Skoðanir
Ég kíkti á hina stórfínu vefsíðu pólitíska áttavitans áðan til að kanna hvernig mitt pólitíska landslag lægi sem er hollt að gera með reglulegu millibili. Dvölin hér í landi sósíalismans hefur fært mig nær miðju (frá vinstri þ.e.) ef eitthvað er. Ég tók tvö próf með ólíkum svörum varðandi hluti sem ég er í vafa um. Annað setti mig í miðjan vinstri/frjálslynda fjórðunginn en í hinu prófinu færðist ég mun nær núllpunktinum en hélt mig þó innan sama fjórðungs. Fyrri niðurstaðan er um það bil sú sama og síðast þegar ég tók prófið en það reyndist jafnframt rétt að ég hef færst nokkuð til hægri í efnahagsmálum en sit fastur við frjálslynd viðhorf mín til mannlífsins. Ég held að þetta sé ásættanleg niðurstaða fyrir mig og samviskuna.
En að mér læðist grunur að maður kynni að blekkja sjálfan sig með svörum sínum í stað þess að svara eins of manni finnst í raun og veru. Í raun ætti maður að eyða nokkrum kvöldstundum í að ræða við hæfilega kunnuglegan einstakling sem myndi í kjölfar umræðnanna svara fyrir mann eins og maður kæmi þeim fyrir sjónir. Og hugsanlega myndi maður gera slíkt hið sama fyrir félaga sinn.
Þá kann það að vera satt að maður hafi ákveðnar skoðanir sem hafa ekki bein áhrif á aðgerðir manns og svör heldur að maður geri sjálfkrafa málamiðlanir í tilteknum málum eða geri undantekningar frá grunnreglu að teknu tilliti til aðstæðna. Til dæmis get ég nefnt það að í grunninn er ég ekkert voða hrifinn af því að fyrirtæki t.d. í matvælaframleiðslu fái styrki frá ríkinu til að halda uppi rekstri sínum reyndar er ég mótfallinn því. En ég get ekki heldur neitað því að mér hrýs lítið eitt hugur við tilhugsunina um að afnema niðurgreiðslur til mjólkur og sauðfjárbænda svo dæmi sé tekið. Sama finnst mér ekki eiga við kjúklingaframleiðendur svo Móar sérstaklega séu tilgreindir.
Ég hvet alla til að líta á stöðu sína á pólitíska áttavitanum núna og svo gjarnan fyrir kosningar. Einhver gáfaður maður mætti svo gjarnan taka prófið fyrir íslenska stjórnmálamenn og flokka og að því loknu senda mér niðurstöðurnar. Póstur
This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.