og bara eitt enn
Ég hrópa út til Heimdalls fyrir ályktun sína þess efnis að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni. Svo minnast þeir einnig á flutning Hringbrautar og það slys sem þar er í vændum. Ágætt framtak þeirra en ekki má gleyma því að umræður um flugvallarmálið fóru svo hátt sem raun bar vitni fyrir tilstilli kosningar um málið. Ég man ekki betur en þá hafi heimdellingar verið óánægðir.
Skemmtileg samsvörun í þessu er svo að álýktun súsara kemur nokkru eftir ályktun Ungra Jafnaðarmanna í Reykjavík sem hreyfðu við Hringbrautarfærslunni og allri þeirr histeríu fyrir réttum tíu dögum síðan. En meira um Hringbraut síðar.
Ég býð Heimdall velkominn í flokk vina Reykjavíkur og óska þeim til hamingju með vel framsett rök fyrir ályktun sinni. Sér í lagi fannst mér vænt um þá athugasemd að almenningssamgöngur hafi farið illa út úr núverandi skipulagi Reykjavíkur og hlakka ég til að heyra fleira skemmtilegt frá þeim um hvernig megi bæta almenningssamgöngukerfið.
Þá vildi ég beina þeim tilmælum til þeirra að beita öllum sínum áhrifum til að henda Sturlu úr Samgönguráðherraembættinu í komandi umbreytingum og refskák á Stjórnarheimilinu og að settur verði inn góður og gegn Reykvíkingur í það embætti til tilbreytingar. Talsmenn dýrra og gagnslítilla framkvæmda á afskektum stöðum eru orðnir bara aðeins of pirrandi sem samgönguráðherrar.