föstudagur, október 31, 2003

Pólitík

Ég hef verið að velta því mikið fyrir mér upp á síðkastið hvort ég ætti að fara að tala um pólitík á þessu vefræksni mínu. Ég hef þó tekið ákvörðun um að fresta ákvörðun. Ég hef bara ekki haft það mikinn áhuga á slíkum málum upp á hið síðasta svo það verður látið kyrrt liggja. Að vísu mætti til sanns vegar færa að ég er í ídeal stöðu til að velta fyrir mér pólitík sitjandi í einu sósíalískasta ríki vestursins. Ég vil benda áhugasömum á vef World Economic Forum nánar tiltekið mat þeirra á samkeppnishæfni landa. Svíþjóð hafnar í 3. sæti hvað varðar hvort um sig samkeppnishæfni landanna og fyrirtækja þeirra. Ísland er eitthvað neðar en fer hækkandi. (Kannski hljómar þetta eins og ég sé að kópíera moggann án þess að vita það.) Merkilegt hvað svona vinstrióríenteruð lönd komast hátt á þessum lista (þótt að USA sé á toppnum).
Er ekki annars alveg ömurlegt að komast ekki í tíma kl. 10 af því að maður var í rúminu? Vell, sjitt happens. Ég skokkaði stóran hring í refsingar og hressingarskyni.

fimmtudagur, október 30, 2003

Hneppi einhver?

Þeir vita það sem reynt hafa að fátt er leiðinlegra en jöfnuhneppi sem leysir sig ekki.
Annars get ég sagt frá því að ég er yfirbókaður á morgun skv. síðustu fregnum. Mér hefur verið bent á að koma í partí hjá bæði Arkitektúrdeildinni og líka hjá Konstfack (lesist: konstfuck). Þá hefur nærveru minnar verið óskað á tónleikum hjá kunningja mínum Magnúsi. Magnús er kommúnisti, úrillur og við nám í skipulagsfræði hjá mannlandafræði skor Stokkhólms háskóla. Ég býst við að það verði alveg súrt, venjú sem heitir Snövit getur ekki verið góður, en ég mæti fyrir kurteisissakir.
Ég vil minna á að friendster er ennþá nothæfur og nokkuð skemmtilegur þótt hann sé ekki eins skemmtilegur og hann gæti verið.

Hvaða vitleysa

Var ég í alvörunni að tala um grænmetisætur í síðasta bloggi?? Hvað á það að þýða?
Ég get sagt stoltur frá því að ég er nú kominn í átakspakka lífsins. Nú er miskunnarlaust hlaupið á hverjum degi og námið stundað af krafti sem á sér engan líkan. Ég var jafnvel of vel undirbúinn fyrir fyrirlestra dagsins því ég varð bara pirraður á hægaganginum. Eins gott að halda uppi tempóinu.
Ég mæli með að mér verði sendar hvatningarkveðjur svo ég haldi áfram.

mánudagur, október 27, 2003

Vegan foreldrar i fangelsi

þetta er alveg. Ég hef alltaf talið svona vegan matarræði algert bull og í engum tengslum við veruleikann. Veganisminn leyfir engar nytjar af skepnum með eða án sársauka og er mun sjaldgæfara en vanalegt grænmetismatarræði.
Sjálfur er ég svo gott sem grænmetisæta enda bý ég með einni slíkri og kann því vel en það er allt annar hlutur og í raun er grænmetisfæði mun útbreiddara en fólk kannski gerir sér grein fyrir. Indverjar til að mynda eru upp til hópa grænmetisætur svo sem Hindúa trú boðar og í London held ég að áætlað sé að grænmetisætur séu 20% íbúa. Svo er líka mun auðveldara að vera grænmetisæta en marga grunar. Teljið saman allt það kjöt sem þið borðið fyrir kl. 17 á hverjum degi og setjið svo grænmetisstirfry í staðinn fyrir kjúklinginn sem þið borðið í kvöldmat. Það er ekki svo mikið þetta kjöt er það?

'Uje

Ég er á góðri leið með að endurvekja frægð mína, mín frægðarsól er rísandi. Að sjálfsögðu er hér verið að tala um grein mína, króniku ef svo mætti segja um Stokkhólmslífið, í blaði Fólks allra landsmanna s.l. föstudag.
Helginni varði ég í háskólabænum Lundi sem er rosaskemmtilegur staður og eflaust gaman að dvelja þar. Stúdentarnir eru svo margir að ég hef ekki séð annað eins. Allar götur eru fullar af stúdentum kvölds og morgna. Margir á hjólum og margir á spretti eftir strætó.
Egill, Dagný og sambýlisfólk þeirra sáu um mig meðan ég var þar og fékk ég gistingu hjá þeim. Við Dagný og Þóra litum á Malmö á laugardaginn en það er ekki ónýtur bær heldur skal ég segja ykkur. Þar er rosa stórt hótel sem mig langaði einu sinni til að vinna á, af því að það var svo stórt og með glerbyggingu. Torgin litlu leiða eitt að öðru eftir breiðum göngugötum og rosa kósí þannig sko.
Nýr dagur, ný vika og nýtt tímabil í skólanum. Hér eru nefnilega tvö tímabil á önn, gjarnan með prófi á milli. Stuttir kúrsar geta jafnvel tekið enda við svona tímabila skipti. Að sjálfsögðu fylgir öllum svona skiptum áætlun um miklar framfarir í ástundun og skipulagi náms. Betra að fá svoleiðis 4 sinnum á ári í staðinn fyrir bara tvisvar.

miðvikudagur, október 22, 2003

Próf og frí

Ég og bróðir minn eigum nú það sameiginlegt að vera í s.k. vetrarfríi. Hann á Íslandi en ég í veldi Svía. Fyrsta alvöru prófið mitt var rétt áðan og ég er ekki frá því að ég hafi náð og vel það. Ef sænskan mín skilst það er að segja.
Annars get ég sagt frá því að ég fór á tónleika með hljómsveitinni Arab Strap á sunnudagskveldið á drullusvölum stað sem kallast Debaser. Debaser er tónleikastaður í brúarstólpa og verður það vart hrárra né meira neðanjarðar en það. Ég hef aldrei áður heyrt í þessar hljómsveit enda hélt ég lengi vel að diskar þeirra væru smáskífa með hljómsveitinni Belle og Sebastian en þau gerðu lag sem heitir The boy with the Arab strap. Nú eru slík ströpp ekkert það tíð að ég hefði ástæðu til að ætla að hvort tveggja væri hið sama. En nei þetta er nú heil hljómsveit sem er í þokkabót ekkert svo skemmtileg. Tiltölulega þunglyndislegar drunur söngvarans pirruðu mig og öll lögin eru svona um það bil af sama toga. Tónleikarnir urðu fyrst áhugaverðir undir endann þegar söngvarinn sá sér fært að verða þess var að hann stæði á sviði frammi fyrir nokkuð stórum áheyrendaskara. Einhver galaði "Kate Moss" utan úr sal og vakti það mikla kátínu söngvarans sem tileinkaði galaranum lagið. Ég skildi það nú ekki en einhver kynni að geta útskýrt það fyrir mér.
Í dag féll fyrsti snjórinn hér í Stokkhólmi og mér fannst sem jólin væru komin enda snjóar aldrei fyrr en á Þorláksmessu heima. Mikil ósköp. Ég kann að hafa minnst á það fyrr hve mér þykir vænt um að kynnast 4 árstíðum en að mínu mati hefði haust mátt staldra lengur við. Úti falla snjókorn á trén sem enn eru grængul.
Níels minntist á það að ljóð væri í raun bara sérstök gerð línuskiptingar.
Úti falla
snjókorn á trén
sem enn eru
grængul.

fimmtudagur, október 16, 2003

Lat

Sumum dögum hefur verið ráðstafað af einhverjum æðri máttarvöldum gegn viljastyrk okkar. Til að mynda var dagurinn í gær með þeim hætti. Farið á fætur nokkkuð síðar en áætlað var, dvalið of lengi yfir morgunverðarborðinu, farið að versla vegna óánægjum með matarúrval og þá lesið í bók sem skyndilega varð betri en hún hafði verið fram að því. Niðurstaðan varð að sjálfsögðu fullt af ónauðsynlegu dóti gert og hið þarfara sat á hakanum. Dagurinn í dag fer í að leiðrétta þetta. Skamm æðri máttarvöld.

þriðjudagur, október 14, 2003

Muniði??

Mér varð allt í einu og af engri skiljanlegri ástæðu hugsað til Lucky People Center, sænskrar hljómsveitar sem heimsótti Ísland fyrir ca. 7 árum síðan. Mikið rosalega var það góð hljómsveit. Ég sá þau að vísu bara einu sinni og það á síðdegistónleikum Hins Hússins (sem voru einu sinni suðupottur nýrrar tónlistar í borginni við sundin). Ég var svo spenntur að sjá þetta fólk leika listir sínar, að öllum líkindum eftir lofræðu Kidda í Hljómalind án þess þó að ég muni það, að ég sagðist vera veikur og þurfa að fara heim úr vinnunni en fór rakleitt niður í bæ til að upplifa. Ekki gerðist ég það góður að eignast með þeim hljómdisk eða vídeó en þetta var nefnilega svona fjöllistahópur á la GusGus (ef þið munið eftir þeim). Ef einhver þekkir örlög hljómsveitarmeðlima þá má sá gjarnan senda mér línu eða disk með þeim ef þið viljið ekki eiga hann lengur.

mánudagur, október 13, 2003

Ulríksdalur

Í hádeginu rölti ég niður að lókal höllinni minni til að fá mitt konunglega fix fyrir vikuna. Ég get ekki lifað heila viku án konunglegrar tilfinningar nefnilega. Ég missti að vísu af kónginum sem var að setja hina hefðbundnu vinnuviku náttúruverndar sjóðsins. Þetta getur maður lesið í "Konunglegu vikunni" dálki í Svenska Dagbladet á mánudögum þar sem gert er grein fyrir dagskrá konungsfjölskyldunnar.
Á laugardaginn tjáði mér svíi sem var með mér úti á tjúttinu að sennilega væri strákurinn í hinni röðinni í Seven eleven sjálfastur prinsinn Karl Filippus. Ég tók þá að stara og gerði það piltinn mjög órólegan og yfirgaf hann verslunina undir stingandi augnaráði mínu. Við mættum honum svo á leiðinni inn aftur þegar ég og fylgdarlið fórum.
Í fylgdarliði mínu voru m.a. tvær kínverskar stúlkur Mandy og Fanny (nei þetta eru ekki raunveruleg skírnarnöfn þeirra) og átti sú fyrrnefnda afmæli sem mér var boðið í með spænskan nágranna þeirra sem millilið. Þær eru að sjálfsögðu ógeðslega fyndnar týpur og fengu sér ís á leiðinni heim af djamminu. Það þótti mér merkilegt enda aldrei séð annað eins. Góð hugmynd sem ég mun framkvæma við annað tækifæri, þ.e. þegar mér finnst ég ekki vera að herma eftir neinum.

þriðjudagur, október 07, 2003

Er í alvörunni svona langt síðan ég skrifaði á þetta skrípi síðast?
Inga Rún, Forseti Íslands er komin í opinbera heimsókn til mín hér í Stokkhólmi og gistir hún á óðalssetri mínu við Kungshamra. Við höfum rosa gaman að öllu okkar flippi hér og erum búin að rölta um borgina hátt og lágt til að fíla úrban straumana. Ég komst að því að ég er búinn að skoða sum svæði hér mun betur en önnur og hef nú sem sagt fengið tækifæri til að kanna betur það sem varð útundan á fyrra túristatímabili mínu hér, þ.e. þegar ég kom hingað fyrst í sumar.
Stefnan er tekin á söfn svoleiðis dót á eftir. Inga hafði ofan af sér með hrikalegum verslunarleiðangrum meðan ég var í skólanum í gær og ætli hún sé ekki að gera einhverja kaupmenn glaða núna.
Ég er annars að gera verkefni í tölulegri greiningu akkúrat núna og finnst það nett flassbakk frá síðasta vori þegar ég var í sama námskeiði en náði því sem sagt ekki.
Ég er hættur í mekaník, námskeiði sem ég skráði mig í í einhverju flippi. Það var ágætt að rifja upp þau hugtök sem þar voru tekin fyrir en ég nennti nú ekki að fara að stressa mig á einhverju prófi í þessu sko.