föstudagur, júní 25, 2004

Persónuupplýsingaafsláttur

Smá hugleiðing fyrir lok vikunnar. Ég kynnti mér aðeins ekort , nýtt greiðslukort sem er verið að auglýsa þessa dagana. Notendum kortsins er lofað endurgreiðslu, hálfu prósent af heildarupphæð reikningsins og svo eru sum sérvalin fyrirtæki s.k. samstarfsaðilar sem gefa viðbótarendurgreiðslu upp á c.a. 1-2% eftir fyrirtækjum. Sérvalin fyrirtæki eru að sjálfsögðu öll í auðbaug Baugs. Svo má líka segja frá því að árgjaldið fellur niður ef velta kortsins er meiri en 300 þúsund á ári.
Þetta hljómar sem góður díll myndi ég segja en ekki hefur verið sagt frá öllu. Það er ekki svo að maður fái bara gefins peninga fyrir ekki annað en að versla. Allar upplýsingar um hverja einustu færslu verða sjálfkrafa eign kreditkortafyrirtækisins og geta þeir notað og greint venjur notandans að vild til eigin fjárhagslegs ávinnings.
Að sjálfsögðu er unnið samkvæmt persónuverndarlögum svo að þeir sem ekki kæra sig um að vera greindir af hegðun sinni sem einstaklingar þurfa þess ekki en ópersónugreinanleg hegðun allra notenda verður engu að síður nýtt.
Á upplýsingaöld eru upplýsingar ein dýrmætasta auðlindin eins og gefur að skilja af nafni tímans. Upplýsingarnar verða til við skráningu atferlis hvers einstaklings og því fleiri því betra, nákvæmara og dýrmætara. Hegðun fjöldans gefur nefnilega mikilvægar viðskipta-strategískar upplýsingar fyrir stærra skipulag fyrirtækja.
En svo er líka til sú hlið sem snýr beint að hegðun hvers einstaklings fyrir sig en þær upplýsingar má nýta til markaðssetningar til tiltekinna einstaklinga eða persónusniða eins og ég tel það kallað. Þessar upplýsingar hefur maður val um hvort séu nýttar í þessu tiltekna dæmi um ekortið.
Nú hefur verslun einni í Bandaríkjunum sem safnar upplýsingum um sína viðskiptavini gegnum tryggðarkort verið stefnt eins og Kana er siður en málið er að þessu sinni áhugavert og hugsanlega réttmætt. Frá því er sagt hér og eru málsatvik þau að kona ein keypti nautakjöt sem grunað var að væri riðusýkt. Gerir hún nú þá kröfu til verlsunarinnar að hún skyldi hafa haft samband við sig þar sem hún hafi keypt ketið með tryggðarkorti og kaupin því rekjanleg til sín. Fordæmið að svona viðvörunum er sótt til bílaframleiðanda sem er mjög annt um það orð sem fer af öryggi sínu og innkalla því oft bíla með gölluðum vélhluta með því að hafa beint samband við viðskiptavini sína eða gegnum umboðin. Skyldu Hagkaup þá einhvern tímann þurfa að innkalla salmonellu kjúkling með því að hringja í all sem keyptu kjúlla fyrir innköllun?
En já aftur að verðmæti því það er það sem þetta dæmi snýst um. Hversu mikils virði er hegðun mín og þín? Kannski ekki svo verðmæt mér en dýrmæt stórum verslunareiganda. En það eru nú ekki svo margir hringirnir hérna og því ekki margir kaupendur að upplýsingunum svo samkeppni um þær er úr myndinni. Sem er synd því sennilega gæti bara samkeppni skorið úr um verðmæti þessarra upplýsinga.
Að lokum get ég þó bent á að Bónus er ekki einn af samstarfsaðilunum fyrrgreindu en versli maður alltaf þar getur maður þó sparað mun meira en með því að fá endurgreitt frá Hagkaupum.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home