Ferðalangurinn ég lagði í hann um miðjan dag á föstudag í glampandi sól, fangi hefðbundinna farartækja. Leið mín lá í Skagafjörð þar sem ég hugðist kynnast búháttum þar í sveit, kynna mér heyskap og klappa eðla skagfirskum gæðingum. Einnig fór ég að hitta Ingu Rún sem hefur dvalið þar í sveit á Hjaltastaðahvammi síðustu tvær vikur í sumarleyfi sínu. Sigga og Steini á Hvammi og foreldrar Ingu og bróðir tóku okkur með kostum og kynjum. Hent var gaman að mörgu í sveit og þjóð yfir síðbúnum grillverði. Okkur Ingu var svo vart til setunnar boðið, hjálpuðum til við að reka á úr beitarhaga hestanna. Á Sauðárkróki voru markaðs- og bryggjudagar sem ekki mátti missa af frekar en 40% útsöluafslætti í Kaupfélagi Skagfirðinga. Þar var skenkt bjór á götum úti en kuldinn sá til þess að kakóið sem 4. stúlknaflokkur knattspyrnufélagsins var að selja naut mun meiri vinsælda. Sjálfur gerði ég rokna díl er ég keypti þrjá Gajol pakka (Bergmyntu) á litlar hundrað krónur.
Leiðin lá á Húnavelli þar sem ég gladdist með ættingjum mínum yfir því að vera af þeim hjónum
Páli Ólafssyni og Arndísi Eggerz úr Vatnsfirði kominn. Sérkennileg hefð að detta í það með hundruðum fjarskyldra ættingja en tala þó bara við þá sem maður þekkir fyrir. Mamma lýsti því líka yfir að okkar tími á ættarmótum væri kominn. Næsta mót verður þó eftir 5 ár og verður Böðvar föðurbróðir minn í nefndinni f.h. okkar leggs, þ.e. það sem undan Böðvari Pálssyni er komið en þau systkini voru 14 talsins og komust 11 á legg að mig minnir.
Eitthvað var rætt um pólitík og trúmál, eldfim málefni sem gaman er að ræða þótt maður skyldi varast að blanda þau með víni.
Á leið til Borgarinnar var komið við í
Þingeyrarkirkju og Borgarvirki sem eru merkilegar hleðslur hvort um sig. Þá fórum við Inga líka að
Hreðavatni í Jafnaskarðsskóg sem er án efa með fallegri og skemmtilegri stöðum sem maður sér á landinu. Kannski einstök blíðan hafi haft sitt að segja en ég fer ekki ofan af því að þetta sé þrælmerkilegur skógur og skemmtilegt svæði í kring um vatnið. Nokkuð vel geymt leyndarmál í alfaraleið, ætli maður fari ekki með hjól þarna einhvern tímann. Áhugasamir jeppaeigendur hafi
samband.