þriðjudagur, maí 25, 2004

Ömurleg könnun

Jæja þá er ég nú búinn að losa mig við þessa Bravenet könnunar ómynd sem var hér við hliðina á. Miklu vinalegra format líka komið nú frá einhverjum net hugsjónarmanninum sem vildi gefa netinu eitthvað því það hefur gefið honum svo mikið. Sætt, nördalegt og án efa sá hugsunarháttur sem er bjartasta hlið netsins.
Svo hef ég sett upp hnapp með mynd af hnefa byltingarinnar eða svo minnir mig að AK-47 hafi verið kallaður enda ekkert vopn verið notað við jafn mörg valdarán í heiminum.

sunnudagur, maí 23, 2004

Víst var það dularfullt

Mér þótti það alltaf dáldið einkennilegt að fangi uppreisnarmanna sem var hálshogginn í sjónvarpi hafi verið í svona appelsínugulum fangabúning. Hvers konar hryðjuverkamenn eru það sem hafa efni á sérstökum fangabúningum fyrir fórnarlömb sín?
En jæja hér er búið að safna saman einhverju fleiru í samsæriseknningu.

Besti stjórnmálamaður í heimi

Donní Rumsfeld snjallasti alþjóðlegi stjórnmálamaðurinn sem náð hefur að fylkja heiminum að baki sér í herför sinni s.l. mánuði lék snilldarbragði rétt í þessu. Hann ákvað að banna hermönnum sínum að hafa með sér hvers kyns myndatökubúnað, sennilegast vegna þess að einhverjir voru að taka myndir af aðförum félaga sinna í Írak. þetta kænskubragð er gjarnan kallað "ef við sjáum ekki vandamálið þá er það ekki til staðar" Eða líka strútsaðferðin sem er að vísu móðgun við strúta því það hefur komið í ljós að þeir stinga höfðinu í sandinn til að leita að fæðu en ekki til að "fela" sig fyrir ógn.
Að vísu er ég nú helst sammála þeim sem líta á þetta pyntingarmál í Írak þeim skynsemdaraugum að benda á að mannvonska er óhjákvæmilegur fylgifiskur stríðs. Það er alveg sama hversu hátæknilegt stríð er að þeim fylgja alltaf þjáningar, harmur, hatur og sársauki til lengri og skemri tíma. Hermenn munu alltaf deyða og niðurlægja andstæðinga sína, til þess voru þeir sendir; ekki til neins annars.

laugardagur, maí 22, 2004

Til hamingju Atli

Atli bróðir minn, snillingur, ræðumaður, músíkant og lífsnautnamaður mun útskrifast frá þeirri ágætu menntastofnun Menntaskólanum við Hamrahlíð í dag. Því miður mun ég ekki geta verið viðstaddur en hugur minn er hjá honum. Þetta er mikið merkisafrek hjá kappanum því þrátt fyrir kraftmikla aðkomu að félagslífi skólans og eigin tónlistargerðar hefur honum tekist að klára námið á eingöngu þremur árum. Ég óska honum innilega til hamingju með daginn.

fimmtudagur, maí 20, 2004

Ekki úr Stúdentablaðinu

Ég skrifaði stutta grein í vetur og ætlaði að fá birta í Stúdentablaðinu en ritstjórinn virðist ekki hafa haft áhuga á að birta hana að svo stöddu. Sjálfur var ég nú helst á að fá hana birta meðan ég væri í útlöndum svo ég sætti engum hótunum í kjölfarið a.m.k. ekki líkamlegum. En hérna kemur spekin, njótið.

Bílastæðavandamál Háskóla Íslands
Fjármál Háskóla Íslands liggja á aðgerðaborðinu og verið er að leita að hverjum þeim anga sem hægt er að klippa burt án þess að kroppurinn láti undan. Rökréttast er að álykta að óþarfinn verði að víkja fyrir þarfanum og að Háskólanum verði gert fært að einbeita kröftum sínum og fjármunum að þeim hluta starfseminnar sem til móðs er að kalla kjarnastarfsemi.
Einn stór þáttur í rekstri skólans virðist ekki hafa verið rifinn úr kroppnum enn, en ég tel mikilvægt að athuga hvort ekki ætti að gera það hið fyrsta. Þau eru 1700 talsins og má því ætla að þau þekji 30-40 þúsund fermetra á einhverri dýrustu lóð landsins. Þetta eru bílastæði Háskólans sem gefin eru stúdentum og starfsliði á hverju ári.
Bílastæði og hádegisverðir eiga það sameiginlegt að vera aldrei ókeypis, á endanum borgar alltaf einhver. Í þessu tilfelli H.Í. og í raun og veru þýðir það að bílakandi stúdentar njóta styrkja úr sjóðum skólans umfram aðra. Þetta er óréttlæti og því verður að taka á, sérstaklega þegar verið er að sauma að þáttum sem tilheyra kjarnastarfsemi H.Í.
Í landi bílsins, Bandaríkjunum lærðu menn að skipuleggja fyrir bílinn sem aðalsamgöngutæki eins og hann er á Íslandi. Þar er ekki til það fyrirbæri sem heitir ókeypis bílastæði við skóla af neinu stigi. Meira að segja við grunnskóla verða nemendur að borga ársgjald fyrir að leggja við skóla ásamt því að hafa tiltekna lágmarkseinkunn við suma skóla. (nb. í BNA er hægt að fá bílpróf sextán ára) Þegar foreldrar mínir voru í námi í Bandaríkjunum tóku þau yfirleitt strætisvagn beint í skólann eða ef þau voru á bílnum fyrir skóla lögðu þau í útjaðri kampusins og tóku strætó þaðan af því að bílastæðagjöldin inni á kampus voru svo há. Hér við Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi eru öll stæði gjaldskyld. Og svo framvegis uns lesandinn ætti að sjá að skólar eru almennt ekkert opnir fyrir því að greiða niður bílakostnað nemenda sinna. Það er að Háskóla Íslands undanskyldum af einhverjum ástæðum.
Rekstrarstjórn H.Í. var ekki reiðubúin að láta mér í hendur neinar tölur um kostnað sem skólinn verður fyrir við rekstur bílastæðanna en ætla má að hann sé töluverður. Ef litið er til fjárfestingakostnaðar vegna bílastæðanna er alveg ljóst að þar sem engar tekjur verða til að þá eru þau ekki arðsöm og jafnframt má segja að óheyrilegt tap verði vegna ónýttra fjárfestingamöguleika á þessu flæmi á besta stað í bænum.
Framboðið af bílastæðum er takmarkað en eftirspurnin virðist nær óhefluð. Ég furða mig alltaf á árlegri umræðu um skort á bílastæðum við Háskólann því að ég lít svo á að eftirspurnin sé alltof mikil eða þá að framboðsskorturinn verði ekki leiðréttur nema með fjárfestingu sem eins og áður getur er ekki arðsöm og því ákaflega ólíkleg.
Að leggja á gjaldskyldu við bílastæði Háskóla Íslands yrði mikið framfaraskref og sjóðum skólans til góða, vopn í baráttu við niðurskurðahnífinn enda er Háskólinn enginn bílastæðasjóður heldur menntastofnun.

Sverrir Bollason
Stúdent við Umhverfis- og byggingaverkfræðiskor og Erasmus skiptinemi við KTH í Stokkhólmi. Áhugamaður um bílastæði.

þriðjudagur, maí 18, 2004

Útaf með dómarana!!

Já nú er bara nóg komið segi ég! Starfsemi Alþingis er barasta komin á hættulegar brautir og virðist ekki stefna á tinda lýðræðis heldur hefur Davíð hirðir fengið fjárflokk sinn til að stefna niður í dimmustu dali ólýðræðis. En varist hin fúlu fen þar sem ósamræðuþýðir stjórnmálamenn, áhugalausir um skoðanir almennings halda til. Daunninn fylgir þeim sem þar hafa alið manninn og finnur hann hvert mannsbarn.
Látið (í fjarveru minni) í ykkur heyra svo að íhaldið og lagsmenn þeirra viti að það er bara ekki samkvæmt reglunum að tala ekki um mikilvæg málefni áður en lög um þau eru samþykkt og að umboðsmenn almennings skal hlýða á en ekki bara skipa upp á punt.
Ofangreint vísar vitanlega til auglýsingar hér við hliðina á.

List í lífinu

Var á útskriftarsýningu Konstfack svona í sárabætur fyrir að missa af útskriftarsýningu LHÍ þar sem m.a. góðvinkona mín Auður sýndi vitnisburð um kunnáttu í listum. Til hamingju Auður með að vera orðin listamaður. En mikið rosalega getur verið niðurdrepandi að fara á svona viðburði einn síns liðs. Ég hélt ég myndi deyja úr einsemd. Inga mín var samt svo yndisleg að hringja aðeins í mig sem eiginlega reddaði deginum. Takk.

mánudagur, maí 17, 2004

Hvað er þær að gera?

Vinkonurnar hans Atla þær Svala og Bryndís eru í feykimiklu stuði á þessari mynd sem skreytir Nýhíl. Af samhenginu að dæma sýnist mér að þær eigi að standa fyrir dekadens hins hraða níunda áratugar.
Ég verð annars að mæla með reglulegum lestri Nýhíls því þeir Eiríkur Örn og Haukur Már eru alveg óborganlegir pennar. Skörp ádeila þeirra kann að vera óskiljanlega á stundum en hún er bráðskemmtileg fyrir því. Að sjálfsögðu nær hún hámarki þegar hún skilst til fullnustu.

Annað hundraðið hafið á merkisdegi

Í dag falla saman tveir sérlega merkilegir atburðir í atburðarefni kosmósins. Fyrir það fyrsta þá er ég kominn með á annað hundrað færslur á Sjálfmiðlunina, 101. færslan er þessi. Í öðru lagi þá er þjóðhátíðardagur Norðmanna í dag. Sjálfur Kjell Magne Bondevik var í viðtali í sjónvarpinu í morgun og leiddi mig í allan sannleikann um málefni Norðmanna í dag.

föstudagur, maí 14, 2004

Brullaup

Ég miðla bestu kveðjum til brúðhjónanna, Hans konunglegu hátign krónprins af Danmörku Friðriks Andrés Hinriks Cristians og Mary Donaldson. Ég mun reyndar taka stað forseta vors á meðan á hátíðarhöldunum stendur.
Í tilefni dagsins hef ég ákveðið að bæta hans konunglegu hátign við á lista gesta í "besta matarboð í heimi" a.m.k. tímabundið. Hann mun sitja Þar með Jamie Oliver og Kevin Eubanks ásamt fleirum sem ég hef ekki ákveðið. Er samt ætíð opinn fyrir tillögum.

fimmtudagur, maí 13, 2004

Sunddreifing

Brynhildur systir var að tala um að það vanti áberandi sundlaug í Fossvoginn. Það fannst mér einmitt líka alltaf en ég flutti bara í stað þess að pirra mig meira á því. Eitthvað held ég að eitt stykki laug myndi fara vel úti við Víkingsvöll ha!?

Eftirköst

Íslendingapartíið var bara svona líka fínt, ég týndist að vísu á leiðinni frá barnum til baka að borðinu. Allir héldu víst að ég hefði farið heim en ég lenti bara í samræðum við góðan gaur frá þýskalandi og svo einhverja fleiri. Ég naut þess heiðurs að vera síðastur út af Allhuset.
Svo tókum við María löns á Brasilíu, baunasúpa og pönnukökur eins og alltaf á fimmtudögum. Við ræddum ýmislegt gagnlegt, það er gagnlegt að ræða ýmislegt.
Grillpartí sem ég var að spá í að hafa á morgun mun falla niður vegna rigningarspár. Kannski að laugardagurinn sé bara góður?
Ég vil benda á tiltekin glamúrdrottning, Glamsista hefur hafið blogg: glamsista.blogspot.com

miðvikudagur, maí 12, 2004

Gangnatúr

Kíkti á göng í smíðum með bekknum mínum í Bergmekanik. Snaggaralegur finni lýsti verkefninu á sænsku sem var á mörkum hins skiljanlega en mjög skemmtileg svo lóðsaði hann okkur um aurug göngin. Fyrsta skipti sem ég sé svona framkvæmdir og það fór nú aðeins um mann þegar maður tók fyrstu skrefin inn í myrkrið. Göngin eru annars ætluð fyrir háspennulínur sem nú standa á möstrum. Lóðaverðið svona nálægt bænum gerir það hagkvæmt að grafa þær í jörð. Ætli Mosfellsbær ætti ekki að kanna hagkvæmnina í slíkum framkvæmdum hjá sér?
Í kvöld fer ég í þriðja og sennilega síðasta Íslendingapartíið mitt hér í Svíþjóð. Fór fyrir jól og hitti heilan slatta af fólki á kampus, svo var eitt á Valborgarmessu í Uppsölum (sem nb var mjög skemmtilegt) og svo verður KTH Íslendingapartí í kvöld sem sagt og það er kannski pínlegt frá því að segja að við verðum að halda það á Stokkhólms Háskóla pöbbnum því þeir á KTH eru ýmist lokaðir eða leiðinlegir.
Næst síðasta vika skólans og ég búinn að panta miða heim. Fer til Köben 4. júní og þaðan heim 5. Vildi nefnilega fá tíma til að kíkja á þá eðla borg aðeins og heimsækja Louisiana safnið. Vill einhver vera með í slíkri ferð? Vill einhver bjóða gistingu í kóngsins sjálfri?

mánudagur, maí 10, 2004

Nýtt lúkk og pulsuvagn

Blogger gamli er búinn að fá nýtt lúkk, á samt eftir að melta það en það virkar ágætlega á mig svosem.
Mér líst annars vel á hugmyndina að baki ritgerð Andra Snæs, "Það sem er gott fyrir Bæjarins Bestu er gott fyrir miðbæinn." Element sem gjarnan vantar í skipulag í Rvk, hinn mannlegi skali. Talsmenn þess að Supersize-a allt eru fremur leiðigjarn hópur. T.d. svona fólk sem skilur ekki hagkvæmnina í að nýta fyrst þann infrastrúktúr sem fyrir er og fylla þannig bakland menningararmiðstöðva og styrkja með þeim hætti þá borgararfleifð sem finnst í Reykjavík. Sumt fólk skilur heldur ekki áhættumuninn á að ganga yfir annars vegar hraðbraut og grasflöt hins vegar.
En í raun er ekki vitað hvaða fólk það er.

föstudagur, maí 07, 2004

Að halda miðbænum saman

Eitt gott ráð til að halda hlutm saman er að kljúfa þá ekki í sundur. Ekki virðast allir gera sér grein fyrir þessum einfalda en mikilvæga sannleik og munar þar helst um Borgarstjórn Reykjavíkur. Reyndar eru það stjórnvöld sem alveg eru úti að aka í skipulagsmálum, sennilega einfaldlega vegna roluhátts. Þau bara þora ekki að standa í því að koma með kraftmikla og djarfa sýn í skipulagsmálunum af ótta við að íhaldið gagnrýni fækkun einbýlishúsalóða. En jæja hvað um það, ef þú hefur áhuga á að bjarga Vatnsmýrinni frá að verða aflimuð frá restinni af borgarlíkamanum með 6 akreina ofanjarðar hraðbraut þá mæli ég með að þú skrifir undir listann á http://www.tj44.net/hringbraut/undirskrift/index.php til að fá hana ofan í jörðina svo við hin getum gengið yfir.