Fyrir jól sat ég nokkra fyrirlestra hjá stofnun hér í Stokkhólmi, SSES eða frumkvöðlaskóla háskólanna í Stokkhólmi. Þeir voru um margt fróðlegir þótt ekki væri nema til að kynnast sænsku athafnalífi eða sjá stærri hluta samfélagsins en bara verkfræðistúdenta. Fyrirlesararnir voru af öllu tagi, stórir reyndir viðskiptamenn, þeir sem aldrei gátu annað en streðað og nokkrir tónar þar á milli. Meðal fyrirlesara var Frederik Hären sem var einn af skemmtilegustu fyrirlesurum sem ég hef setið undir lestri hjá. Að sjálfsögðu las hann ekkert heldur vatt uppúr sér allskyns hugmyndum um allt og ekkert í einhverju einkennilega rökrænu samhengi. Hären er kostulegur bissnessmaður og hefur aðallega unnið í að setja á stofn fyrirtæki sem gera sem minnst ásamt því að græða peninga. Ídeal fyrirtækið að hans mati er póstbox sem fólk sendir peninga í. Eitt af fyrirtækjum hans, interesting.org sérhæfir sig í að koma með flippaðar hugmyndir fyrir önnur fyrirtæki sem vantar eina slíka.
Ein hugmynd eða raunar greining sem hann setti fram vakti athygli mína og síðan hef ég séð merki um að greining hans eigi við rök að styðjast. Nú síðast á wired.com. Hvað sagði svo maðurinn er lesandinn vonandi farinn að spyrja sig?
Jú hann sagði sem svo: Ég var staddur á Indlandi og ræddi við prófessor í viðskiptafræði við háskóla einn og við vorum að ræða alþjóðleg viðskipti þegar vinnuafl Indlands ber á góma. Þegar talað er um að vestræn stórfyrirtæki nýti sér vinnuafla Indlands dettur flestum í hug verkamenn og verksmiðjur. En prófessorinn hafði aðrar hugmyndir um framtíð síns lands. " Við viljum ekki leiðinlegu illa borguðu vinnuna sem ykkar fólk kærir sig ekki um. VIð ætlum okkur að taka yfir skemmtilegu störfin ykkar. Ráðgjafa og upplýsingatækni störfin ásamt hugmyndavinnunni." Sagði prófessorinn góði.
Og jú gott ef það er ekki bara rétt hjá stráknum, stórfyrirtæki vestursins snúa sér til hins ofgáfaða indverska forritara fyrir kannski þriðjung eða fimmtung þess sem amerískur kollegi hans kostar. Þetta eru mikil tíðindi en kannski ekki í fyrsta skipti sem þessi umskipti verða í heiminum, að störf flytjist austur þar sem hægt er að gera þau fyrir minna og jafnvel með meiri gæðum.
Einn annar vinkill er svo til sem athyglisvert væri að reifa, nefnilega stöðu Evrópuhippans, andstæðings alþjóðavæðingar í þessu máli. En það verður að bíða betri tíma.
Kveikjan að því að ég fjalla um þetta nú er greinaflokkur á wired.com sem fyrr greindi.
This weblog entry was posted with Frequency by Brad Rhine.