miðvikudagur, júní 16, 2004

Verslun í Miðbænum

Ég get að mörgu leyti tekið undir með verslunarkonu nokkurri sem skrifar í Moggann í dag en þó ekki í jafn mörgum orðum enda grein hennar fremur löng. En hún segir þar að það sé barasta undir venjulegu fólki, mér og þér komið hvort halda eigi raunuverulegu lífi í miðbænum gamla. Ekki nægir að rosalega mikið af fólki mæti þangað á tyllidögum þótt það sé vissulega ánægjulegt heldur verður miðbærinn að eiga sér sitt hversdagslíf líka.
Það ríkir samkeppni milli verslunarsvæða á höfuðborgarsvæðinu og neytendur styrkja og veikja stöðu svæðanna með innkaupum sínum.
Reyndar má kannski segja að Miðbærinn hafi fyrir margt löngu horfið úr kapphlaupinu um peninga hinnar breiðu miðju og er eiginlega orðinn hilla fyrir sérverslanir og kannski fremur hverfisþjónustumiðstöð en þjónustumiðstöð heillar borgar. Þetta er stór breyting frá því sem var fyrir 30 árum þegar nær öll sérvöruinnkaup í Reykjavík fóru fram í miðborginni.
En skyldi lesandinn hafa sérstakan áhuga á að verslanir haldist í miðborg Reykjavíkur þá er bara eitt hægt að gera og það er að versla sem mest í miðbænum og sem minnst annars staðar.
Það er þó því miður mitt álit að svo vænt þyki fólki hér ekki um miðborgina, allnokkrir held ég að hafi m.a.s. horn í síðu hennar og þess vegna mun hrörnunin halda áfram svo lengi sem færri versla þar og fyrir minna en annars staðar. Eingöngu þú getur breytt því.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home