þriðjudagur, apríl 27, 2004

Rætt um umhverfismál

Var í tíma áðan þar sem voru sett á svið samningaviðræður um umhverfismál í einhverri nefnd. Frekar skemmtilegt bara nema að sumir voru aðeins meira með á nótunum en aðrir og þess vegna ekki alveg flowing samræða í gangi. En þetta var hressandi, sjálfur lék ég hlutverk "self acclaimed militant environmentalist." Frekar gott mál sko.
Ég fór samt að velta fyrir mér hversu miklar kröfur eru gerðar til fólks að ræða mál á ensku miðað við hvað fólk kann í raun. Það er ekki endilega svo mikið, sérstaklega átti nú svíinn í hópnum erfitt með að tjá sig en skiptinemarnir kláruðu dæmið sæmilega enda tala þar flestir ensku daglega. En það er ákaflega erfitt að gera skiljanleg fínleg smáatriði og blæbrigði við svona misjafnan hóp. En kannski skiptir það hreinlega ekki máli því önnur atriði í tjáskiptunum verða bara yfirsterkari?
Ég er nú reyndar miklu meiri málamaður en svo að ég vilji taka því vegna þess að mér finnst að blæbrigðin og framsetningin í málinu séu mikilvæg í samræðunni. Kannski ég ætti að stofna samræðuklúbb til að æfa samræðulistina? Það væri nú skemmtilegt að hittast nokkur og keppa í flúrmáli einhvern eftirmiðdaginn. SKráning í klúbbinn hér að neðan.
Og aðeins um kynjamyndir, ég sá algerlega hvernig kynmiðuð ritstýring getur fullkomnlega breytt afstöðu manns til mála í gær. Svíar eru mjög genus meðvitaðir og stýra allskyns málum frá því sjónarmiði að rétta hlut kynjanna. Í gær sá ég sem sagt sjónvarpsþáttinn Kontroll sem fjallar um tölvuleiki. Mjög skemmtilegur þáttur, sögu innskot með viðtali við stofnanda Atari og nýir og væntanlegir tölvuleikir teknir fyrir. Það merkilega er hins vegar að allir ráðgjafar stjórnandans voru stelpur og líka gestir þáttarins. Hann að vísu strákur en allir dómarnir og allt álit sem fengið var á leikjum gáfu stelpur. Og þetta bara kollvarpaði hugmyndum mínum um samband stelpna við tölvuleiki, þótt það breyti svo sem ekki því að þær eru enn miklu færri spilarar en strákar. En sérstakt að sjá þetta bara gerast í sjálfum sér, viðhorfsbreyting á punktinum.

laugardagur, apríl 24, 2004

Nammi namm

Ég keypti mér eina flösku af Stellenzicht - Golden Triangle Shiraz frá S. Afríku 2001. Mikið ofboðslega var gaman að smakka það. Hressilega piprað með lakkrís og kannski smá myntutón. En líka með þetta fína mjúka bragð í lokin borið uppi af einhverju sem líktist möndlum eða bara marsipani. Mér sýnist þetta fást í ríkinu en myndin er af 2000 víninu en ekki 2001 að mér virðist.
Fór annars aðeins á barinn með Elínu og vinum hennar í gærkvöldi, allt prýðilegasta fólk og mjög mikið í hugleiðingum um kyn og samfélag. Ég er nú ekki það góður í sænskunni að ég fylgi alveg samræðum um slík málefni á börum en hins vegar kom uppúr dúrnum að einn gaur sem bættist í hópinn hafði eytt einhverjum tíma í Reykjavík. Hann spurði mig forviða hvaða vitleys það væri að hafa yfirgefið þann ágæta bæ fyrir Stokkhólm. Ég svaraði bara með einhverri loðinni speki um grasið og það sem er hinumegin.
Svo var þarna ein stelpa sem lærir læknisfræði í Ungverjalandi og þekkir því alveg ógrynni Íslendinga. Sú þekkti líka dyravörðinn á barnum síðan hún var þar fastagestur fyrir einhverjum 4 árum síðan. Hún bara skrúfaði frá sjarmanum á þennan gamla félaga (hafði reyndar ekki svo mikið fyrir því að fá út þennan sjarma sko) og... voila fyrr en varði var hann búinn að bjóða uppá rauðvínsflösku. Og hún hafði ekki hitt gaurinn í fjögur ár!
Ég sé einhverja bargelluna á Thomsen í anda rjúka á mann og heimta að maður þiggi nú einn G&T "for old times sake." Right.

fimmtudagur, apríl 22, 2004

Níels hvetur

Ég leit á blogg góðvinar míns Níelsar og var hvattur til að tjá mig um kuskmál. Ég hef ekkert um það mál að segja.
Mér var hins vegar boðið að gerast gmail notandi... það þykir mér gott mál bara og ég skráði mig í snatri. 1gb af plássi og bara ljúft líf sýnist mér. Hafa fleiri fengið svona boð eða er ég bara svona heppinn?
Ég ætti að vera að lesa af kraftir fyrir próf í fyrramálið, Líkindareikningur og tölfræði heitir það. Tja, ég veit ekki hvernig það verður.
Undanfarið er ég búinn að vera með dellu fyrir klæðskerasaumuðum fötum og jafnvel skóm. Og er alvarlega farinn að spá í að panta mér skyrtur frá Bangkok, 3 á 90$. Það eru kynjakaup myndi ég segja. Og ef þær reynast vel nú þá er bara að fá sér jakkaföt líka. Kannski maður ætti bara að fara sjálfur þarna suðureftir og kaupa kannski 5 föt og allnokkrar skyrtur?
Klæðskerarnir á Savile Row 8 mæla með því að í fataskáp herramanns séu minnst þrenn föt úr þungu efni, 5 úr milliléttu efni og þrenn úr léttu sumarefni í viðeigandi litum. Þá telja þeir að komast megi af með þrjá frakka. Ég hugsa að ég taki mat þeirra til skoðunar og reyni að safna í slíkan skáp. Vitanlega þarf maður á þykkum vetrarjakkafötum að halda, mér hafði bara aldrei hugkvæmst að líta efni jakkafata þeim augum fyrr. Þeir segja það á S.R. 8 að slík föt séu heppileg fyrir vetrarerindi í London og Moskvu ásamt því að henta vel fyrir blóðkalda kaupsýslumenn.
Svo þarf maður ekki færri en tvö pör af sérgerðum skóm enda þurfa slíkir gripir hvíld annan hvern dag og endast þannig í 10 ár.

laugardagur, apríl 17, 2004

Fríkí

Ég var í námskeiði með tveim eldri mönnum sem hefðu ekki getað farið framhjá neinum. Annar er innflytjandi frá Nígeríu sem talar alltaf eins og hann sé rosalega reiður og hreytir orðunum útúr sér en er að öllu öðru leyti nokkuð glaðlyndur. Af og til vitnar hann í eigin gjörðir fyrir mörgum árum síðan og birtist manni þannig sem misskilinn snillingur. Hinn hefur andlitsgerð sem eingöngu er möguleg í skrípateikningum eða í Monty Python eða svo hefði ég amk haldið. Stórt rautt nef fleygt á flatt andlit, stingandi augnaráð og risavaxinn kjaftur með þunnum vörum undir þykku yfirvaraskeggi. Svo hefur hann einhverja mest stressandi holningu sem sést hefur því hann stendur svo sperrtur að loftið kringum hann fyllist spennu og pirringi sem hefur sennilega aldrei stutt almennt málæði hans.
Það merkilegasta kringum þetta merkilega tvíeyki kom fram í gær. Þeir féllu báðir á prófi þrátt fyrir að ég hafi sjálfur séð einbeitinguna sem skein af öllu líkamstáknmáli hins síðarnefnda og svo var hann líka með gular iðnaðarheyrnarhlífar í prófinu. Hinn virtist nú vita eitthvað en sennilega var það allt gömul þekking sem hann gat ekki komið áleiðis skriflega. En hann er líka bróðir Dr. Albans. Nei ekki grín.

föstudagur, apríl 16, 2004

Kynnið ykkur málið, sannfærist og skrifið undir.

Jetset

Fálkagata í 107 Rvk. til Kungshamra í 17070 Solna á 7klst. 40 min. Nú er ég kominn aftur hingað út eftir ferð til NY og Rvk. og er því með heví jetlag og nenni ekki að segja meira frá því að sinni.