fimmtudagur, október 28, 2004

Corporation nation

Loksins lét ég verða af því að sjá The Corporation í gær. Þetta er alveg rosaleg mynd með ákaflega mikilvægan boðskap að mínu mati. Meira að segja The Economist segir um myndina að hún sé "Surprisingly rational." Margt af því sem fjallað er um hafði maður svo sem kynnt sér áður gegnum No Logo sem kemur reyndar við sögu því höfundurinn Naomi Klein er einn af viðmælendunum, en það sem er merkilegt í sjálfu sér er nálgunin í frásögninni. Fyrst er sagt frá því hvernig fyrirtækin voru fljót að nýta sér 14. viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar um frelsi til athafna og eignarrétt sér í hag og létu skilgreina sig sem lögaðila með stöðu einstaklings. Fyrir lögunum varð fyrirtæki sem sagt einstaklingur og með það í huga hlýtur að mega skilgreina fyrirtækið frá öðrum sjónarhornum sem einstakling. Svo eru rakin dæmi eitt af öðrum og sýnt fram á það að fyrirtækið er í raun sýkópati, siðblindur eyðileggingarseggur, tilfinningakaldur og án getu til að skilja eða mynda varanleg sambönd við annað fólk.
Ég mæli með að þú drífir þig í bíó í kvöld ef þú átt þetta eftir lesandi góður.
Svo af því að ég er nú aðdáandi örfárra stórfyrirtækja þá vildi ég benda á þessa iPoda sem eru ótrúlega fyndnir.

mánudagur, október 25, 2004

Bondað á Sunnudegi

Við Inga erum alveg með sunnudagskvöldin frátekin til að bonda, þ.e. að horfa á Bond og reyndar Krónikuna og Practice líka. Alveg hreint unaðsleg dagskrá að horfa á. Skjár Einn gegnir nú mikilvægu hlutverki í menningarlegri uppfræðslu þjóðarinnar með því að sýna þessar gersemar menningarsögunnar sem James Bond myndir eru í krónólógískri röð. Að fylgjast með þróun og ekki þróuninni er stúdía út af fyrir sig. Það fór ekki fram hjá neinum að 8. áratugurinn með sínu fönki, vúdúi og almennum sálarlátum var runninn upp í Live and let die. Sú var nú eiginlega of léleg samt, enda eru þær æði misjafnar myndirnar. Fyrri Bondgellan, Rosie var bara aðeins of heimsk og gerði Solitaire (seinni bondgellan)ólíkt betri í samanburðinum þótt hún hafi nú eiginlega verið mjög léleg líka. Og alltaf skal einhver bófinn reyna að taka Bond af lífi með hákörlum og segja honum öll sín plön og leyndarmál áður en aftakan mistekst.

sunnudagur, október 24, 2004

Bent á eigin mistök

Skipulagssvið borgarinnar hefur séð ástæðu til að gera upp eigin mistök í fortíðinni og má sjá veggspjöld í kynningarskálanum við Borgartún og svo hér á netinu.
Það er dálítið sérstök framsetning á þessu, dulítið eins og almenningur hafi haft eitthvað um málin að segja sem er í raun alrangt því ekki er hægt að velja stefnu sem er nær ekki til. En upplýstur borgari er góður borgari.

föstudagur, október 15, 2004

Helgarplan

Jæja er þetta að verða svona færsla á föstudögum blogg...
Kíkti í bæinn í gærkvöldi, eitthvað sem ég hef ekkert verið að gera undanfarnar vikur. Hitti Níels, Gauja og Stebba félaga þeirra á Sirkus sem var nú alveg stórfínt. Téður Stebbi er fínn gaur, náungi sem hefur menntast gegnum reynslu sína og hefur fyrir vikið ákaflega jarðbundna en frjálsa sýn á heiminn. Það getur verið mjög hressandi að hitta fólk sem er ekki háskólagengið svona for once, það safnast ekki upp jafn mikið drasl í hausnum á fólki sem hefur haldið sig fjarri skólum.
Þetta eru verkefna og tilraunadagar í skólanum núna svo ég held mig mest hér ef einhver skyldi vera að velta fyrir sér af hverju ég er ekki að hleypa öllu upp á börum bæjarins. Svo er maður orðinn svo metnaðarfullur í lærdómnum ha!
Ég held að plan helgarinnar sé eitthvað á þessa leiðina:
Bingó hjá 3. árs Byggingaverkfræðistúd. kl 8 í kv.
Svo haldið í partí hjá mínum gamla árgangi í verkfræðinni
Morgundagurinn gæti falið í sér ferð á Draum á Jónsmessunótt hjá Orra Hugni vini mínum og félögum hans í Leiklistard. LHÍ.
Eða þá að ég mæti tímanlega í innflutningspartí hjá Ester vinkonu Ingu.

mánudagur, október 04, 2004

Að fara í þrot á holtinu

Því var slegið upp á forsíðu Fréttablaðsins fyrir helgi að þriðjungur allra verktaka sem byggðu á Grafaraholti hafi orðið gjaldþrota. Áður hefur lóðum verið úthlutað með vel þekktum afleiðingum en nú eru ?ær látnar hæstbjóðanda í té. Reynt var að láta þetta líta tortryggilega og fúlmannlega út eins og að það væri á einhvern hátt ekki byggingaverktökunum sjálfum að kenna.
Nú er það bara þannig að þegar vörur skipta höndum, veri það húsnæði, lóðir eða Snickers að þá verður fólk bara að vita hvað það er að gera og kaupi það hlutinn á röngu verði getur það engum um kennt nema sjálfum sér. Þetta á að sjálfsögðu ekki við þar sem brögð eru í tafli en slík vi?skipti kallast svik.
Hvernig dettur ?essum byggingamönnum í hug að kaupa lóðir á verði sem ekki er hægt að leggja til grundvallar íbúðarverðinu sem á að selja á? Hvernig dettur ?eim í hug að ráðast í fjárfestingar og framkvæmdir án þess að verða sér úti um viðeigandi fjármögnun?

Við getum hugsað okkur dæmi: Að ég hafi fengið tilboð um að kaupa nokkra kassa af Snickersi og að fara muni fram uppboð. Boðið hefst á 30 kr stykkið og hækkar og hækkar uns ég sé fram á að verða aðkaupa á 250 kr/stk. ellegar sitja auðum höndum næstu mánuði. Hver myndi svo kaupa Snickers af mér á 250 kr í heildsölu? Ekki þú? Var það uppboðshaldaranum að kenna að ég keyptiSnickers á 250 kall stykkið og get ekki selt það og sligist undan láninu sem ég tók fyrir gúmelaðinu?

Það er bara svo greinilegt að skortur á tilteknum eiginleika íslenskra iðnaðarmanna er farinn að koma þeim í koll. Þessi eiginleiki er fagmennska, þá er ég ekki að lasta handbragð þeirra heldur getuna til að taka ?átt í viðskiptum fagsins. Alveg er ég viss um að þeir verktakar sem réðu sér fjármálaráðgjafa eða gerðu sér grein fyrir því hvar þeirra mörk lágu með einum eða öðrum hætti hafi ekki farið undir í þessum sjálfsögðu og eðlilegu viðskiptum.

föstudagur, október 01, 2004

Já ég ætlaði víst að segja með vísan til síðustu fyrirsagnar að mér finnst föstudagar alltaf hálfgerðir non dagar.

Nonplace non dagur

Á ofni sannleikans er dálítið verið að ræða non places, ekki staði, staði sem eru án samhengis við sitt náttúrulega umhverfi, tengjast ekki sögu eða menningu þess staðar sem þeir eru á. Þetta eru fyrst og fremst staðir sem fólk úr öllum áttum sækir flugvellir, hótel, hraðbankar, súpermarkaðir og þess háttar. Ætli það sé ekki best að lýsa svona stöðum með því að myndir af þeim veita nær engar upplýsingar um hvar þeir eru; þeir gætu verið hvar sem er.
Margir hafa haft áhyggjur af því að svona staðir séu farnir að gleypa heilu bæjarhlutana, að engin sérstök einkenni sé að finna á t.d. einni göngugötu í miðbæ í Evrópu miðað við aðra. Sömu búðarkeðjurnar, matsölustaðirnir og allt það en lítið eftir af staðbundnum séreinkennum.
En er ekki líka í þessari skoðun sú hugmynd að þetta "sérstaka," þessi staðbundnu einkenni séu þjóðareinkenni? Og má kannski segja að Kebab búllur í Norður Evrópu séu dæmi um svona Non place? Nú eru kebab búllur flestar hver annarri líkar, sjálfur er ég ötull kebab hakkari en þykir fábrotinn munur á Kebab Stockholm, King of Kebab í Kaupmannahöfn og áþekkum stöðum í London eða Sevilla. Ekki meiri en á Zara í Reykjavík og Zara á Spáni ef út í það er farið. En þessir staðir eru allir sjálfstæðir en sprottnir úr svipuðum aðstæðum því um er að ræða arabíska innflytjendur sem standa í rekstrinum. Eru þessir staðir þá ekki óriginal birtingarmynd tiltekinnar menningar, ósnortnir af fjölþjóðarisafyrirtækjum? En þessir staðir koma engu að síður alveg eins fyrir sjónir sem óljós staður, úr samhengi við sitt umhverfi a.m.k. í stærra tilliti. (Í smærra samhengi má reyndar segja að t.d. King of Kebab sé í fullkominni harmóní við sitt næsta umhverfi á Nörrebro.) Eru þá ekki andstæðingar Non places í raun og veru að segja að þeir séu á móti innflytjendum?
Það merkilega er að sjálfsögðu líka það að fólki finnst alveg hreint magnað að koma í búðar og matsölukeðjur um víðan heim. Margir hreint þrá að sjá hvernig McDonalds er á Íslandi, Finnlandi og Ameríku í samanburði við sitt heimaland. Því þessir staðir sníða sér líka stakk eftir vexti og breyta einu og öðru smáatriði fyrir hvern stað, hverja búð. Vissuð þið að í Finnlandi er einn vinsælasti borgarinn á Makkanum McRuis? Rúgbrauðs borgari! Og að sjálfsögðu eru engir nautaborgarar á Indlandi, enda væri það svona svipað og ef hér á landi væru bara lóuborgar. Hver heimsækir ekki H&M búðir í hinum stóru miðborgum heimsins? Hver vill ekki sjá hvað sænsku fatasalarnir vilja selja Parísarbúum en ekki könum? Og hver er þá núna orðinn sveigjanlegur og í anda hvers staðar fyrir sig ef það var þá nokkurn tímann krafa almennt?
Þetta er að sjálfsögðu hluti af þessari Alþjóðavæðingu sem er verið að tala um og ætli manni verði ekki seint láð að ruglast í ríminu þegar þessi mál ber á góma. Ég hef í hyggju að kaupa mér bráðlega rit sem fjallar öðrum þræði um þessi mál Af okkur heitir bókin og er önnur Af bók Nýhils. Ég býst ekki við að þar verði nein sérstök svör að finna, ég hef bara svo gaman af að sökkva ruglingnum í hausnum á mér í bók.