fimmtudagur, júlí 29, 2004

Nýr málsháttur

Ekki er skipulagt nema fram í tímann.

Undrun á stafsetningu

Ég rakst af rælni á reglugerð um stafsetningu þegar ég var að leita að z reglum sem ég er að spá í að taka upp hjá sjálfum mér, svona mitt prívat fokk ðe system í stafsetningu.  Í téðri reglugerð rakst ég á merka grein, 6. grein 3. kafla sem segir að maður ráði því sjálfur hvort notaður sé stór eða lítill stafur á styttu nafni stofnana eða hluta stofnana. Eitt dæmanna sem tekið er er eimskipafélagið sem stytting á Eimskipafélag Íslands.  Svo er sagt frá því að persónugerða hluti má skrifa með stórum staf. 
Vantaði nokkuð zetu hjá mér í þennan texta?

Ekki á hjóli, þreytan óyfirstíganleg

Í gærkvöldi fór ég nokkuð snemma að sofa á minn mælikvarða, svona hálfeitt.  Þetta eftir að hafa horft á Góðkunningja lögreglunnar, mynd um Tyrkjann Keiser Söze sem þó kemur merkilega lítið við sögu miðað við að hann er eftirminnilegasta persóna myndarinnar. 
En hvað um það, ég skildi hjólið mitt eftir í vinnunni í gær og Inga skutlaði mér því á bílnum í morgun.  Nú á ég í stöðugri baráttu við augnlokin á mér sem vilja lokka mig til svefns.  Ég vil meina að þetta sé vegna þess að morgunhressingu hjólaferðarinnar vantar, það er alveg merkilegt hvað 10 mínútna hjólatúr getur gert fyrir mann.

þriðjudagur, júlí 27, 2004

Vonbrigði og reykingar

Ég verð að segja það að vinir mínir á pólitík.is valda mér vonbrigðum þessa dagana.  Þar finnst mér pennarnir skrifa með blárra bleki en áður og eiginlega eins og að frjálshyggjan sé þar skærasta ljósið. 
Nú kann það að virðast ruglingslegt fyrir sumum en ég lít á mig sem frjálshygginn mann og ég veit að það gera Ungir Jafnaðarmenn margir hverjir líka.  Hins vegar er það líka svo að það sem skilur frjálslynt vinstri fólk og frjálslynt hægri fólk að að mínu mati er viljinn til að beita ríkisvaldi til hægindarauka og almennrar hagsmunagæslu almennings.  Þessi þröskuldur er lágur hægra megin og fer hækkandi til vinstri.  (Fyrir sjálfstæðismenn er þröskuldurinn æði mishár og getur jafnvel breytt hæð manna í milli eftir flokksmerkjum og slíks.)
Svokölluð lýðheilsu mál eru ekki par vinsælt umræðuefni hér á landi þessa dagana en þó mjög mikilvæg að mínu mati, eitt þeirra er veitinga-reykinga málið.  Ég er sérlega hlynntur algeru reykingabanni á veitingastöðum, sér í lagi eftir reynslu mína frá New York nú um páskana.  En þá sá ég hvernig slíkt bann virkar í reynd. (Vel.)
Andstæðingar veitinga-reykinga-banns, þ.á.m. Hrafn Stefánsson sem skrifar grein á fyrrnefnt vefrit, reyna að spila á fölsk rök um fullkomna yfirsýn markaðarins á þörfum almennings.  Viðteknar venjur, viðmið samfélagsins og innbyggður valdastrúktúr hafa líka sitthvað að segja og því er erfitt að breyta.  Það er auðveldara að sannfæra einstaklinga um óhollustu reykinga en að fá samfélagið til að bregaðst við þeirri vitneskju.   Samfélag er náttúrulega ekki til að mati frjálshyggju hægri manna sbr. Thatcher og því munu þeir ei taka þessum rökum sem gildum.

En lítum á málið frá eigin brjósti: Hugsaðu þér hvort þú gætir farið á reyklausan pöbb með vinum þínum undir núverandi kringumstæðum?  Hver myndi neita að fara og hvaða áhrif myndi það hafa á ákvarðanatökuna?  Ef samstaða næst um að fara á reyklausa staðinn, hverjar eru líkurnar á að verið sé að spila uppáhalds tónlist Þorgríms Þráinssonar?  Hverjar eru líkurnar á að umræddur staður ráði til sín góðan plötusnúð (sem reykja flestir eftir því sem mig rekur best minni til)  þegar hann veit að hann getur reykt í vinnunni annars staðar?  

Reyklaus staður hlýtur að tapa gagnvart reykinga stað hvenær sem er því hann hefur höft, er útilokandi en reykinga staðurinn útilokar mun færri með reyk sínum.  Fíknin er sterk, sterkari en viljinn til að hafa ferskt loft og því hafa reykingamenn yfirhöndina.  Eingöngu með því að reykingastaðir séu undantekningin er hlutur reyklausra réttur og til þess þarf smá skúbb, gjarnan frá ríkisvaldinu að mínu mati. 

fimmtudagur, júlí 22, 2004

Meiri gæsla - ekki meira öryggi

Það liggur nú eiginlega ljóst fyrir að allt brjálæðið í aukningu öryggisgæslu á flugvöllum eftir 11. september er næsta tilgangslaust eins og bent hefur verið á.  Vissulega lítur það vel út að auka eftirlit og er líklegt til að auka tiltrú almennings á öryggisstofnunum en árangurinn er allt önnur ella.  Frá því er sagt í heimsfréttunum að 4 af 5 flugræningjunum sem réðust á BNA haustið 2001 sættu leit er þeir fóru gegnum málmleitarhlið auk annars þess eftirlits sem við þekkjum öll.  Það er til einskis að leita ef maður veit ekki hvers er leitað, þessara manna var ekki leitað og því fundust þeir ekki við öryggisskoðun.  Hryðjuverkasamtök verða viss um að beita þeirri kænskulegu tækni að nota óþekkt andlit til að framkvæma illvirki sín í framtíðinni. 
Stríðið gegn hryðjuverkum hefur  að mínu mati bara auðveldað hryðjuverkasamtökum að bæta í lið sitt reiðum ungum mönnum með óþekkt andlit.  Ég gæti ímyndað mér að margir væru ekki seinir að grípa tækifærið til að hefna látinna foreldra og limlests bróður ef það gæfist, t.d. þegar vinalegur kall að nafni Osama býður aðstoð sína og paradísarvist í þokkabót.

miðvikudagur, júlí 21, 2004

Fréttafávitar

Fréttablaðið girðir alltaf niðrum sig reglulega svona bara til að minna á hversu billegt blað það er.  Í dag er t.d. frétt um nýja iPodinn og við hliðina er svo mynd af slíku tæki.  Myndin er þó ekki af því sem fréttin fjallar um því hún fjallar um nýjustu útgáfuna en ekki þá elstu  sem myndin er af...

þriðjudagur, júlí 20, 2004

Skrítnar reglur

Maður rekst á furðulegustu reglur á leið sinni gegnum regluverk hins opinbera, þ.á.m. Reglur um jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hefur þann eina tilgang að safna hluta af skatti Reykvíkinga til að deila peningunum svo út meðal minni byggða sem ekki hafa efni á að reka skóla, vegi o.þ.h.  Hitt er Reglugerð um leigubifreiðar þar sem það er skýrt tekið fram að á höfuðborgarsvæðinu skulu ekki vera fleiri en 520 leigubílaleyfi. 

Ekki að óttast

Kæru lesendur, ekkert er að óttast ég er enn við líf.  Það var heilsan sem brást í síðustu viku og ég lá heima í móki og eymd og volæði.  Ég þakka þeim sem hringdu og gáfu hreystandi orð.
Svo kom helgin með sínum innanlandsferðalögum, náttúru- og forfeðranostalgíu ásamt tilheyrandi malarvega skrensi. 
Fyrst lá leiðin norður í Skagafjörð þar sem Inga mín er búin að vera með sínum foreldrum á bæ afabróður síns, Hjaltastaðahvammi ef einhver skyldi þekkja til þar í sveit.  Alltaf þegar ég kem þangað dettur mér í hug að það gæti verið gaman að vera bóndi, garðyrkjubóndi að vísu því ég myndi ekki geta þetta skepnuhaldsvesen.  Ég myndi vilja rækta tómata og basiliku og búa til bestu tómatsósu í heimi eða eitthvað í þá áttina.
Svo var kominn tími á að hitta minn ættboga, Hítalína sem hittust að tilefni þess að Richard og Helen frændsystkini mín frá Englandi voru stödd hér á landi.  Það var nú venjulegur ættarmótsbragur á því, feimni framan af og fyllerí þar á eftir svona í grófum dráttum a.m.k.  Bæjarstæðið í Hítardal er nokkuð sérstakt með miklum hraunum yfir víðum dalnum.  Svo þurrt er þar innarlega og jörðin litrík að helst minnir það á Ástralíu eða miðvesturríki Bandaríkjanna. 

fimmtudagur, júlí 08, 2004

T-póst blogg

Þetta er frumraun mín að skrifa blogg með tölvupósti. Ég skrifa
tölvupóst á tiltekið netfang og pósturinn birtist sem færsla á
blogginu. Alveg snilldarlegt finnst mér og gæti orðið til þess að
maður bloggi úr farsímanum sínum ef það fer einhvern tímann að virka.

miðvikudagur, júlí 07, 2004

Vinstri æfing

Er ekki annars komin smá sólarglæta á himninn?
Ég er að æfa mig að nota vinstri hendi á músina og þessi færsla er sko öll skrifuð með vinstri.
Kosturinn við að nota vinstri er að þá getur maður párað á blað með hinni hendinni sem er mjög nytsamlegt. Reyndar skrifa ég næstum jafn illa með hægri og vinstri svo það skiptir ekki öllu máli þannig lagað.

Ekkert bloggað í rigningu

Ég er í mótmælaaðgerðum gegn fáránlega ósumarlegu veðri og ekki síst gegn áróðursherferð Veðurstofunnar sem reyndi að halda því fram að júní hefði nú ekki verið svo slæmur með meiri sól og hita en í meðalári. Ég held nú að sólin hafi skinið á nóttunni aðallega og kannski hitinn hafi verið meiri þá líka en ekkert sem um munaði fyrir mig sem sef á nóttunni sko.
Svo geri ég líka kröfu til þess að mér verði boðið í kaffi með einhverjum í dag. Mér finnst alger óhæfa að ég hafi ekki tekið eftirmiðdagskaffi á neinu café í bænum s.l. vikur. Síminn 698-1865 og ég svara á augabragði með kaffibragði.

föstudagur, júlí 02, 2004

Words of love and words of leisure,

words are poisoned darts of pleasure.
Die, and so you die.

F. Ferdinand ´04

Tízka

Ég má til með að minnast á það að Prada línan fyrir karlmenn vorið 2005 er eitthvað aðeins of mögnuð. Myndir má nálgast hér.

Fersk helgi

Er ekki einhver þarna úti sem langar í drykk eftir vinnu? Ég held ég fari á KB að fá mér bjór um fimmleytið og þætti betra að sitja ekki einn.

fimmtudagur, júlí 01, 2004

Aftur inni

Ég er að spá í að lýsa því yfir að Friendster gæti átt comeback í sumar eða kannski eitthvað af nýrri sósjal network kerfum eins og Orkut. Mig langar að einhver bjóði mér inn sem Orkut vinur sinn, maður getur nefnilega alls ekki skráð sig heldur verður einhver að bjóða manni. Getur einhver boðið mér?