Í tilefni af degi íslenskrar tungu verð ég með eitt af mínum sívinsælu tungumálahornum, þessir pistlar hafa stundum sett þjóðfélagið á annan endann en í ár mun ég einbeita mér að því jákvæða sem gerzt hefur í málrækt á Íslandi.
Auðveldast væri að sjálfsögðu að benda fingri til austsuðausturs til Danmerkur og segja: ?Ha! Við erum betri en þið í málrækt.? En það væri nú ekki neitt til að bera sig saman við því allir vita að Danir vinna skipulega að niðurrifi síns tungumáls. En nóg af Danarógi.
Ég sá það t.d. í rannsóknum mínum á gömlum blöðum í gær að fyrir miðja síðustu öld var ekki til orð fyrir gulrætur heldur voru þær kallaðar ?carrotur.? Flestar stéttir (að kvikmyndaframleiðendum undanskyldum) hafa innan sinna raða mjög svo virka nýyrðasmiði sem hjálpa til við að gera sértæk orð skiljanleg á tungumáli sem er okkur eðlilegt.
Svo held ég að draga megi þá ályktun að stafsetning og greinarmerkjasetning sé mun betri í dag en fyrr í nútímanum eða svo er að minnsta kosti mín reynsla þegar ég skoða eldri texta sem ekki hefur sætt stífri ritstýringu.
Mörg fyrirtæki vinna hörðum höndum að því að íslenska vinnu sína og framleiðslu og vöktu tvö þeirra athygli á sér í Mogganum í morgun: Apple búðin svo og AEG (Bræðurnir Ormsson)sem hafa þýtt og staðfært stýrikerfi tölvu annars vegar og þvottavélar hins vegar. Virðingarvert framtak og móðurmálsunnendur ættu að sálfsögðu að beina viðskiptum sínum til þessara fyrirtækja.
Fréttir af degi íslenzkrar verða birtar jafnóðum og þær berast.
Til hamingju með daginn Jónas H!