú nær að opið væri frá 8 eða 9 til 7 eða 8 á kvöldin. Og ekki þótti mér alltaf heppilegt að hafa opið til 22 á virkum dögum því 1-2 tímar til viðbótar hefðu stundum komið sér vel. Grundvallarmisskilningur um eðli bókasafna tel ég að skerði sýn hlutaðeigandi í þessum málum. Hvar stendur það að lesaðstaða og bókasöfn þurfi að vera á sama stað? Hefur engum dottið í hug að meiri þörf er á vel búinni les- og vinnu aðstöðu fyrir hvort um sig einstaklinga og hópa án nokkurrar tengingar við bókasöfn. Svoleiðis aðstaða gæti verið opin allan sólarhringinn (bókasafn HR er opið alllan sólarhringinn) Bókasafnið á VRII er iðulega sneysafullt og notað frá morgni til kvölds og yrði eflaust notað meira ef það væri opið meira.

En hvað er maður að ræða svona hugmyndir þegar Verkfræði- og raunvísindadeild er ekki einu sinni með stofur til að halda fyrirlestra nema helmingur nemenda sitji á gólfinu, má ekki halda dæmatíma í vissum fögum sökum fjárskorts, hefur enga aðstöðu fyrir nemendur til að matast, safnar milljónum á milljónir ofan í skuldir á hverju ári o.s.frv.?? Og þeir kalla sig helstu menntastofnun Íslands?