Á ofni sannleikans er dálítið verið að ræða
non places, ekki staði, staði sem eru án samhengis við sitt náttúrulega umhverfi, tengjast ekki sögu eða menningu þess staðar sem þeir eru á. Þetta eru fyrst og fremst staðir sem fólk úr öllum áttum sækir flugvellir, hótel, hraðbankar, súpermarkaðir og þess háttar. Ætli það sé ekki best að lýsa svona stöðum með því að myndir af þeim veita nær engar upplýsingar um hvar þeir eru; þeir gætu verið hvar sem er.
Margir hafa haft áhyggjur af því að svona staðir séu farnir að gleypa heilu bæjarhlutana, að engin sérstök einkenni sé að finna á t.d. einni göngugötu í miðbæ í Evrópu miðað við aðra. Sömu búðarkeðjurnar, matsölustaðirnir og allt það en lítið eftir af staðbundnum séreinkennum.
En er ekki líka í þessari skoðun sú hugmynd að þetta "sérstaka," þessi staðbundnu einkenni séu þjóðareinkenni? Og má kannski segja að Kebab búllur í Norður Evrópu séu dæmi um svona Non place? Nú eru kebab búllur flestar hver annarri líkar, sjálfur er ég ötull kebab hakkari en þykir fábrotinn munur á Kebab Stockholm, King of Kebab í Kaupmannahöfn og áþekkum stöðum í London eða Sevilla. Ekki meiri en á Zara í Reykjavík og Zara á Spáni ef út í það er farið. En þessir staðir eru allir sjálfstæðir en sprottnir úr svipuðum aðstæðum því um er að ræða arabíska innflytjendur sem standa í rekstrinum. Eru þessir staðir þá ekki óriginal birtingarmynd tiltekinnar menningar, ósnortnir af fjölþjóðarisafyrirtækjum? En þessir staðir koma engu að síður alveg eins fyrir sjónir sem óljós staður, úr samhengi við sitt umhverfi a.m.k. í stærra tilliti. (Í smærra samhengi má reyndar segja að t.d. King of Kebab sé í fullkominni harmóní við sitt næsta umhverfi á Nörrebro.) Eru þá ekki andstæðingar
Non places í raun og veru að segja að þeir séu á móti innflytjendum?
Það merkilega er að sjálfsögðu líka það að fólki finnst alveg hreint magnað að koma í búðar og matsölukeðjur um víðan heim. Margir hreint þrá að sjá hvernig McDonalds er á Íslandi, Finnlandi og Ameríku í samanburði við sitt heimaland. Því þessir staðir sníða sér líka stakk eftir vexti og breyta einu og öðru smáatriði fyrir hvern stað, hverja búð. Vissuð þið að í Finnlandi er einn vinsælasti borgarinn á Makkanum McRuis? Rúgbrauðs borgari! Og að sjálfsögðu eru engir nautaborgarar á Indlandi, enda væri það svona svipað og ef hér á landi væru bara lóuborgar. Hver heimsækir ekki H&M búðir í hinum stóru miðborgum heimsins? Hver vill ekki sjá hvað sænsku fatasalarnir vilja selja Parísarbúum en ekki könum? Og hver er þá núna orðinn sveigjanlegur og í anda hvers staðar fyrir sig ef það var þá nokkurn tímann krafa almennt?
Þetta er að sjálfsögðu hluti af þessari
Alþjóðavæðingu sem er verið að tala um og ætli manni verði ekki seint láð að ruglast í ríminu þegar þessi mál ber á góma. Ég hef í hyggju að kaupa mér bráðlega rit sem fjallar öðrum þræði um þessi mál
Af okkur heitir bókin og er önnur Af bók Nýhils. Ég býst ekki við að þar verði nein sérstök svör að finna, ég hef bara svo gaman af að sökkva ruglingnum í hausnum á mér í bók.