miðvikudagur, júní 30, 2004

Tvennt í plús í dag

Stríðsfyrirsagnirnar framan á DV eru alveg rosalegar. Ég fell alveg fyrir þeim og finnst þær hrein skemmtun út af fyrir sig. Vilja hirða hús níræðrar konu undir bílastæði - Leysir bílastæðavanda menningarelítunnar. Hvernig getur mann ekki langað til að lesa svon grein, fyrirsögnin hefur allt: lokkandi lýsing sem þarf að fylla betur í með lestri greinarinnar, vekur samúð með veslings níræðri konunni, bendir á illa andstæðinginn sem í þokkabót er óalþýðlegur hópur elítista. Stórbrotið.
Uppgötvaði gamalt uppáhald eftir að löngunin greip mig í síðustu viku og hreinlega varð að kaupa eina dollu af Mysingi. Þetta ásmurða álegg er alveg stórkostlegt, best á rúgbrauð hvers kyns að sjálfsögðu og gjarnan með smjörlagi undir. Ég hef aldrei skilið árásir fólks á Mysing því yfirleitt virðist fólk í raun aldrei hafa smakkað hann en látið útlitið hlaupa með sig í gönur. Nutella og hnetusmjör hafa mjög svipaða áferð eða jafnve ólystugri ef eitthvað er... Mæli með Mysingi!
Og smá að lokum: sá Finn Vilhjálmsson sjónvarpsgaur, laganema og ágætis kunningja minn á leið út í búð. Ég hef oft velt því fyrir mér hvar hann stendur í pólitík. Veit einhver það?

Tvær fréttir og ein furðun

Á hvort um sig fram- og baksíðu Moggans í dag er að finna tvær fréttir sem við fyrstu sýn kunna að virðast óskyldar en gætu átt töluvert sameiginlegt. Annars vegar er frá Því sagt á forsíðunni að koltvíoxíðs mengun hér á landi sé tíföld sú sem telst meðallosun einhverra tiltekinna landa hvers sameiginlega nafn er horfið úr minni mér. Þetta að sjálfsögðu "per catpita" sem er jú það sem við miðum við. Eflaust eru þetta lönd sem við teljum fullkomnlega samanburðarhæf við okkur og ekki ástæða til að fjargviðrast yfir því. Þá má nú geta þess að "startkostnaður" mengunar í þróuðu ríki er töluverður og því er viðbúið að fámenn ríki á borð við okkar mengi meira en þau sem stærri eru, per capita. Einnig vil ég velta upp þeirri spurningu hvernig við fengum þá meiri CO2 kvóta út úr Kyoto bókuninni ef þetta reynist rétt?
En ástæðunnar fyrir þessum geigvænlega útblæstri þarf ekki að leita lengi enda gætu þeir ekki farið fram hjá manni svo auðveldlega. Þetta eru bílarnir. Og ekki síst jepparnir. Ef einhverjum finnst það ekki klikkun að nota tveggja tonna kerru með á þriðja hundrað hestöfl undir húddinu til að færa sig frá einum stað til annars þá má nú ýmislegt segja um viðkomandi. Og svo kvartar fólk yfir því hvað það borgar mikið í bensín... Ef einhverjum finnst hann borga mikið í bensín og sérstaklega eftir að áskriftin að líkamsræktarstöðinni bættist við, þá hef ég alveg kjörna lausn: að skipta um ferðamáta. Allir geta hjólað 5 km í vinnuna/skólann án vandræða og annað telst nú eiginlega leti í mínum augum. Svo getur maður líka sparað bensín, heilsu barna sinna og minnkað til muna slysahættu við skóla með því að lofa þeim að labba sjálfum. Og þá kemur að hinni fréttinni sem virtist óskyld en hún segir frá því að 20% 9 og 15 ára barna séu of feit. Það skyldi þó ekki vera vegna þess (að hluta) að börnunum er skutlað hvert sem er t.d. í skólann.
Að lokum ætlaði ég að furða mig á því að verkfræðingur sem er að fjalla um innleiðingu nýs tæknikerfis skuli grípa til tilfinningaraka sem réttmæta efasemd um kerfið. Þessi taktík hefur nú ekki tíðkast áður og verður örugglega notuð gegn viðkomandi fyrr en síðar. Tómas Hafliðason segir í grein á Deiglunni Hluti þing- og sveitstjórnarkosninga er ekki síst spennan að bíða úrslitana. Því má ekki glata. Frekar korní að vera á móti rafrænum kosningum og framförum á svona nostalgíu grunni.

þriðjudagur, júní 29, 2004

Smekkur eða dómgreind?

Ég vil nú ekki vera dónalegur en hefur það ekki eitthvað með slæma dómgreind að gera að eiga tvíbura sem heita Dagbjört Nótt og Kolbrún Sól? (Ég ákvað að það væri börnunum í hag að hlekkja ekki á síðurnar þeirra á barnalandi.is)

Að fífla

Ég er að spá í að skrifa keðjubréf og sjá hversu lengi það tekur að koma aftur til mín. En mig vantar eitthvað gott efni í bréfið. Tækniframfarir og umdeildar en óhjákvæmilegar ákvarðanir yfirvalda eru gott stöff. Samsæriskenningar líka... Kannski eitthvað með rafræn kosningakerfi og þjóðaratkvæðagreiðsluna í sumar... t.d. að maður geti kosið með því að áframsenda tölvupóst? Jæja þetta fer í slípun, komið endilega með hugmyndir og takið þátt í prakkarastrikinu.

mánudagur, júní 28, 2004

Betri hliðin

Vinkona Ingu hún Hlín bauð okkur í grill á föstudagskvöldið ásamt Hönnu og fengum þar góðan bita. M.a. grillaðar eplaskífur sem eru alveg magnaðar ef maður setur smá bríe á. Epli og ostur er alveg fín blanda nefnilega. Við drukkum eina flösku af Rosemount GTR sem getur eiginlega ekki klikkað. Þetta vín er alveg sérstakt því það er bæði sætt og blómríkt, Gewurztraminer hlutinn sennilega þar að verki og svo er í því líka Riesling sem er gefur skerpuna sem er líka að finna í bragðinu. Góð blanda milli sæts og þurrs.
Svo kíktum við á Steinar Júl félaga minn sem var að opna sýningu á laugardaginn í Gallerí Tukt, Hinu Húsinu. Strákurinn kallar á meiri ást og umhugsun um hvernig við komum fram við náungann í seríunni Elskaðu meira! Þar var að sjálfsögðu hans kona og bekkjarsystir mín úr verkfræðinni Katrín Karls ásamt stöllu sinni Silju Hrund. (Ég hlekkja nú ekki á þessar óuppfærðu síður þeirra..)
Kosningavaka Baggalúts var meginatburður kvöldsins, menn voru spenntir fyrir gengi Vigdísar enda kom það á daginn að hún sigraði með yfirburðum (með tæpum 3 milljónum atkvæða). Þarna var sem sagt saman komið fólkið sem stundar hvað mest Gestapó á Baggalút en það er e.k. spjallþráður þar. Sjálfur hef ég nú aldrei skrifað neitt þar en ég "þekki fólk" eins og sagt er. Reyndar þekktist þetta fólk sem þar var samankomið ekkert nema bara af netinu svo stemmningin var nokkuð spes þar sem flestir voru að hittast í fyrsta skipti.
Einn viðstaddra var haldinn einhverri almestu félagslegu fötlun sem ég hef séð og fór u.þ.b. samstundis í taugarnar á manni með þeim hætti sem framkallar líkamleg viðbrögð. Sérstakur eiginleiki að vera algerlega blindur á allt sem gerist í kringum mann vegna einbeitingar að sjálfum sér og eigin ágæti.
Síðar um nóttina snérum við aftur á Bar 11 þar sem ótrúlega skemmtilegur ítalskur plötusnúður snéri skífum. Hann blandar gömlu og nýju rokki á frábærlega ófyrirsjáanlegan en vel passandi hátt. Engar klisjur þar á ferð heldur miklu menntaðri og ígrundaðri spilun en gengur og gerist. Eða kannski er maður bara búinn að heyra prógrammið hjá G&G aðeins of oft...
Krummi frádráttarmeistari var í góðu flippi þarna og virtist hafa fengið útborgað fyrir plötusnúðastarfið helgina áður. Inga og Hanna spjölluðu við hann undir stiganum en sjálfur kaus ég að ræða við Orra Gunnars skipulagsgúrú.
Sunnudagurinn var fjallganga inn í Reykjadal sem er magnað, hæfileg ganga frá Hveragerði og svo getur maður skellt sér í hyl þar sem heit og köld á mætast. Hálfgert leyndarmál þessi dalur a.m.k. hvað varðar Íslendinga því við hittum bara útlendinga á leiðinni.
Já topphelgi bara held ég.

Nokkrar umkvartanir á mánudegi

1. Mér finnst farið að bera fullmikið á því að ég sé kallaður "Bróðir Atla Bolla..." Bróðir minn er toppnáungi en ég lít miklu frekar svo á að hann skyldi kalla bróður minn en að ég sé kallaður hans enda er þar um ólíka virðingarröð að ræða.
2. Ég er hættur að nenna að sitja yfir síðasta bjór á reykmettuðum og hávaðasömum börum fram undir morgun án möguleika til nokkurra skemmtilegra samskipta eða annars sem forðar manni frá eirðarleysi sem svona seta kallar óhindrað á. Sumum virðist finnast þetta nægilega afþreyjandi til að stunda þetta en ekki þessi sjálfmiðlari, ó nei. Nú fer ég heim í síðasta lagi 3 eða fyrr ef ekki er skemmtilegra en svo.
3. Hingað til hef ég nú aldrei þótt sérstaklega duglegur að hringja í fólk; vini, kunningja, ættingja o.s.frv. Inga mín er líka sérlega dugleg síma og partíreddinga manneskja en það er ekki þar með sagt að ég vilji ekki að fólk hringi í mig. Ég heimta að ég fái fleiri símtöl en ekkert næstu helgi.
4. Veður.

(Sjá jákvæða umfjöllun um sömu helgi í næstu færslu.)

föstudagur, júní 25, 2004

Persónuupplýsingaafsláttur

Smá hugleiðing fyrir lok vikunnar. Ég kynnti mér aðeins ekort , nýtt greiðslukort sem er verið að auglýsa þessa dagana. Notendum kortsins er lofað endurgreiðslu, hálfu prósent af heildarupphæð reikningsins og svo eru sum sérvalin fyrirtæki s.k. samstarfsaðilar sem gefa viðbótarendurgreiðslu upp á c.a. 1-2% eftir fyrirtækjum. Sérvalin fyrirtæki eru að sjálfsögðu öll í auðbaug Baugs. Svo má líka segja frá því að árgjaldið fellur niður ef velta kortsins er meiri en 300 þúsund á ári.
Þetta hljómar sem góður díll myndi ég segja en ekki hefur verið sagt frá öllu. Það er ekki svo að maður fái bara gefins peninga fyrir ekki annað en að versla. Allar upplýsingar um hverja einustu færslu verða sjálfkrafa eign kreditkortafyrirtækisins og geta þeir notað og greint venjur notandans að vild til eigin fjárhagslegs ávinnings.
Að sjálfsögðu er unnið samkvæmt persónuverndarlögum svo að þeir sem ekki kæra sig um að vera greindir af hegðun sinni sem einstaklingar þurfa þess ekki en ópersónugreinanleg hegðun allra notenda verður engu að síður nýtt.
Á upplýsingaöld eru upplýsingar ein dýrmætasta auðlindin eins og gefur að skilja af nafni tímans. Upplýsingarnar verða til við skráningu atferlis hvers einstaklings og því fleiri því betra, nákvæmara og dýrmætara. Hegðun fjöldans gefur nefnilega mikilvægar viðskipta-strategískar upplýsingar fyrir stærra skipulag fyrirtækja.
En svo er líka til sú hlið sem snýr beint að hegðun hvers einstaklings fyrir sig en þær upplýsingar má nýta til markaðssetningar til tiltekinna einstaklinga eða persónusniða eins og ég tel það kallað. Þessar upplýsingar hefur maður val um hvort séu nýttar í þessu tiltekna dæmi um ekortið.
Nú hefur verslun einni í Bandaríkjunum sem safnar upplýsingum um sína viðskiptavini gegnum tryggðarkort verið stefnt eins og Kana er siður en málið er að þessu sinni áhugavert og hugsanlega réttmætt. Frá því er sagt hér og eru málsatvik þau að kona ein keypti nautakjöt sem grunað var að væri riðusýkt. Gerir hún nú þá kröfu til verlsunarinnar að hún skyldi hafa haft samband við sig þar sem hún hafi keypt ketið með tryggðarkorti og kaupin því rekjanleg til sín. Fordæmið að svona viðvörunum er sótt til bílaframleiðanda sem er mjög annt um það orð sem fer af öryggi sínu og innkalla því oft bíla með gölluðum vélhluta með því að hafa beint samband við viðskiptavini sína eða gegnum umboðin. Skyldu Hagkaup þá einhvern tímann þurfa að innkalla salmonellu kjúkling með því að hringja í all sem keyptu kjúlla fyrir innköllun?
En já aftur að verðmæti því það er það sem þetta dæmi snýst um. Hversu mikils virði er hegðun mín og þín? Kannski ekki svo verðmæt mér en dýrmæt stórum verslunareiganda. En það eru nú ekki svo margir hringirnir hérna og því ekki margir kaupendur að upplýsingunum svo samkeppni um þær er úr myndinni. Sem er synd því sennilega gæti bara samkeppni skorið úr um verðmæti þessarra upplýsinga.
Að lokum get ég þó bent á að Bónus er ekki einn af samstarfsaðilunum fyrrgreindu en versli maður alltaf þar getur maður þó sparað mun meira en með því að fá endurgreitt frá Hagkaupum.

Um greinarmerkjasetningu og netið

Nú er það vitað að t.d. í millifyrirsögnum eru engir punktar að lokinni setningu en engu að síður stór stafur þar sem fyrsti stafur er. En hvernig er það með tögg við hlekki enda virka þau oft sem e.k. millifyrirsögn. (Nýyrði óskast) Á eða má kannski ekki setja punkt á eftir svoleiðis hýpertexta?

Fattleysi

Bragi vinur minn gerir sig sekan og uppvísan að ótrúlegu fattleysi á þessari færslu þar sem hann segir frá samtali við annan feðra sinna Albert.
Þessi færsla var tileinkuð Katrínu.

miðvikudagur, júní 23, 2004

Menntamál í deiglunni

Nú er deilt á menntamálaráðherrann vegna þess hvernig hún fer með Háskólann okkar. Sá mæti maður Davíð Gunnarsson skrifar grein á Deigluna þar sem hann furðar sig á að ekki skuli sömu rök gilda um Háskólann og menntaskólana þegar kemur að fjárhagsvandamálum. Svo er menntamálastefna ríkisstjórnarinnar tekin fyrir á vefriti ungra jafnaðarmanna í ágætri grein eftir Dagbjörtu Hákonardóttur. Er það annars sú sem er með Hjartslátt á S1?

Döll

Einhver leiðinlegasta týpan af bloggara er týpan sem skrifar aðallega um hvað hann/hún hafi verið löt að blogga og hvernig viðkomandi ætli sér að taka sig á. Ég mætti kannski benda á að ef fólk þarf að hafa svona mikið fyrir þessu og fær samviskubit bara við að sjá Blogger merkið þá kann annað hvort eða hvort tveggja neðangreinds að eiga við:
- Viðkomandi á sér ekki nógu skemmtilegt líf eða sjónarhorn á það til að geta skrifað af ráði.
- Viðkomandi finnst bara leiðinlegt að blogga.
Svona bloggarar ættu að nýta sér stjórnarskrárbundinn rétt sinn til að losa sig undan því oki að blogga hið snarasta, nú eða bara taka sig á og sýna það í verki.

þriðjudagur, júní 22, 2004

Homo BIANCO en medio anno

Einhver albesti drykkur sem um getur á svona degi er Martini Bianco með klaka og jafnvel má setja tónik út í til að frísk hann við. þess vegna ætlum við Bragi að fá okkur svoleiðis í glas á svölunum hjá honum.
Ég vorkenni alltaf dáldið Baldri Ágústssyni að vera að standa í þessu framboði sínu, eyðandi peningum í eitthvað alveg fáránlegt dæmi sem hann og tíu aðrar trúa á. Skyldi þetta kannski vera einhvers konar skattasparnaðarleið hjá honum? Svo er ég dáldið hissa að góðkunningi minn Bóas skuli vera opinber stuðningsmaður hans og skrifi greinar í blöðin um ágæti stefnu Baldurs. Sennilegast er það vegna einhverra ættartengsla. Við Bóas unnum saman í Heimsþorpi og mér finnst nú sumar hugmyndir Baldurs vera smá rasistalegar eða amk mjög íhaldssamar og því kemur það mér á óvart að Bóas fari út í þetta þrátt fyrir ættartengslin.

Ekki svo skrýtið

Af einhverjum ástæðum kemur það fólki á óvart að ekki skuli vera bullandi samkeppni í olíusölu á afskekktustu útkjálkum þessa lands. Það skyldi þó ekki vera ástæða fyrir því að meira en helmingur mannkyns búi í borgum og að borgarbúum heimsins fari fjölgandi frá degi til dags?

Satt eðli

Hið sanna eðli Sjálfstæðisflokksplebba kemur fram í grein einni á helsi.is þar sem því er haldið fram fullum fetum að vankantar græðgi séu nokkuð óljósir eða eiginlega er þverstæðri fullyrðingu haldið fram að græðgi sé beinlínis góð fyrir samfélagið. (Að vísu trúa mestu frjálshyggjugúrúrarnir ekki á neitt sem heitir samfélag en frjálshyggja sjalla er dutlungum og sérhagsmunum háð.)
Nei ætli það megi nokkuð rekja hergagnaframleiðslu, misnotkun vinnuafls, dópsölu, hórmang og fleira til græðginnar? En bíðum nú við... eru þetta ekki allt hlutir sem ungsjallar eru í meira lagi hrifnir af og vilja að við fáum öll frelsi til að stunda í friði? Merkilegt.

mánudagur, júní 21, 2004

Leynifélagið

Við erum dul og kærum okkur ekki of mikið um að þurfa að útskýra málin fyrir ykkur hinum. Við elskum að setja upp kerfi en erum ekki svo hrifin af að vera undir þeim sjálf. Við erum INTP fólkið, fágæt manngerð sem á sína eigin heimasíðu.

Mmm hádegislist

Ég tók mér ríflegan tíma í hádegismat í dag enda ómótstæðilegt veður. Uppi við Hlemm sá ég hvar skrúðganga mikil kom ofan úr Brautarholtinu með Snorra Ásmundsson fyrrverandi forsetaframbjóðanda sitjandi í amerískum kagga og veifandi fólki sem höfðingi væri. Á eftir fylgdu ástarenglar, eldspúandi með hjartalaga helíumblöðrur og vagnar tveir fullir af verkinu sem verið var að flytja: Sheep plug. Verið var að flytja þetta verk John McCarthy frá Klink & Bank niður í Kling & Bang.
Eftir því sem mér var tjáð eru Sheep plug stórgerðar eftirmyndir butt plug gerðar úr tólg og ull kinda. En mætti maður segja að fitubaseraðir skúlptúrar og extravagansa að hætti ameríkana með krípí undirtón hafi sérlega skírskotun í annan listamann ekki alls ókunnugur Íslendingum?

Stefnumörkun

Ég hef komist yfir háleynileg skjöl er lýsa stjórnarsamstarfinu. Þar má m.a. lesa:
Allar samfélagsumbætur skulu miðast við að erlendir ferðamenn sjái sem minnsta flekki á þjóðfélaginu. Til aukaatriða skal telja velferð hins almenna borgara enda starfi hann ekki í ferðamannaiðnaði. Ef bæta á kjör eða kost fólks skal ætíð miða við að erlendir ferðamenn njóti slíkra ákvarðana hið mesta. Uppsetning aðstöðu er léttir andann og kynni að styrkja menningarstarf skal fyrst og fremst hafa álit útlendinga (ekki innflytjenda heldur mikilvægra útlendinga) í hávegum enda skal Ísland ætíð líta vel út gagnvart hinum mikla umheimi.

föstudagur, júní 18, 2004

Hringavitleysa er þetta!

Ég sé nú að búið er að færa inn framkvæmdirnar við færslu Hringbrautar á Borgarvefsjána. Gamla hringbrautin fer nú í megrun og léttist um helming en svo á líka að henda á hana hringtorgum út um allt, bara heilum 3 stykkjum. Það er vel vitað að sú gerð gatnamóta sem er hvað fjandsamlegust gangandi og hjólandi vegfarendum er bara nákvæmlega hringtorg. Svo þarf nú verulega mikla umferð til að hringtorg standi undir kostnaði og það ætti ekki að vera við henni að búast þarna. Ég held að þetta verði eitthvað að endurskoða því nú gefst þarna príma tækifæri til að aðskilja gangandi/hjóla umferð frá akandi með sæmilegum hætti, a.m.k. í bili. Ég held að venjuleg gatnamót með bið/stöðvunarskyldu myndu nú duga ef ég má vera hreinskilinn. Má ég það?

Draugavinna

Draugagangurinn síðan í morgun heldur áfram, ætli það séum ekki bara ég og Borgartúnsmóri sem erum eftir á hæðinni.

Menningin býr í pitsunni

Ég er sveimér farinn að halda að Devitos pitsustaðurinn við Hlemmtorg sé höfuðvígi lágmenningarinnar í Höfuðborginni. Hver er þar öðrum óskýrmæltari og luralegri í burði og fasi. En sjálf pitsan er ágæt.

æ æ æ ekki a aftur

Mikið óskaplega er ég orðinn leiður á þessari tuggu frjálshyggjufólks að einkarekin félög fari betur með peninga en ríkisrekin. Ég hef enga sönnun séð á því og ég veit m.a.s. til þess að mörg einkafyrirtæki eru svo illa rekin að maður myndi eiginlega ekki trúa því fyrirfram. Svo get ég líka bent á að mjög margir fara á hausinn í sínum fyrirtækjarekstri, alveg án hjálpar frá nokkrum öðrum.
Ég er ekki á móti einkafyrirtækjum og ég get m.a.s. vel séð fyrir mér að standa að eigin fyrirtæki en svona margtuggð þvæla er bara svo leiðinleg að hlusta á. Þar sem rekstur fyrirtækis hefur stórvægileg áhrif á lífsgæði almennings og/eða stýra þarf notkun auðlinda sem lúta náttúrulegri einokun finnst mér bara allt í lagi að ríkið sjái um málið. Enda skipti slíkt ríkisfélag sér ekki af óskyldum málum og gæti hófs í verðlagningu og fjárfestingum.
Einhvers staðar (með Sjálfstæðisflokknum gæti ég trúað) misstu Íslendingar sjónar á því að hugsanlega geti Ríkið verið verkfæri í höndum fólksins sem framkvæmi vilja þess og vinni fyrir hag þess bestum. Því miður þarf hressilegan skammt af lýðræði, galopna stjórnunarhætt og rífleg afskipti almennings af stjórnmálum til þess að svo geti verið en það hefur aldrei átt upp á pallborðið hjá stjórnmálamönnum þessa lands. Og nei mér finnst það bara ekki sami hlutur að kjósa með peningunum sínum eins og með atkvæðaseðli eins og einhver frjálshyggjugúrúinn mun reyna að sannfæra mig um. Ég er frjálslyndur maður en ég legg bara ekki mótunaráhrif auðmagns og kjörinna fulltrúa að jöfnu; annað er auðræði (lýðræði á la USA) hitt er lýðræði (lýðræði á la Svíþjóð svo ég taki mér nærtækt dæmi).
Annars var kveikjan að þessari færslu grein á Deiglunni þar sem verið er að níða Alfreð Þorsteinsson og stjórnun hans á OR. Ég er næstum alveg sammála þeirri grein, sjá röksemdafærslu að ofan um opna og lýðræðislega stjórnunarhætti ásamt þá meginreglu opinberra fyrirtækja að gæta hagsmuna eigenda sinna. Og þá meina ég okkur þegnana en ekki milliliðinn Ríkið.

Ghostvík

Reykjavík gerði fremur sannfærandi útgáfu af draugaborg á annatíma í morgun þegar ég spyrnti í vinnuna. Svo virtust borgarstarfsmenn hafa tínt upp 17. júní nokkuð vandlega a.m.k. sást hvorki tangur né tetur af honum.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Verslun í Miðbænum

Ég get að mörgu leyti tekið undir með verslunarkonu nokkurri sem skrifar í Moggann í dag en þó ekki í jafn mörgum orðum enda grein hennar fremur löng. En hún segir þar að það sé barasta undir venjulegu fólki, mér og þér komið hvort halda eigi raunuverulegu lífi í miðbænum gamla. Ekki nægir að rosalega mikið af fólki mæti þangað á tyllidögum þótt það sé vissulega ánægjulegt heldur verður miðbærinn að eiga sér sitt hversdagslíf líka.
Það ríkir samkeppni milli verslunarsvæða á höfuðborgarsvæðinu og neytendur styrkja og veikja stöðu svæðanna með innkaupum sínum.
Reyndar má kannski segja að Miðbærinn hafi fyrir margt löngu horfið úr kapphlaupinu um peninga hinnar breiðu miðju og er eiginlega orðinn hilla fyrir sérverslanir og kannski fremur hverfisþjónustumiðstöð en þjónustumiðstöð heillar borgar. Þetta er stór breyting frá því sem var fyrir 30 árum þegar nær öll sérvöruinnkaup í Reykjavík fóru fram í miðborginni.
En skyldi lesandinn hafa sérstakan áhuga á að verslanir haldist í miðborg Reykjavíkur þá er bara eitt hægt að gera og það er að versla sem mest í miðbænum og sem minnst annars staðar.
Það er þó því miður mitt álit að svo vænt þyki fólki hér ekki um miðborgina, allnokkrir held ég að hafi m.a.s. horn í síðu hennar og þess vegna mun hrörnunin halda áfram svo lengi sem færri versla þar og fyrir minna en annars staðar. Eingöngu þú getur breytt því.

Nammikvöld

Mikið hlakka ég til að borða með strákunum mínum, flottræflunum í kvöld. Það er orðið nokkuð langt síðan maður snæddi með þessum herramönnum síðast og því er þetta kærkomið kvöld matar og flottheita. Við Orri hentum í Gazpacho í gærkvöldi og vorum bara nokkuð ánægðir með árangurinn, okkar er með dálítið grilluðu sniði eins og allt á matseðlinum reyndar. Þriggja rétta grill er alltaf dálítið sniðugt, bara að ég vissi nákvæmlega hvað verður í eftirréttinum fyrir utan ananas.

Það var eitthvað minni gastrónómía í hádegismatnum en ég fékk mér einn sveittan á établissemang Svarta Svaninum. Merkilegt lífsreynsla, ég og svona 30 einstæðir karlmenn, ungir og miðaldra ásamt keppendum í neðri deildum lífsgæðakapphlaupsins slörfuðum í okkur "heimilismat" framreiddan af skörulegri kerlingu og ungfrúm í starfsliðinu. Ef ekki hefði verið fyrir ljótu skiltin, spilakassana og háu borðin hefði ég getað svarið að ég væri kominn á sveitaheimili æskuminninga minna. Þessi upplifun öll var svo djúpstæð að ég rann inn í nostalgíu fyrir Íslandi 7. og 8. áratugarins þegar Ísland var víðar en í Reykjavík, það þótt töff að vera í verbúð, fiskur var verkaður af Íslendingum og einu böllin voru sveitaböllin. Ég hvet lesandann til að krydda þetta sjónarspil með minningum að eigin vali úr gullöld íslensks húmors og minnast Nýs Lífs, Dalalífs, Með allt á hreinu og einhverrar annarrar myndar sem ég kynni að hafa gleymt.

þriðjudagur, júní 15, 2004

Gúrka í blogginu

Þessi dagur er nú sá alslappasti í bloggheimum í lengri tíma, næstum engar nýjar færslur á bloglines listanum mínum. Bloglines er reyndar mjög tímasparandi ef maður ætlar að renna í gegnum nokkur blogg í einu og vill hafa listann sinn á vefnum til að geta flett upp í honum hvar sem er.

Þetta er allt að koma

Loksins er þetta hvef mitt að kverfa, tók að vísu góða hóstasyrpu í nótt en það voru örugglega bara dreggjar slímsins á leið úr öndunarveginum. Ég spái sjálfum mér fullri heilsu fyrir þjóðhátíðardaginn en þá mun maður sennilega fá lungnabólgu af því að reyna að vera úti í hátíðarhöldunum.
Við Inga höfum nú kíkt á Árbæjarsafnið nokkrum sinnum á seytjándann og ætli ég stingi ekki upp á því að endurtaka það. Þar er m.a. einhver sýning um tízku á Íslandi í aldanna rás sem má eflaust hafa gaman af og svo fær maður sér pönnuköku með rjóma og uppáhellingu til hressingar eftir spássitúrinn.

mánudagur, júní 14, 2004

Smekklaust

Ég fór út í bæ að fá mér bita í hádeginu eða bara niðrá Hlemm. Þar er nú ekki úr svo mörgu að velja, sérstaklega ef maður hefur áhuga á að forðast sjúkdóma tengda matarræði. Heilsubiti dagsins varð því Devitos pitsusneið og kók. Það var bara til kók að drekka á þessari búllu líka, ótrúlegt. Það er kannski ekki skrýtið að fólk í Reykjavík sé að verða feitara með hverri mínútunni eins og ég hef bent á áður og sannast hefur í rannsókn (sem var reyndar ótrúlega rög að segja frá raunverulegum ástæðum þessa vandamáls). En það sem er verra og smekklausara en fitan það er klæðaburðurinn á fólki. Hafa menn í sportlegum útivistarjökkum yfir stakan jakka og köflótta skyrtu (órakaðir með ógreitt hár) ekki hugmynd um hvað spegill er? Ósmekklegt.

Sick bastard

Ef þú lesandi góður skyldir vera að velta því fyrir þér af hverju ég varð ekki á vegi þínum um helgina, spangólandi óður fyrstu helgina mína á Íslandi þá er það vegna þess að ég var veikur og lá heima, sick bastard. Já þetta náði bara tökum á manni á föstudaginn og þá lá ég heima sofandi og var svo bara í móki alla helgina. Nokkur frávik:
* Eiki og Bragi komu og borðuðu pulsur í hádeginu á föstudaginn, Eiki keypti líka kókoskúllur í bakaríinu.
* Sá Harry Potter í Háskólabíói á laugardagskvöldið. Mér fannst hún skemmtileg og bara nokkuð góð en skildi ekki alveg eitt í fléttunni...
* Fór í mat til M&P í Bjarmalandi í gær. Rosa stemmning yfir purusteikinni, Einar bróðir er heima í sumar og hefur verið hjá foreldrum mínum s.l. vikuna. Þetta var eiginlega bara eins og í gamla daga, við allir krakkarnir amma og Inga í sunnudagsmat. Fátt er nú betra en góð fjölskylda verður maður að segja.

fimmtudagur, júní 10, 2004

Margföldun á farangri

Einhvern veginn fór farangurinn minn að því að margfaldast í þyngd og umfangi á meðan dvöl minni í Svíþjóð stóð. Upprunalega fór ég út með eina tösku og fékk síðan senda eina í viðbót með tengdamömmu bróður míns (Er til orð yfir það?) Ég kom heim með eitthvað af dóti um páskana en á leiðinni heim nú hafði ég eina tösku: 25 kg, pabbi kom til Stokkhólms og tók 35 kg og ég hafði sent eina tösku með vinkonum mágkonu minnar upp á ca 20 kg. Samtals 80 kg! Ég bara skil ekki hvað gerðist því ég keypti mér varla föt hvað þá annað, að vísu gætu þetta verið bækurnar en samt..
Vinkonurnar eru enn með töskuna því ég hef ekki getað komist að því hver þeirra tók hana heim til sín, ég redda því í kvöld vonandi.

Ljótt

Mikið rosalega er margt ljótt í kringum Hlemm, en ég og Inga erum reyndar á því að Löggustöðin verði bara fínni og fínni. En hvað er eiginlega málið með þetta bílastæðaplan með Devitos skúrnum? Getur þessi borg ekki séð sóma sinn í að gera a.m.k hálf sæmileg bílastæði og kannski halda þeim við? Þetta svæði er antiklimax miðbæjarins.

Smá hrós rós

Ég vildi gefa Borgaryfirvöldum smá hrós fyrir að gera öðrum en bara ökumönnum grein fyrir því hvernig það á að komast leiðar sinnar á meðan framkvæmdum stendur við færslu Hringbrautar, hérna. Það er ljótur ósiður íslenskra verktaka að taka ekki tillit til þess að einhver kunni að þurfa að nota gangstéttar þótt það sé verið að vinna við þær.

Fatso!

Kemur í ljós að það sem mér hefur sýnst undanfarna daga er rétt; Íslendingar eru fituhjassar. Og ekki kemur það manni nú á óvart miðað við matarræðið og svo ekki sé nú talað um hreyfingarleysið. Mogginn skemmdi að vísu fréttina með því að birta mynd af obese manni en slík sjúkleg offita er alls ekki vandinn sem mörlandinn á við að etja. Vandamálið er bara svona vel pattaralegt fólk, þybbið og á góðri leið með að fá hjartasjúkdóm.
Ekki þarf svo rosalega hreyfingu eða breytingu á matarræði til að breyta til hins betra, t.d. getur neysla á 40 fleirum kaloríum á dag en brennt er valdið þyngdaraukningu um kíló á ári. Að ganga eða hjóla í hálftíma getur brennt í kringum 150 kaloríum en það er svona ca. sá tími sem tekur flesta á Höfuðborgarsvæðinu að komast ýmist í og/eða úr vinnu gangandi eða hjólandi. Ég er t.d. rúmar 10 min að hjóla í vinnuna en Inga mín var nú heilan hálftíma á leið úr Mogganum um daginn... á bíl.

miðvikudagur, júní 09, 2004

Furðulegur vinnutími

Í nýju vinnunni minni á ég að mæta kl. 8.20 og er búinn kl. 16.15, frekar spes tel ég. Mér finnst nú best þegar maður má svona nokkurn veginn ráða hvenær maður kemur og hvenær maður fer svo lengi sem maður sinni vinnunni sinni. Svo er það líka svo gott fyrir umferðina að hafa svoleiðis kerfi víða.
Er að fara að byrja á The life and death of great american cities e. Jane Jacobs sem er svona eitt af grundvallarritum borgarskipulags í nútímanum. Mikið af New Urbanism hugmyndafræðinni er sótt í þetta rit og fleiri af svipuðum meiði. Ein er sú gagnrýni á New Urbanism sem mér hefur þótt erfitt að líta fram hjá og er því miður ekki mikið rædd. Það er nú svo að ein helsta forsendan fyrir endurnýjun borgarhverfa er félagslegs eðlis því þá er álitið að samkennd eða sál hverfis hafi gefist upp fyrir hrörnandi kroppi. Þetta tel ég rétt og stundum tekst að endurvekja lífið í borgarhlutum með e.k. lýtaaðgerðum en þá aðallega fyrir tilstilli nýrra íbúa sem þá líta hverfið öðrum og jákvæðari augum.
En stundum virðast nýju úrbanistarnir telja að hin fýsíska umgjörð sé allt og að tiltekinn arkitektúr geti framkallað vissar kenndir það sterkt að breyting verði á félagslegu efni hverfis. Þá ríkir gjarnan nostalgía fyrir gömlum bæjarkjörnum og smáþorpum sem uppihalda röð og reglu gegnum samkennd og sameiginlega ábyrgðartilfinningu sem hver og einn (sem ekki er útskúfaður) tekur að sér að halda við. Vissulega er margt gott um það að segja að samfélög gangi vel og séu í röð og reglu fyrir tilstilli virkra íbúa en skuggahliðar þeirra samfélaga virðast líka hafa gleymst. Afskiptasemi, einsleitni og almenn hræðsla við hið frábrugðna voru einkenni þessara samfélaga líka og þannig var reglunni haldið uppi. Í dag hafa flestir kosið að skjóta miklu af því sem áður var persónuleg ábyrgð til yfirvalda. Með því hafa hættir orðið réttlátari að mörgu leyti því sömu reglur gilda (yfirleitt) fyrir alla en að sama skapi hafa margir einstaklingar orðið afskiptir því ætlast er til að yfirvöld sjái um vandamálin.
Það er margt í mörgu.

Á stofnun

Ég hef hafið störf hjá hinu opinbera, ekki auglýsingastofunni heldur andlitslausri skrifstofu í borgarkerfinu. Skyldi ég geta knúið byltinguna innanfrá?

mánudagur, júní 07, 2004

Kominn undir Esju

Loksins er ég kominn heim að sundum bláum og nýt verndar Esju fyrir norðanvindum. Já ok dáldið hallæris landsástarvæl en ég er bara svo veikur fyrir þessu fína landi okkar. Að vísu er ég ekki frá því að það hafi minnkað dáldið í stærð og glæsileik eftir dvölina úti en ég bíð með frekari greiningu á því. Og úr því ég er að tala um föðurlandsást þá er ég að vinna í greiningu á framboði fasteignasalans Baldurs Ágústssonar út frá slíkum sjónarmiðum. Ég kemst eiginlega ekki hjá því að finna til vorkunnar þegar ég sé heimasíðuna hans og allan hallærisganginn í kringum manninn. Sígilt dæmi um mann sem vill vel en gerir illt.
Annars átti ég stopp í DK á leið heim og reyndar í Malmö líka. Ég snæddi þynnku hádegisverð með Dagnýju í Malmö, Steik með bernaise og hvítvínsglas er ekki versti þynnkubani sem ég veit en ég var a m k mun betri eftir en fyrir. Svo dreif hún sig á sittning í Lundi (e k kvöldverður og fyllerí með samnemendum, með tilheyrandi snafsadrykkju og söngvum) og ég fór til minnar vinkonu í Köben Melkorku. Þar var líka sjálfust Katrín.is og Apamamman hennar, Gunnar Steinn og Þráinn leikskólamaður og músíkant. Heimilishaldið þarna í N A Köben er hið líflegasta og mikið sungið og dansað. VIð kíktum á Stengade 30 sem er að vísu við nr. 16 og dönsuðum indí dans fram í nóttina. Svo var nú meiningin að ég myndi tukta til menningarvitund Katrínar sem er eins og alþjóð veit óforskömmuð en blessunin var á djamminu til 8 svo ég fór bara sjálfur á Louisiana safnið og hafði mikið gaman af.
Mest þótti mér koma til sýningarinnar um Jörn Utzon danska arkitektinn sem hannaði m a óperhúsið í Sydney. Hann er alveg ófeiminn við að sýna hvaðan hann sækir innblástur og er mikill natúralisti í hugsun. Utzon virtist s kv sýningunni helst leita í náttúruform s s plöntur og svo hreina geómetríu líka og sú blanda er sennilega það sem gerir hann svo áhugaverðan.
Natúralismi, það er víst áreiðanlega eitthvað sem mætti njóta sín betur hér á landi sé ég nú.

þriðjudagur, júní 01, 2004

Eftir próf djamm og annað

Ég er nú bara búinn að vera á góðu djammi síðan prófum lauk s.l. fimmtudag. Hef síðan þá farið á djammið með Íslendingum sem ég rakst á af rælni, Drífu sem er hér við listnám, Úlf Stjörnukettling með meiru og lagsmann hans Begga. Allt alveg hið mætasta fólk. Drífa var að sýna ásamt samnemendum úr Konunglega Listaháskólanum lokaverk ársins og ég rakst á þetta kunnuglega andlit hennar þar. Svo slógu þau upp teiti um kvöldið sem var alveg rokna stuð. Ég hafði nú áður rekist á hana á listamessu hérna í vetur þar sem ég kynnti mig fyrir henni og kunningjum á fremur klunnalegan hátt. Ég man ekki hvernig það var klunnalegt en það var það í minningunni. Kom þó ekki að sök því hún virtist knappt muna eftir mér.
Núría spænsk vinkona héðan úr KTH fór á djammið með tveim vinkonum í heimsókn og nýja þýska kærastanum sínum. Okkur vinkonunum fannst öllum jafn fyndið að sjá Núríu í sleik allt kvöldið, hún er nú ekki alveg þannig týpa einhvern veginn.
Að lokum leit ég við í Skerjagarðinum í gær og kíkti á sumarbústaðinn hennar Elínar vinkonu og hennar fjölskyldu. Alveg frábær staður úti í skógi og óheyrilega sænskt. Hefði alveg getað verið þar smá stund, tala nú ekki um þegar hægt er að synda í sjónum seinna í sumar. Ég mun bæta mér það upp með sjóbaði úti á Nesi í staðinn.