miðvikudagur, september 29, 2004

Martröðin byrjar

Málsóknir í anda RIAA eru hafnar á Íslandi, fleiri aðgerða að vænta. Ég bjóst sannast sagna ekki við að þessi vitleysa myndi berast hingað til lands en einhvers staðar eru til slík máttaröfl sem krefjast aðgerða. Ætli það sé ekki komið að því að stofna þurfi EFF á Íslandi.
Því miður er það ekki að neinu leyti í þágu samfélagsins að gera þróun ólöglega þótt ég átti mig á því að tónlistarbransa fólk hafi áhyggjur. Staðreyndin er þó sú að það félag sem stendur fyrir nær öllum innflutningi á tónlist hingað til lands hefur farið illa með einokunarstöðu sína og ekkert skrýtið við að fólk sniðgangi það kerfisbundið.
Nú er komið upp enn eitt flókið vandamál að setja sig inn í... uppgangstímar hjá lögfræðingum framundan.

Einföld heimsmál

Þegar setningin málin eru ekki svo einföld skýtur upp kollinum einhvers staðar nálægt pólitískri umræðu þá er það fyrst og fremst til marks um það að sá sem lét orðin falla sé ekki alveg með á nótunum. Ekki það að mál séu nokkurn tímann einföld í heimsmálum, siðfræði eða pólitík; þvert á móti og því er algerlega gagnslaust að minnast á það því það liggur í augum uppi.

Ég er að vinna í smá rannsóknarvinnu um verkfræðinám og sá þar svart á hvítu rosalega aukningu nýskráðra stúdenta árið 2000 og áfram. 1998 voru ca 150 nýskráðir, 1999 ca 190 og svo 2000 voru tæplega 350 nýskráðir í verkfræðideild. Kannski ekki skrýtið að bekkirnir hafi stækkað verulega og að manni hafi þótt þröng á þingi stundum. Merkilegt verður að sjá hversu mikið útskriftir aukast svo.

Bókin á náttborðinu eða öllu heldur á gólfinu við hliðina á rúminu þar sem ég á ekki náttborð er Saga Borgarættarinnar eftir Gunnar Gunnarsson. Það sem af er er ég bara nokkuð hrifinn. Gunnar fer nokkuð hratt yfir sögu svo að maður dregst að sögunni en skilur persónurnar samt ekki útundan. Þetta er sko ekki Seabuiscit neitt. Það er nokkuð merkileg kvikmyndastúdía, sum atriðin í henni eru svo stutt en þó mikilvæg að maður getur misst af öllu plottinu ef maður geispar á röngum stað. Við Eiki og Mummi horfðum á hana um daginn og Mummi missti af heilu brúðkaupi meðan hann var að fá popp úr skál og hella kóki í glas.

mánudagur, september 27, 2004

Helgin í uppgjöri

Liðin helgi var bara ekki slæm. Heiðurslistamennirnir Benedikt og Eiríkur litu við á Falcon street og ég eldaði ofan í þá Risotto eins og það væri bara ekkert mál. Inga var nú á svæðinu en dáldið fjarlæg þar sem hún var að drífa sig á opnun Nordisk Panorama. Við ýtarnir reyndum að klára kanadíska vínið sem Eiki keypti en án árangurs og við opnuðum einhvern ítala í staðinn sem var mun betri. Ég hvet lesendur til að kaupa ekki þetta kanadíska dót enda var það fyrst og fremst keypt fyrir miðann með mynd af fljúgandi íkorna á. Við hentumst svo niður í Norræna hús þar sem þeir áttu að spila strákarnir og ég heyrði í fyrsta sinn Benna Hemm Hemm spila með sínu bandi sem er stórbrotið í alla staði. Þar var líka góðvinur okkar Mummi Thoroddsen með tvö málverk á veggjum í hans einkennandi bleika lit með sérlegum táknum og dítöljum sem eru ætíð sannir.
Ég spurði Lóu hvort hún hefði fengið teiknimyndasögurnar sínar. Hún horfði bara forviða á mig og spurði mig hvað ég ætti eiginlega við. Ég endurtók og hún endurtók en ekkert þokaðist í skilningi okkar á milli. Þetta sló mig alveg út af laginu því ég hafði bara gert ráð fyrir að hún myndi tengja við bloggfærslu sína fyrr um daginn. Vandræðalega sagðist ég lesa bloggið hennar við og við. Þá tengdi hún og fannst óskaplega fyndið að ég skyldi lesa bloggið hennar. Ég snérist á hæl og ákvað reyna ekki að koma með óvæntar samræður við fólk aftur það kvöldið.
Svo brunaði ég með Eika og Ástríði á Þjóðleikhúskjallarann eftir að hafa hellt yfir mig hvítvíni í bílnum hans Níelsar. Ekki var nú sála mætt þegar við komum enda ekki búið að opna, svo sat maður bara rólegur og byrjaði að finna stemmninguna hellast yfir (ásamt þreytunni að vísu). Ég var alveg farinn að geispa í hléi Nix Noltes og fór heim. Hefði sennilega rignt niður í rokinu ef ég hefði ekki verið í mínum trausta, vatns og vindhelda Burberry frakka. Ég held að fellibylirnir Ivan og Jónína hafi verið að dandalast sín hvoru megin við Skothúsvegsbrúna þegar ég labbaði heim.
Laugardagurinn fór í að vera heima fyrir utan að ég fór á aðalafund Sögufélags alveg óvart, hafði það engan veginn í hyggju en endaði þar samt þegar ég ætlaði að fræðast um íslenskan aðal, ekki bókina.

föstudagur, september 17, 2004

Hvað er það?

Ég hóf daginn á morgunverðarfundi ?Borgin í býtið? þar sem verið var að fjalla um ferðavenjur Reykvíkinga með áherslu á umferðaröryggi barna. Margt merkilegt var kynnt þar, Ómar Ragnarsson sprellaði fyrstur með smá tölu um naumhyggju í ferðastíl. Svo var hann rokinn med det samme til Egilsstaða. Talandi um að vera mínimalískur. Merkilegast var svo erindi Haralds Sigurðssonar, skipulagsfræðings sem er að ég held lærður í Kanada ef minnið bregst ekki, en hann sagði frá könnun sem var gerð á ferðavenjum í mismunandi hverfum og bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Merkilegast þótti mér að sjá hversu miklu fleiri börn ganga í skólann þar sem göngunetið er algerlega aðskilið frá akandi umferð eins og tíðkast í öllum nýrri hverfum. Nema þó í mínu gamla hverfi Fossvogsdal sem var einmitt fyrsta hverfið hér í bæ sem hannað var eftir þeim fræðum. Þar eru mjög mörg börn keyrð í skólann en ástæðan að vissu leyti óljós.
Ég beindi spurningu til Ólafs Bjarnasonar en fékk engin viðhlítandi svör enda kannski ekki tóm til og benti svo á að þótt ofdekur í umferðarmannvirkjagerð væri ein ástæða fyrir þessari brjálæðislegu bílaeign og notkun hér að þá væri hugarfar líka ríkur þáttur og nefndi tvö dæmi máli mínu til stuðnings. Í fyrsta lagi þá hef ég oft orðið vitni að því að fólk er reiðubúið að bíða í á annan tíma eftir að verða sótt af einhverjum á bíl áður heldur en það gengur eða tekur strætó á leiðarenda. Hitt dæmið er að það gerist í alvörunni að fólk keyrir frá stúdendagörðunum í VR-II. Meira þarf vart að segja, svona hegðun jaðrar náttúrulega við brenglun. Annað nýlegt dæmi er af pari í Verkfræðinni sem koma á sínum bílnum hvert í skólann... mig skortir orð (og ég skyldi halda að þau skorti peninga...).
En jæja nú er liðin straumfræði og líkamsrækt síðan þá og ég er farinn að huga að mat fyrir kvöldið. Skyldi það verða spagettí með bökuðum tómötum og hvítlauk eða lambafilé eða bæði? Skyldi ég fara á Apparat Orgel kvartett í kvöld? Svo margar spurningar og svo mörg svör...

fimmtudagur, september 16, 2004

Back with a blast

Já kæri vinur, ég er kominn á tölvuskjáinn þinn eftir sumarfrí. Það hefur tekið mig smá tíma að komast í réttan gír en nú er drifskaft ritvélarinnar sem ég er tengt og ekkert stöðvar þetta stóreflis rittæki sem hugurinn er í að koma sínu út á prent.
Ég vildi bara minnast á nokkra hluti sem hafa vakið athygli mína í morgun:
  • Umhverfisráðherrar þurfa sennilega að klæðast hvítum jökkum enda bæði Siv og Sigríður Anna í slíkum á Ríkisráðsfundi. Sjá myndir á bls. 2 í Mbl. í dag.
  • Þorgerður Katrín er ekki hrædd að flíka sínum rauðköflótta jakka sem hún hefur tekið með sér úr tískuþætti Tímarits Mbl. Sjá ofangreindar myndir ásamt forsíðu Tímarits Mbl síðan um síðustu helgi.
  • Karlkyns ráðherrar eiga bara svarta jakka. Sjá einnig sömu myndir og í fyrsta punkti.
  • Sverrir Hermannsson skiptir enn við Landsbankann en hefur flutt sig í Vesturbæjarútibú úr Aðalútibúi eftir laxa fíaskóið þarna um árið. Eða kannski var hann aldrei í viðskiptum meðan hann var bankastjóri en treystir fyrst nú Landsbankanum fyrir sínu fé?
  • Ove Sprogöe er látinn. Hann var hinn eini sanni Olsen úr Olsensbandinu einhverri alskemmtilegustu kvikmyndaseríu sögunnar. Ég tárfelldi nær þegar ég sá Olsens bandets sidste stik hér um árið því ég fann áþreifanlega fyrir kaflaskilum í kvikmyndasögunni. Ég held að ég reyni að efna til minningarkvölds um Olsen um helgina. Áhugasamir (þ.e. þeir sem eiga vídeótæki, a.m.k. eina mynd með Olsens bandinu og þægilegan sófa) vinsamlegast hafið samband.