föstudagur, febrúar 27, 2004

og bara eitt enn

Ég hrópa út til Heimdalls fyrir ályktun sína þess efnis að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Svo minnast þeir einnig á flutning Hringbrautar og það slys sem þar er í vændum. Ágætt framtak þeirra en ekki má gleyma því að umræður um flugvallarmálið fóru svo hátt sem raun bar vitni fyrir tilstilli kosningar um málið. Ég man ekki betur en þá hafi heimdellingar verið óánægðir.
Skemmtileg samsvörun í þessu er svo að álýktun súsara kemur nokkru eftir ályktun Ungra Jafnaðarmanna í Reykjavík sem hreyfðu við Hringbrautarfærslunni og allri þeirr histeríu fyrir réttum tíu dögum síðan. En meira um Hringbraut síðar.
Ég býð Heimdall velkominn í flokk vina Reykjavíkur og óska þeim til hamingju með vel framsett rök fyrir ályktun sinni. Sér í lagi fannst mér vænt um þá athugasemd að almenningssamgöngur hafi farið illa út úr núverandi skipulagi Reykjavíkur og hlakka ég til að heyra fleira skemmtilegt frá þeim um hvernig megi bæta almenningssamgöngukerfið.
Þá vildi ég beina þeim tilmælum til þeirra að beita öllum sínum áhrifum til að henda Sturlu úr Samgönguráðherraembættinu í komandi umbreytingum og refskák á Stjórnarheimilinu og að settur verði inn góður og gegn Reykvíkingur í það embætti til tilbreytingar. Talsmenn dýrra og gagnslítilla framkvæmda á afskektum stöðum eru orðnir bara aðeins of pirrandi sem samgönguráðherrar.

fimmtudagur, febrúar 26, 2004

Merkilegt

Já og svo vil ég plögga aðeins. Ég sá nefnilega merkilegt forrit hjá Einari bróður mínum sem ég hef hafið notkun á, Skype að nafni. Skype er forrit sem gerir manni kleyft að tala yfir netið með notkun P2P tækni sem hefur fært okkur hinn undraverða heim ólöglegra niðurhalana. En óttist ei símtöl yfir netið eru ekki ólögleg. Þetta forrit er merkilega einfalt í notkun og smýgur gegnum eldveggi ólíkt msn og er því nothæft á vinnustöðum með varin tölvukerfi. Ég hef notendanafnið Sverrirbo ef þú skyldir vilja hringja í mig.

Verkefnalok

Loks hef ég lokið þeim tveim verkefnum sem ég hef verið að vinna að undanfarnar vikur í skólanum. Umferðaspár verkefni ásamt umferðar og byggðaskipulags verkefni. Hið síðara fór nú meira púður í og var því lokið seint í kvöld. Ég fékk svo mikið instant spennufall að ég held að ég sé að fá flensu í kjölfarið.
Ég er að velt því fyrir mér hvort ég sé að verða óheyrilega leiðinlegur samanber síðustu færslu mína... ég virðist fara í einhvers konar leiðndatrans stundum þegar ég skrifa á bloggið og ranka ekki við mér fyrr en ég hef póstað færsluna.

þriðjudagur, febrúar 24, 2004

Lokað safn, ónýt auðæfi

Ef þið skylduð ekki muna eftir því þá eigum við til Þjóðminjasafn sem hefur sinn aðalsýningarsal á horni Hringbrautar og Suðurgötu. Umhverfi þessa húss hefur fyrst og fremst verið til að hindra umferð hjólreiðamanna upp á síðkastið og svo hafa framkvæmdirnar kringum húsið að manni skilst helst verið féþúfa verktökunum til handa. Mitt fyrsta ár í Háskólanum sá ég aldrei svo mikið sem einn mann vinna við húsið en nú er komið skrið á málið og stefnt er að opnun í sumar (lesist rétt fyrir jól). Sem sagt þá er þetta mál mér allt til mikils pirrings en á sama tíma er mér mikið létt að loksins skuli þjóðin fá að heimta eigur sínar úr gíslingu menntamálaráðuneytisins.
En af hverju skildi Sverrir vera svona pirraður yfir þessu máli núna? Gæti einhver verið að spyrja sig. Jú það rennur nefnilega alltaf upp fyrir mér með reglulegu millibili að þetta ágæta safn standi mér ekki opið og að þess vegna hafi ég farið á mis við eitthvað. Ég velti þessa dagana aðeins fyrir mér íslensku handverki, gripum, tólum og táknum sem liggja óhreyfð eins og gleymd minning sem ég verð æfur á að reyna að kalla fram en get ekki.
Að vísu myndi fjölmiðlafulltrúi Þjóðminjasafnsins andmæla þessu nú og segja að safnið hafi bara víst staðið opið bara ekki á Hringbrautinni heldur viðs vegar um landið og að Þjóðminjasafnið reki 43 hús um allt land o.s.frv. en það er einmitt málið, ég eins og flestir Íslendingar bý bara ekki víðs vegar um landið heldur á mjög afmörkuðu svæði suðvestanlands. Svo voru að mig minnir haldnar nokkrar þjóðlegar áróðurssýningar í húsakynnum Landsvirkjunar í sumar og þá er ég ekki að meina inni við Kringlumýri heldur í virkjunarbyggingum hér og þar um hálendið. En það er bara ekki málið ha? Er það? Þrátt fyrir allt gjálfur um að safn sé nú ekki hús heldur starfsemi bla bla bla þá skiptir það bara engu máli í þessu samhengi. Mikilvæg og merkileg starfsemi á borð við þjóðminjasafnsins er ekki neins virði fyrir hinn almenna borgara ef hún stendur honum ekki opin í viðeigandi umhverfi.
Ég mun þó fara og kynna mér handverk víkinga annars staðar, í alvöru þjóðminjasafni sem stendur mér opið og segir mér sögu mína. Í Þjóðminjasafni Svía, nema hvar?

mánudagur, febrúar 23, 2004

Frequency svíkur

Hmm svo virðist sem að Frequency sé eitthvað að blekkja mig og sjálfur kíki ég sjaldan á eigin síðu en ég síðustu 2 færslur virðast alls ekki hafa birtst. Þessi birtist ekki heldur að því er virðist. Hefur einhver annar átt í vandræðum með þennan gallagrip?
Ekki alls fyrir löngu reifaði ég hér klögumál þar sem ég var í senn sakaður um yfirborðsmennsku og andlýðræðislega tilburði. Fyrst og fremst fyrir skort á athugasemdakerfi hér á Sjálfmiðluninni. Því mun nú hafa verið kippt í liðinn og hefur hið ágæta ameríska Haloscan fyrirtæki styrkt það verkefni. Haloscan sem fyrst og fremst hefur stundað rannsóknir á geislabaugum gegnum tíðina fann upp þetta athugasemdakerfi til að auðvelda innri samskipti í fyrirtækinu og til að gefa rannsóknarfólki færi á að gera fljótfærarar og illa ígrundaðar athugasemdir við vinnu félaga sinna. Að sjálfsögðu reyndist það illa og var byrði uppfinningarinnar varpað yfir á saklausa netverja.
Njótið vel.

fimmtudagur, febrúar 12, 2004

List og slíkt

Nú er ég að vinna í ótrúlega skemmtilegum kúrsi, jafnvel með ágætu fólki. Með mér í hóp eru 3 flippaðir svíar sem eru bara hreint ekki svo slæmir. Húmorískir og jafnvel allt að því spontant. Við erum að reyna að komast að því hvers konar umhverfi sé best í heimi fyrir fólk að búa í og höfum verið að skissa upp ýmis plön fyrir fólk til að eyða lífi sínu í. Stórgaman myndi ég segja. Hingað til hef ég náð að sannfæra félaga mína um að rúðustrikaða götuplanið sé hið besta í heimi og að nauðsynlegt sé að hafa fallegt endamál á sjóndeildarhring hverrar götu. Þetta er nú viðurkennt.

Ég hefi tekið listaprófið sem Bragi tók fyrstur manna í heiminum og niðurstaðan kemur ekki á óvart sbr. alla mína leiksigra. Ég er samt efins um að ég sé svo rosalegur sögumaður sem segir í niðurstöðunum en mjög góður samt.

Drama
You are Drama.
You are extroverted and like to show off, but can
be very subtle and intelligent when you want.
As an expert at story-telling, you love
attention and have developed the skill of
keeping it.
You get along well with Literature and Film.


What form of art are you?
brought to you by Quizilla

þriðjudagur, febrúar 10, 2004

Að töfum loknum

Ég get varla hætt að lýsa aðdáun minni á 4 árstíðum. Ég er búinn að fá leið á þessu tveggja árstíða kerfi sem er á Íslandi, annað hvort er fremur kalt eða aðeins heitara. Þær aðstæður sem eru hér í Svíþjóð eru mun meira í takt við hið hefðbundna 4 árstíða kerfi sem okkur er kennt um. Það er kannski ekki nema von að íslensk börn finnist þau vera ráðvillt undir slíkum lestri. Hér er amk sumar sem getur verið allheitt svo að fólk jafnvel líði betur í léttum og stuttum fötum. Sumaraukar geta staðið fram í miðjan september. Haustið er svalara, votara og hvassara jafnvel og stendur fram desember en þá byrjar vetur. Veturinn er mjög kaldur og hér hafa verið milli 5 og 10 mínus gráður nokkuð mikið. Hann er þó ekki alveg laus við sjálfsmyndarvandamál íslenska vetursins sem tekur grátköst af ótta við að vera kannski bara haust og gerir slabb af snjónum sem fallinn var. Vorið á ég eftir að sjá en ég hef á tilfinningunni að það verði nokkuð gott. Ég er amk kominn með vott af vorfiðringi eftir því sem ég sé meira af sólinni.