fimmtudagur, júlí 31, 2003

Blog this

Nú er ég að nota BlogThis! sem ég verð að segja að er nokkuð sniðug græja. Einn hlekkur, allt bloggið. Annars vildi ég að ég gæti lagað stafaruglið í hausnum, kann einhver að laga það? Eins og stendur vil ég fá póst út af: Heimilisföngum til að fá bréf frá Stokkhólmi, Friendster vinum sem vilja komast í minn sístækkandi vinahóp (Katrin.is og ég erum nú orðin vinstur) og upplýsingar um hvernig megi laga stafaruglið í haus sjálfmiðlunarinnar. Já svo ef einhver kann að bæta við hlekkja dálki þá vil ég fá kóðan prontó.

Endirinn nálgast

Loksins sé ég fyrir endann á verkefninu sem ég er búinn að vera að vinna að í sumar. Ekki er seinna vænna því ekki á morgun heldur hinn legg ég í hann til Sverige. Ég er að spá í að bjóða einhverjum í drykki heima að því tilefni. Margir vinir mínir eru þó langtum of bransaðir þessa dagana til að sinna manni. Eiki er að flippa með krökkunum í múm og byrjar heimsreisan þeirra á morgun, fyrsta stopp: Seyðisfjörður! Hasarkroppurinn Victoria Abril kíkti á þau þar sem þau voru að æfa í Elliðaárdalnum í gær og Mbl. - Fólk í fréttum birtir ítarlegt viðtal við Eika um málið. Það eru allir að grilla eitthvað á Seyðisfirði þessa dagana, Benni vinur og Rúnkararnir hans voru þar fyrr í sumar á stórkostlega vel heppnuðum tónleikum þar sem Júlli jó sprellaði á gólfinu meðan hinir tónleikagestirnir voru í sleik úti í horni (já báðir). Nýhil gerði líka stormandi lukku þar fyrir ekki svo löngu með ljóðapartíi sínu.
Svo vil ég taka það fram að ég er að safna fólki í kontakt listann á iPodinum mínum. Nafn, heimilisfang, sími og netfang sendist vinsamlegast á sbollason@hotmail.com.

miðvikudagur, júlí 30, 2003

Kalamazoo

Óvænta partíið mitt í tilefni afmælis Ingu Rúnar var virkilega óvænt og skemmtilegt og þakka ég þeim sem mættu. Fyrr um kvöldið gúffuðum við í okkur á Sommelier sem var hreint ekki svo slæmt. Við sporðrenndum einum fjörfisk, fjögurra rétta máltíð. Nokkuð góð og sérlega vel útilátin þegar upp var staðið. Ég átti þó erfitt með að einbeita mér að þessu gúmelaði því ég var með hugann við partíið sem var að byrja heima.
Karl var svo með sitt þrítugasta afmæli á laugardagskvöldið á Ölstofunni (Hin 29 voru reyndar ekki á Ölstofunni) Það var alveg frabbi sko. Brooklyn five og Harlem four tóku lagið sitt í hvoru lagi og sitt af hvoru tagi. Harlem four virtust líka vera englarnir hans Kalla...
Erkivinir mínir og ágætispiltarnir Maggi og Kjarri litu í mat til mín í gær, það var rokna fínt. Af hverju heldur maður ekki oftar matarboð á virkum dögum spyr ég nú bara? Þetta var hið skemmtilegasta borðhald og var boðið upp á grillaðar marineraðar kindalundir, bakaðar kartöflur og fennel með vermút og gini, Maggi framreiddi rosalega sérríbætta sveppasósu og svo fengum við salat með líka. Vínin Raimat og Trivento voru sérlega góð, þykk og bragðmikil vín sem ég mæli með báðum. Svipuð vín að mörgu leyti, mikið í dökkum plómum og compot pælingum en Trivento með aðeins minni fyllingu fannst mér, þó gæti ég hafa verið orðinn drukkinn eftir fyrri flöskuna.

föstudagur, júlí 25, 2003

Ljóðakvöld og ljóðatöskur
fyrir bækur og flöskur

Lokaljóðapartí Nýhil var haldið á Grand Rokk í gærkvöldi en þeir Nýhilistar voru að koma úr slitróttri ferð um landið sem ku hafa verið svaðilför. Ég segi það satt að aldrei hef ég séð svo marga á einu ljóðakvöldi enda þetta kannski frekar ljóðapartí sem mátti sjá á kveinstöfum bardömunnar yfir hverfandi glösum. Efri hæð G rokks var alveg stöppuð svo fólk átti erfitt með andardrátt og sumir þurftu m.a.s. að fara úr úlpunni. Ég get sagt að Haukur Már, Eiríkur Örn Norðdahl, Haukur Ingvarsson, Jón Steinar Ragnarsson og tvíeyki Dóra og Bödda brútal hafi staðið uppúr og Sara Mahlström líka. Persónulega finnst mér Steinar Bragi vera ofmetinn af því að dæma sem ég sá í gærkvöldi, þótt ekki væri annað. Klám var ríkjandi þema ásamt píkum og tussum eða hjá strákunum a.m.k. Ég mæli með Nýhil.

fimmtudagur, júlí 24, 2003

Kaldhæðni

Kaldhæðni sumra atburða er bara of rosaleg. Borgarfulltrúi í New York sem hefur barist af krafti gegn byssuofbeldi í borg sinni var skotinn í fundarsal borgarstjórnarinnar. Umræddur borgarfulltrúi James Davis hefur m.a.s. fengið leikfangabúðina Toys´rus til að hætta sölu á leikfangabyssum sem líkjast árásarvopnum. Önnur kaldhæðni málsins er sú að banamaður Davis komst vopnaður inn í ráðhúsið vegna þess að hann og Davis komu saman inn í húsið, byssumaðurinn var sem sagt gestur hins myrta.
Annað nokkuð tragikómískt sem ég heyrði í gær var að sjávarlíffræðingur á Suðurskautinu var drepinn af sel þegar hann var að kafa við rannsóknir (líffræðingurinn sko). Selir eru sko engin lömb að leika sér við, sbr. orðatiltækið að verða ekki um sel.

þriðjudagur, júlí 22, 2003

Vinstur

Ég skráði mig á Friendster rétt í þessu og vonast til að komast í samband við furðufugla um allan heim í kjölfarið. Ef þú skráir þig eftir að hafa lesið þetta ber þér skylda til að gera mig að vinstri þínum. Friendster er sem sagt netsvæði sem maður skráir sig á með upplýsingum um sjálfan sig og svo býður maður vinum sínum að skrá sig sem aftur þurfa að bjóða vinum sínum og þar með er maður kominn í hóp með vinum vina sinna. Nokkuð sniðugt myndi ég segja.

Rólegt

Eftir vinnudag sem bar ávöxt undraverðan í vinnulegum skilningi gúffuðum við Inga í okkur Satay fiskrétt frá Fylgifiskum sem er uppáhalds fiskbúðin mín enda með fáránlega sniðugan mat. Maður bara kaupir hann í álbakka og hendir svo inn í ofn í 20 min. Prestó: frábær máltíð á borðum. Við skelltum í okkur glasi af einhverjum Chablis fjanda sem var nokkuð skemmtilegur á köflum en ekkert svo góður. Ég man ekki nafnið svo lýsing kemur síðar. Svo höfðum við það bara kósý og lásum aðeins einhvern úrkynjaðan sora. Toppuðum svo kvöldið með að sitja yfir iTunes að gefa plötum og lögum stjörnur fram á nótt. Allt að sjálfsögðu til að fullkomna virkni iPodsins míns sem er sennilega besta græja í heimi og minn heitir PortaFunk. Svo er líka mögulegt að iTunes sé of gott forrit og til að röskstyðja það vil ég benda á að á PortaFunk er nú sjálfuppfæranlegur listi sem inniheldur alltaf best metnu Guns´n roses lögin. Ég held ég takmarki það svo við 5 mest spiluðu héðan í frá.
Annars eru bræður mínir komnir með vinnu, Atli í Köben við að þrífa flísar og veggi en Einar heldur fjölskyldunni uppi með byggingavinnu í Stokkhólmi. Sjálfur er ég á leið til Stokkhólms þann 2. ágúst n.k. Brynhildur systir og mamma ættu að vera komnar til London núna að gellast eitthvað.

mánudagur, júlí 21, 2003

Helgi

Ferðalangurinn ég lagði í hann um miðjan dag á föstudag í glampandi sól, fangi hefðbundinna farartækja. Leið mín lá í Skagafjörð þar sem ég hugðist kynnast búháttum þar í sveit, kynna mér heyskap og klappa eðla skagfirskum gæðingum. Einnig fór ég að hitta Ingu Rún sem hefur dvalið þar í sveit á Hjaltastaðahvammi síðustu tvær vikur í sumarleyfi sínu. Sigga og Steini á Hvammi og foreldrar Ingu og bróðir tóku okkur með kostum og kynjum. Hent var gaman að mörgu í sveit og þjóð yfir síðbúnum grillverði. Okkur Ingu var svo vart til setunnar boðið, hjálpuðum til við að reka á úr beitarhaga hestanna. Á Sauðárkróki voru markaðs- og bryggjudagar sem ekki mátti missa af frekar en 40% útsöluafslætti í Kaupfélagi Skagfirðinga. Þar var skenkt bjór á götum úti en kuldinn sá til þess að kakóið sem 4. stúlknaflokkur knattspyrnufélagsins var að selja naut mun meiri vinsælda. Sjálfur gerði ég rokna díl er ég keypti þrjá Gajol pakka (Bergmyntu) á litlar hundrað krónur.
Leiðin lá á Húnavelli þar sem ég gladdist með ættingjum mínum yfir því að vera af þeim hjónum Páli Ólafssyni og Arndísi Eggerz úr Vatnsfirði kominn. Sérkennileg hefð að detta í það með hundruðum fjarskyldra ættingja en tala þó bara við þá sem maður þekkir fyrir. Mamma lýsti því líka yfir að okkar tími á ættarmótum væri kominn. Næsta mót verður þó eftir 5 ár og verður Böðvar föðurbróðir minn í nefndinni f.h. okkar leggs, þ.e. það sem undan Böðvari Pálssyni er komið en þau systkini voru 14 talsins og komust 11 á legg að mig minnir.
Eitthvað var rætt um pólitík og trúmál, eldfim málefni sem gaman er að ræða þótt maður skyldi varast að blanda þau með víni.
Á leið til Borgarinnar var komið við í Þingeyrarkirkju og Borgarvirki sem eru merkilegar hleðslur hvort um sig. Þá fórum við Inga líka að Hreðavatni í Jafnaskarðsskóg sem er án efa með fallegri og skemmtilegri stöðum sem maður sér á landinu. Kannski einstök blíðan hafi haft sitt að segja en ég fer ekki ofan af því að þetta sé þrælmerkilegur skógur og skemmtilegt svæði í kring um vatnið. Nokkuð vel geymt leyndarmál í alfaraleið, ætli maður fari ekki með hjól þarna einhvern tímann. Áhugasamir jeppaeigendur hafi samband.

föstudagur, júlí 18, 2003

Er ég vitlaus?

Ekkert gengur mér að setja upp ælukerfi svo aðrir megi spúa galli athugasemda á þessa vefbók (er þetta allt í lagi nýyrði?). Og það þrátt fyrir amk 7,5 í tölvunarfræði 1. Ég bara spyr: Er ég vitlus?

?la

Ég held nú megi æla.

fimmtudagur, júlí 17, 2003

Löns

Hádegismatur í bænum er einn af þeim hlutum sem gera líf mitt óaðfinnanlegt. Hægt er að kúpla sig út úr flötu skrifstofuumhverfinu og drekka í sig miðbæjarmenninguna. Ekki sakar heldur ef matsnautur manns er jafn menningarlegur og Eiki. Sögur af sjávarháska eru líka gott krydd með matnum.

Verkfræði um allan heim

Ég hefi tekið eftir því að þegar talað er um verkfræðinga hér á Íslandi er eiginlega alltaf gert ráð fyrir því að viðkomandi sé byggingaverkfræðingur. Þegar Kanar eiga í hlut og verkfræðingur (e.engineer) er nefndur þá virðist sem gert sé ráð fyrir að sá fáist við forritun eða rafmagnsverkfræði. Skrýtinn munur. Kannski stafar þetta af þráhyggju landa minna til að fjárfesta í steinsteypu eða þá kannski að amerísk hús eru bara hönnuð einu sinni og svo koma þau bara beint upp úr kassa Ikea style.

mánudagur, júlí 14, 2003

M?nudagsm??

Ofnotaðasta tópik mánudagsblogga: mæða.
Skilvirkni vinnu í dag: Eins og á sunnudegi
Helgin, helstu niðurstöður:
Grill á Fálkagötu: ****
Kaffiboð hjá Gunnsu:***
Ölstofan (fös.):***
Jarðarför og sembaltónleikar, hvort tveggja á Suðurlandi:*
Hvítvínssull hjá Helga Sv. með óvæntum endi:****
Cultura:**
Ölstofan (lau.):0
KB:*
Mamas tacos:**1/2 (ég er búinn að vera að spá í að fá mér í allan dag)

föstudagur, júlí 11, 2003

?tal?a - ??skaland, Dipl?matarnir varnarlausir ? fyrri h?lfleik

Rifrildi Ítala og Þjóðverja síðustu vikna tók á sig sérlega grátbroslega mynd nú í vikunni með ummælum Stefanos Stefani um hinar meint þjóðernissinnuðu ljóskur sem eyða peningum sínum á ströndum Ítalíu. Flóð frétta, greininga og meininga byggist upp á netmiðlunum og news.google.com sannar það. Nema að vísu að ég var bara að uppgötva þá síðu og það gæti ýkt áhrifin. Vefþjóðviljinn fjallaði um fyrri hluta deilunnar, Ítalía - Þýskaland, og mæltist nokkuð vel fyrir en að vísu með frjálshyggju veilu í greiningu sinni, þ.e. að gleyma að taka tillit til raunveruleikans. Hversu heiðarlegt sem það er að þá er ekki hefð fyrir því að nefna hlutina réttum nöfnum í pólitík og ekki eru gerðar athugasemdir við hin raunverulegu mein í sambandi diplómata frekar en í samskiptum kynjanna. Þetta er kannski ekki effektívt en það þykir kurteist og það er af einhverjum ástæðum gert sbr. núverandi deilu um hvort Íslendingar megi dæma varnarliðsmenn.

Það var mér alveg dagsljóst að styrinn stæði ekki um ummæli Berlusconis í fyrri hálfleik deilnanna (eða kannski það verði fyrsta fjórðungi) heldur var málið það að Berlusconi er svona álíka huggulegur náungi og Davíð Oddsson og George Bush og því ekki vel séður meðal evrópskra kollega sinna. Diplómata greyin vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið eftir að stórskota fýlubombur flugu búða á milli og gerðu sitt besta til að halda uppi steinrunnum andlitum heflaðra pólitíkusa. En það sem er þó mun áhugaverðara en þessi diplómatíski sandkassaleikur er sú menningarlega umræða sem kemur upp eftir ummæli hr. Stefanis. Meira um það síðar.

fimmtudagur, júlí 10, 2003

Kæru vinir sem lítið hingað inn á hverjum degi í von um að sjá nýja uppfærslu; ég færi fregnir miklar. Ég hef fengið í nóg af því að valda ykkur vonbrigðum og mun héðan í frá reynast ykkur nauðsynlegur hlekkur í upplýsingasamfélagi þjóðanna. Ein ástæðan kann þó líka að vera að mér leiðist óheyrilega akkúrat núna.

Mín ástkæra Inga Rún er í sveitinni að elta hross um fjöll og sléttur en ég er sem piparsveinn í íbúð okkar á Fálkagötunni. Við Bragi áttum saman hádegisverð á Kringlukránni en hann var mér nauðsynlegur til upplyftingar. Við ræddum helst nördaleg efni og undur apple tölvunnar.

M.a.o.: Mig "vantar" iBook eða sambærilegt með combo drifi.

Einnig ákváðum við að drekka rauðvín í kvöld sem piparsveinar værum.