sunnudagur, nóvember 30, 2003

Skoðanir
Ég kíkti á hina stórfínu vefsíðu pólitíska áttavitans áðan til að kanna hvernig mitt pólitíska landslag lægi sem er hollt að gera með reglulegu millibili. Dvölin hér í landi sósíalismans hefur fært mig nær miðju (frá vinstri þ.e.) ef eitthvað er. Ég tók tvö próf með ólíkum svörum varðandi hluti sem ég er í vafa um. Annað setti mig í miðjan vinstri/frjálslynda fjórðunginn en í hinu prófinu færðist ég mun nær núllpunktinum en hélt mig þó innan sama fjórðungs. Fyrri niðurstaðan er um það bil sú sama og síðast þegar ég tók prófið en það reyndist jafnframt rétt að ég hef færst nokkuð til hægri í efnahagsmálum en sit fastur við frjálslynd viðhorf mín til mannlífsins. Ég held að þetta sé ásættanleg niðurstaða fyrir mig og samviskuna.

En að mér læðist grunur að maður kynni að blekkja sjálfan sig með svörum sínum í stað þess að svara eins of manni finnst í raun og veru. Í raun ætti maður að eyða nokkrum kvöldstundum í að ræða við hæfilega kunnuglegan einstakling sem myndi í kjölfar umræðnanna svara fyrir mann eins og maður kæmi þeim fyrir sjónir. Og hugsanlega myndi maður gera slíkt hið sama fyrir félaga sinn.

Þá kann það að vera satt að maður hafi ákveðnar skoðanir sem hafa ekki bein áhrif á aðgerðir manns og svör heldur að maður geri sjálfkrafa málamiðlanir í tilteknum málum eða geri undantekningar frá grunnreglu að teknu tilliti til aðstæðna. Til dæmis get ég nefnt það að í grunninn er ég ekkert voða hrifinn af því að fyrirtæki t.d. í matvælaframleiðslu fái styrki frá ríkinu til að halda uppi rekstri sínum reyndar er ég mótfallinn því. En ég get ekki heldur neitað því að mér hrýs lítið eitt hugur við tilhugsunina um að afnema niðurgreiðslur til mjólkur og sauðfjárbænda svo dæmi sé tekið. Sama finnst mér ekki eiga við kjúklingaframleiðendur svo Móar sérstaklega séu tilgreindir.

Ég hvet alla til að líta á stöðu sína á pólitíska áttavitanum núna og svo gjarnan fyrir kosningar. Einhver gáfaður maður mætti svo gjarnan taka prófið fyrir íslenska stjórnmálamenn og flokka og að því loknu senda mér niðurstöðurnar. Póstur

This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.

laugardagur, nóvember 29, 2003

Logið upp á útlönd
Sú merkilega tilhneiging hefur tíðkast á Íslandi að ljúga upp á útlönd til að réttlæta einhverja sérvisku heima fyrir. Þá bregða konur og menn fyrir sig frösum eins og En svona gera menn ekki í alvöru samfélögum úti í hinum stóra heimi eða eitthvað ámóta heimóttarlegt. Nú hef ég komist að því að svona er ekki bara logið heima á litla Íslandi heldur er þessari sannfæringartækni einnig beitt í Svíþjóð. Svíar tala mikið um smæð sína og vanmátt gagnvart hinum stóru útlöndum svona nokkurn veginn alveg þvert á þá sem geta lesið þennan texta þótt þeir viti innst inni betur. En hvor tveggja löndin sem teljast til smáríkja, annað þó jafnvel til dvergríkja, geta ekki flúið tærar staðreyndir en keppa þeim mun ákveðnar að því að bæta alla þætti þjóðlífsins til að samanburður við hina stærstu verði okkur ekki til smækkunar þrátt fyrir smæðina.
En stundum gerist það að fólk sem tekur að sér forystu í einhverjum málefnum bítur einhverja sérviskuna í sig og ætlar sér að færa þá siði upp á fólkið, hvort sem það vill eður ei. Það þarf vart að taka fram að slíkar tilraunir eru gjarnan mistækar. Í umræðunni er þá gjarnan gripið til fyrrgreindrar röksemdarfærslu: Svona hafa menn það í hinum stóra heimi, okkar aðferðir þættu bara hlægilegar! Ég hef það að segja um slíkt að heimurinn er hlægilegur og ekkert jafnast á við annað. Eða svo. Tvö nýleg og skemmtileg dæmi vil ég nefna.
(1) Sigurður Einarsson hefur með eftirminnilegum hætti í tvígang sætt gagnrýni fyrir laun sín í ár. Röksemdarfærsla hans hefur verið af Svona er þetta í útlöndum! taginu bæði til að verja upphæðirnar og til að fárast yfir því að framámenn þjóðlífsins hafi skoðun á málinu. Í sömu viku segir Göran Persson forsætisráðherra í viðtali að yfirmenn Skandia lífeyrissjóðsins ættu að skammast sín og skila ofurlaunum sínum sem séu ekki í takt við veruleikann. Á sama tíma hamast pressan á öðrum yfirmönnum fyrirtækisins fyrir óþægilega þægilega risnu í formi lúxusíbúða fyrir yfirmennina og fjölskyldur þeirra. Jafnvel vesalings nýi forstjórinn sem leigði íbúð sem fyrirtækið á til skamms tíma hefur verið gagnrýndur.
(2) Ég las í sumar viðtal við ungan mann sem þá var að taka yfir skemmtanastjórnun á Café Opera sem er staður hinna ungu og ríku og að sjálfsögðu þeirra sem vilja umgangast slíka. Eitt af markmiðum unga mannsins var að eyða röðum til að komast inn. Og útskýringin: Þessi raða kúltúr er bara sérviska hér á landi. Úti í hinum stóra heimi í alvöru borgum eins og London og New York þar standa menn ekki í röðum til að komast inn á skemmtistaði. Það var einmitt það já. Og á hvaða ömurlegu annars flokks staði á maðurinn ungi við? Að minnsta kosti ekki þá staði sem hann ætti að taka sér til fyrirmyndar í rekstri sínum á lúxus veitingahúsi.
Þess má að lokum geta til gamans að áðurnefnt Café Opera komst í blöðin í gær þar sem veitingaeftirlitið gerði athugasemdir við "alltof umfangsmikla áfengisdrykkju" á staðnum. Sænskara verður það ekki.

This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.

sunnudagur, nóvember 23, 2003

Er þetta ekki bara það furðulegasta sem þið hafið heyrt? Ég veit ekki hvort mér þætti þægilegt ef einhver stoppaði mig úti á götu og vildi fá að stinga sér í samband við mig.

This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.

Í morgun (hádeginu) þegar ég vaknaði kyngdi niður slyddu af krafti. Eftir sem leið á daginn varð slyddan þéttari og færðist í snjólíki. Nú er ofankoman vart nema brún blaut hula á götum Stokkhólms.
Það er merkilegt hvað hér dimmir snemma, uppúr hálf fjögur má segja að sé komið myrkur sem verður að teljast fremur snemmt. Þetta er að sjálfsögðu uppspretta mikillar umræðu meðal þeirra stúdenta sem koma frá suðlægari löndum sem að öllu jöfnu myndu ekki telja það eftir sér að hefja verkefnavinnu uppúr sex leytinu og halda áfram fram á síðkvöld en þykir nú sem kominn sé háttatími við kvöldmatarleyti. Ætli ég verði nú ekki að taka undir að hvatningin til að hefja ný verk í niðadimmu er ólíkt minni en í björtu. Sennilega er það þess vegna sem Svíar fara í bælið fyrir kl. 11 og vilja vera komnir af stað fyrir kl. 8.
Ég hugðist fletta upp í almanaki Háskóla Íslands hvenær dimmir heima en til þess verður maður víst að kaupa gripinn. En almanakið á netinu er engu að síður uppspretta mikils kosmísks vísdóms og öllum fróðleiksfúsum er bent á vef þess.
Meðal annars rakst ég á umfjöllun um Brandajól og Stórubrandajól. Ég get bent á að jólin í ár verða löng fyrir vinnandi fólk því annan í jólum ber upp á föstudag og því tveim dögum bætt við jólafríið ef svo mætti segja. Brandajól eru samkvæmt almanakinu þegar jóladag ber upp á sunnudegi en þá eru bara 4 frídagar samanborið við 4 og hálfan eins og málum er háttað nú.

This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.

miðvikudagur, nóvember 19, 2003

Í gærkvöldi skipulagði ég pöbbakvöld fyrir sænskuhópinn minn til að hrista aðeins saman þennan erfiða hóp. Það tókst að sjálfsögðu vonum framar og þeir sem virðast mestu dauðyfli geta verið hinir skemmtilegustu þegar allt kemur til alls. Ég ræddi við tvo frakka sem finnst lítið til verslanamenningar hér koma. Segja þeir þetta allt hinar minnstu verslanir hér í landi og úrvalið lítið. Það kann að vera rétt en þeir vildu líka sjá meira s.k. hypermarkets sem selja næstum allt sem hægt er að ímynda sér í einu rými. Það finnast mér reyndar líka skemmtilegir staðir að skoða en ég er ekki viss um að ég myndi nenna að versla í slíku gímaldi. Þetta eru svona Hagkaup í Smáralind verslanir nema ívið stærri.
Eitt sem Frökkunum þótti til marks um hve lítið land Svíþjóð er er úrval jógúrts í verslunum. Þeir börðu sér á brjóst og sögðu úrvalið af jógúrti eða skyrju eins og fréttaritari RÚV í Madrid kallar það, svo mikið í sínu heimalandi að það gæti tekið uppundir 5 mínútur að finna sína tegund. Hér væru allt of fáar tegundir af þessum mjólkurvarningi. Ég taldi mínum tíma nú betur varið en að leita að jógúrti í 5 mínútur í hvert sinn sem ég færi út að versla. Nei að sjálfsögðu er því svo farið að maður velur sér eina tegund og heldur sig við hana til að geta haft uppi á sínu auðveldlega. Þá er nú betur heima setið en af stað farið þykir mér. Persónulega finnst mér úrvalið í það mesta hér, ég hef að vísu fundið mína tegund og held mig við hana.


This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.

mánudagur, nóvember 17, 2003

Hugljúft

Í gær horfði ég á bíómynd með Bruce Willis í aðalhlutverki manns sem stendur á tímamótum er hann nálgast fertugt. Hann vinnur fyrir sér sem ímyndar ráðgjafi fyrir stjórnmálamenn og annað spillt pakk dyggt studdur af sérlega góðum einkaritara. Líf hans er slétt og fellt ðangað til að einn daginn vitjar æska hans hans í formi 8 ára drengs. Hann lærir sitthvað um sig og fortíð sína í samtali við drenginn. Við áhorfendur fáum að sjá hvernig aðalpersónan fyrirlítur ðennan veiklulega og feita drengsnáða sem er hann sjálfur og hvernig hann nær sáttum við sína eigin fortíð gegnum samtal við guttann. Samtal sem gerir honum kleift að skilja guttann og virða hann fyrir ðað sem hann er og veita honum samúð sína.
Lærum af sunnudags Disney myndum, tölum við æskuna okkar af samúð.

laugardagur, nóvember 15, 2003

Nú er ég bæði kominn með breiðband og einhverja blogggræju sem Bragi benti mér á. Hversu tekk getur maður eiginlega orðið á einum sólarhring?