Nammikvöld
Mikið hlakka ég til að borða með strákunum mínum, flottræflunum í kvöld. Það er orðið nokkuð langt síðan maður snæddi með þessum herramönnum síðast og því er þetta kærkomið kvöld matar og flottheita. Við Orri hentum í Gazpacho í gærkvöldi og vorum bara nokkuð ánægðir með árangurinn, okkar er með dálítið grilluðu sniði eins og allt á matseðlinum reyndar. Þriggja rétta grill er alltaf dálítið sniðugt, bara að ég vissi nákvæmlega hvað verður í eftirréttinum fyrir utan ananas.
Það var eitthvað minni gastrónómía í hádegismatnum en ég fékk mér einn sveittan á établissemang Svarta Svaninum. Merkilegt lífsreynsla, ég og svona 30 einstæðir karlmenn, ungir og miðaldra ásamt keppendum í neðri deildum lífsgæðakapphlaupsins slörfuðum í okkur "heimilismat" framreiddan af skörulegri kerlingu og ungfrúm í starfsliðinu. Ef ekki hefði verið fyrir ljótu skiltin, spilakassana og háu borðin hefði ég getað svarið að ég væri kominn á sveitaheimili æskuminninga minna. Þessi upplifun öll var svo djúpstæð að ég rann inn í nostalgíu fyrir Íslandi 7. og 8. áratugarins þegar Ísland var víðar en í Reykjavík, það þótt töff að vera í verbúð, fiskur var verkaður af Íslendingum og einu böllin voru sveitaböllin. Ég hvet lesandann til að krydda þetta sjónarspil með minningum að eigin vali úr gullöld íslensks húmors og minnast Nýs Lífs, Dalalífs, Með allt á hreinu og einhverrar annarrar myndar sem ég kynni að hafa gleymt.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home