Ég skrifaði stutta grein í vetur og ætlaði að fá birta í Stúdentablaðinu en ritstjórinn virðist ekki hafa haft áhuga á að birta hana að svo stöddu. Sjálfur var ég nú helst á að fá hana birta meðan ég væri í útlöndum svo ég sætti engum hótunum í kjölfarið a.m.k. ekki líkamlegum. En hérna kemur spekin, njótið.
Bílastæðavandamál Háskóla Íslands
Fjármál Háskóla Íslands liggja á aðgerðaborðinu og verið er að leita að hverjum þeim anga sem hægt er að klippa burt án þess að kroppurinn láti undan. Rökréttast er að álykta að óþarfinn verði að víkja fyrir þarfanum og að Háskólanum verði gert fært að einbeita kröftum sínum og fjármunum að þeim hluta starfseminnar sem til móðs er að kalla kjarnastarfsemi.
Einn stór þáttur í rekstri skólans virðist ekki hafa verið rifinn úr kroppnum enn, en ég tel mikilvægt að athuga hvort ekki ætti að gera það hið fyrsta. Þau eru 1700 talsins og má því ætla að þau þekji 30-40 þúsund fermetra á einhverri dýrustu lóð landsins. Þetta eru bílastæði Háskólans sem gefin eru stúdentum og starfsliði á hverju ári.
Bílastæði og hádegisverðir eiga það sameiginlegt að vera aldrei ókeypis, á endanum borgar alltaf einhver. Í þessu tilfelli H.Í. og í raun og veru þýðir það að bílakandi stúdentar njóta styrkja úr sjóðum skólans umfram aðra. Þetta er óréttlæti og því verður að taka á, sérstaklega þegar verið er að sauma að þáttum sem tilheyra kjarnastarfsemi H.Í.
Í landi bílsins, Bandaríkjunum lærðu menn að skipuleggja fyrir bílinn sem aðalsamgöngutæki eins og hann er á Íslandi. Þar er ekki til það fyrirbæri sem heitir ókeypis bílastæði við skóla af neinu stigi. Meira að segja við grunnskóla verða nemendur að borga ársgjald fyrir að leggja við skóla ásamt því að hafa tiltekna lágmarkseinkunn við suma skóla. (nb. í BNA er hægt að fá bílpróf sextán ára) Þegar foreldrar mínir voru í námi í Bandaríkjunum tóku þau yfirleitt strætisvagn beint í skólann eða ef þau voru á bílnum fyrir skóla lögðu þau í útjaðri kampusins og tóku strætó þaðan af því að bílastæðagjöldin inni á kampus voru svo há. Hér við Kungliga Tekniska Högskolan í Stokkhólmi eru öll stæði gjaldskyld. Og svo framvegis uns lesandinn ætti að sjá að skólar eru almennt ekkert opnir fyrir því að greiða niður bílakostnað nemenda sinna. Það er að Háskóla Íslands undanskyldum af einhverjum ástæðum.
Rekstrarstjórn H.Í. var ekki reiðubúin að láta mér í hendur neinar tölur um kostnað sem skólinn verður fyrir við rekstur bílastæðanna en ætla má að hann sé töluverður. Ef litið er til fjárfestingakostnaðar vegna bílastæðanna er alveg ljóst að þar sem engar tekjur verða til að þá eru þau ekki arðsöm og jafnframt má segja að óheyrilegt tap verði vegna ónýttra fjárfestingamöguleika á þessu flæmi á besta stað í bænum.
Framboðið af bílastæðum er takmarkað en eftirspurnin virðist nær óhefluð. Ég furða mig alltaf á árlegri umræðu um skort á bílastæðum við Háskólann því að ég lít svo á að eftirspurnin sé alltof mikil eða þá að framboðsskorturinn verði ekki leiðréttur nema með fjárfestingu sem eins og áður getur er ekki arðsöm og því ákaflega ólíkleg.
Að leggja á gjaldskyldu við bílastæði Háskóla Íslands yrði mikið framfaraskref og sjóðum skólans til góða, vopn í baráttu við niðurskurðahnífinn enda er Háskólinn enginn bílastæðasjóður heldur menntastofnun.
Sverrir Bollason
Stúdent við Umhverfis- og byggingaverkfræðiskor og Erasmus skiptinemi við KTH í Stokkhólmi. Áhugamaður um bílastæði.