Liðin helgi var bara ekki slæm. Heiðurslistamennirnir Benedikt og Eiríkur litu við á Falcon street og ég eldaði ofan í þá Risotto eins og það væri bara ekkert mál. Inga var nú á svæðinu en dáldið fjarlæg þar sem hún var að drífa sig á opnun Nordisk Panorama. Við ýtarnir reyndum að klára
kanadíska vínið sem Eiki keypti en án árangurs og við opnuðum einhvern ítala í staðinn sem var mun betri. Ég hvet lesendur til að kaupa ekki þetta kanadíska dót enda var það fyrst og fremst keypt fyrir miðann með mynd af fljúgandi íkorna á. Við hentumst svo niður í Norræna hús þar sem þeir áttu að spila strákarnir og ég heyrði í fyrsta sinn Benna Hemm Hemm spila með sínu bandi sem er stórbrotið í alla staði. Þar var líka góðvinur okkar Mummi Thoroddsen með tvö málverk á veggjum í hans einkennandi bleika lit með sérlegum táknum og dítöljum sem eru ætíð sannir.
Ég spurði
Lóu hvort hún hefði fengið teiknimyndasögurnar sínar. Hún horfði bara forviða á mig og spurði mig hvað ég ætti eiginlega við. Ég endurtók og hún endurtók en ekkert þokaðist í skilningi okkar á milli. Þetta sló mig alveg út af laginu því ég hafði bara gert ráð fyrir að hún myndi tengja við bloggfærslu sína fyrr um daginn. Vandræðalega sagðist ég lesa bloggið hennar við og við. Þá tengdi hún og fannst óskaplega fyndið að ég skyldi lesa bloggið hennar. Ég snérist á hæl og ákvað reyna ekki að koma með óvæntar samræður við fólk aftur það kvöldið.
Svo brunaði ég með Eika og Ástríði á Þjóðleikhúskjallarann eftir að hafa hellt yfir mig hvítvíni í bílnum hans Níelsar. Ekki var nú sála mætt þegar við komum enda ekki búið að opna, svo sat maður bara rólegur og byrjaði að finna stemmninguna hellast yfir (ásamt þreytunni að vísu). Ég var alveg farinn að geispa í hléi Nix Noltes og fór heim. Hefði sennilega rignt niður í rokinu ef ég hefði ekki verið í mínum trausta, vatns og vindhelda Burberry frakka. Ég held að fellibylirnir Ivan og Jónína hafi verið að dandalast sín hvoru megin við Skothúsvegsbrúna þegar ég labbaði heim.
Laugardagurinn fór í að vera heima fyrir utan að ég fór á aðalafund Sögufélags alveg óvart, hafði það engan veginn í hyggju en endaði þar samt þegar ég ætlaði að fræðast um íslenskan aðal, ekki bókina.