laugardagur, desember 18, 2004

Próflok

Síðasta prófi er lokið. Kláraði próf í stærðfræðigreiningu í morgun (eða nokkur dæmi a.m.k.) svo nú er bara kæruleysi sem bíður.
Er að horfa á Gísla Martein, borða búrító og sötra Beaujolais Nouveau ´04. KK og Ellen systir hans sungu og spiluðu. Ég minntist á það flissandi við Ingu að KK þýðir á sænsku knull kompis sem er sem sagt andstæða platónsks sambands. Kemur á daginn að skrattakollurinn bjó í Svíþjóð og Ellen systir hans sagði meira að segja KK upp á sænsku þarna í þættinum svo hann veit alveg hvað hann syngur.
Beaujolais er annars sull og minnir um margt á eigin heimabrugg hér um árið.
Er ekki annars merkilegt hvað Stuðmenn eru miklir áhrifamenn í samfélaginu og hvernig þessum hópi tekst að vera sívinsæll?

mánudagur, desember 13, 2004

Amstur

Tvö próf af fjórum búin. Fyrsta var bara pís og keik eiginlega en prófið í morgun var djöflaterta. Eftir svona púl er ég bara búinn á því og það sem eftir lifir dags er ég frekar óstarfhæfur. Lagði mig og fór í pottinn í Vesturbæjarlöginni, kom upp úr mauksoðinn eins og paté. Ætla samt að kíkja á Laplace kallinn þegar Sopranos er búið.

Inga kemur heim úr verslunar- og skemmtiferð til Glasgow á morgun. Hlakka til að fá hana í tómlega íbúð (þótt það sé nú fínt að vera með pleisið út af fyrir sig).

Var annars að spá með öll þessi hverfi sem er verið að skipuleggja að þau eiga það öll samnefnt að eiga að hýsa efri hilluna í samfélaginu. Ég bara spyr hvar á venjulega fólkið að búa? Er ekki búið að blóðmjólka þennan lúxusíbúðamarkað? Gott og vel fasteignabyggjendur mega gera allt hvað þeir geta til að fá fyrir sinn snúð en er það ekki ábyrgðarhlutur skipulagsyfirvalda að markaðsetja alltaf öll ný hverfi sem lúxushverfi og keyra þannig verð og væntingar upp fyrirfram?

föstudagur, desember 10, 2004

Mogginn úr miðbæ öðru sinni

Það hefði kannski ekki átt að koma manni á óvart að Mogginn ætli sér að flytja upp í Hádegismóa þangað sem prentsmiðjan flutti fyrr í ár. Ég hafði rætt þetta mál við nokkra starfsmenn blaðsins og þessi möguleiki skaut upp kollinum, a.m.k. var rætt um alla lóðina sem Árvakur á á þessum dýrasta bletti landsins. Þó komust allir að því að sennilega myndi svona miðsækin starfsemi eins og útgáfa er ekki flytjast út á jaðar byggðarinnar. Á níunda áratugnum var flutt úr Morgunblaðshöllinni, í miðbænum inn á nýtt spennandi svæði í Kringlumýri.
þetta svæði sem eitt sinn kallaðist ?Nýi miðbærinn? er miðstöð fjölmiðlunar á landinu öllu því þarna og í nágreninu eru öll dagblöðin, Fréttablaðið og DV er í gamla Tónabæ ekki alllangt frá. Þá eru tvær stærstu útvarpsstöðvarnar, Rásir 1 og 2 ásamt sjónvarpinu steinsnar frá í Efstaleiti. Ég held því að með þessu sé Mogginn að setja sig dálítið á jaðarinn í tvennum skilningi. Enn skiptir staðsetning nefnilega máli, sérstaklega hvað varðar sýnileika fyrirtækja í fjölmiðlun. Mér hefur alltaf fundist það dálítið plebbalegt hjá Stöð 2 að vera í einhverjum kumböldum í miðju iðnaðarhverfi þegar það ætti að geta komið sér fyrir á fjölfarnari, meira áberandi stað, í hringiðunni.
En með brottför Moggans og fyrirætlunum Klasa undir forystu Ragnars Atla Guðmundssonar sem lengst af hefur haft umsjón með Kringlunni opnast ný og spennandi tækifæri. Sú hugmynd hefur nefnilega kviknað með mér undanfarið að kannski var það illa ráðið að fara ekki í öflugri uppbyggingu á Kringlusvæðinu undir merkjum ?Nýs miðbæjar? á sínum tíma. Kringlan er nefnilega alvöru miðbæjarsvæði að innihaldi en ekki að formi. Þar er leikhús, bíó, bókasafn, Skemmtistaður, Háskóli, fyrrnefndir fjölmiðlar og margt fleira sem margt fólk notar á hverjum degi. Það fólk á rétt á því að vel sé búið að umhverfi þess en það verður að segjast að heildaryfirbragð svæðisins alls er ákaflega ómannvænt enda hannað fyrir farartæki fólks en ekki fólkið sjálft. Í Mogganum í dag sem allsóforvarendis skúbbar fréttina um eigin flutning er rætt um ætlanir Klasa að byggja á svæðinu blandaða byggð sem verður gaman að sjá útfærsluna á. Og þá kannski stígur þróun svæðisins skref í betri átt íbúum og notendum svæðisins til hagsbóta.

miðvikudagur, desember 08, 2004

Um bróður minn aftur

Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki getið heimilda þegar ég hlekkjaði á samskeyttu myndina af bróður mínum og Benna en einhver Snati ku eiga veg og vanda að mynd þessari.
Fólk er svo minnt á að kynna sér og kaupa jólaplötuna Stúf sem Atli gaf út nú á dögunum. Ég er búinn að hlusta á hana einu sinni eða tvisvar og get alveg óhikað mælt með henni, svo þykist ég vita að hún muni hafa mikið gildi sem safngripur í framtíðinni. Lagalistinn er svo:

1. Ókind: Jólakötturinn
2. Hermigervill: Jólasull
3. Topless Lation Fever: Göngum við í kringum
4. Doddi: White Christmas
5. Lokbrá: Ó, helga nótt
6. Atli &: Ristaðar kastaníur
7. bob: Clowns in Christmastown
8. Isidor: Jóla - jólasveinn
9. Hjaltalín: Mamma kveikir kertaljós


Með kaupum á plötunni ertu líka að hjálpa Mæðrasyrksnefnd sem hjálpar m.a. fátækum fjölskyldum að halda jól. Góð tónlist, góður málstaður og góð jól.

sunnudagur, desember 05, 2004

Tvífarinn bróðir minn

Katrín (.is) benti á að Benni (ekki Benni vinur minn) hefur tekið eftir því að hann og Atli bróðir séu tvífarar eins og sjá má á þessari mynd. Ég verð þó að benda á að strangt til tekið er það fyrst og fremst skegg, hár og gleraugu sem eru með þeim samnefnarar og þar sem ég þekki báða í útliti án fyrrgreindra einkenna þá eru þeir nær ekkert líkir þannig.
Atli ætti að muna eftir Benna úr útskriftarveislu sem við sóttum báðir tveir í haust hjá Melkorku og Þórhildi en þar fór hann með gamanmál.

laugardagur, desember 04, 2004

Fjöldamorð í röðinni

Síðasta vetur var einn allra vinsælasti skemmtistaður Stokkhólms opnaður aftur eftir nokkurra ára hlé. Sture Compagniet við Stureplan var staðurinn til að vera á fram til ´94. Þar var tónlistin, fólkið og opið til 5 þegar hinir loka 3.
Svo var það fyrir 10 árum í dag að náunga var neitað um aðgang og að honum fannst var gert lítið úr honum fyrir framan alla röðina sem beið eftir að komast inn. Hann og félagarnir voru pirraðir, þreyttir og með kóla í nös, drifu sig heim og náðu í hríðskotara. Svo plöffuðu þeir niður 5 manns eins og ekkert væri, allt krakkar 21 eða 22ja ára gamlir.
Þetta lifir mjög í minningu Stokkhólmsbúa og ég hefði ekki getað komist hjá að heyra talað um þetta nokkrum sinnum þann tíma sem ég var þar úti. Reyndar gerðist það að dyravörður var skotinn í Kungsträdgården við svipaðar aðstæður þegar ég var nýkominn út. Biðraðir við sænska skemmtistaði eru ekki heilbrigðar.

fimmtudagur, desember 02, 2004

Sultin

Pólitíkin í stofnunum hér á landi er verulegar farin að fara í taugarnar á mér en það er svosem ekki það hættulegasta. Með pólitík í stofnunum meina ég ekki þá pólitík sem stofnanirnar reka heldur sú pólitík sem ráðamenn hafa um stofnanir.
Nýjasta dæmið er Náttúrufræðistofnun en nefna mætti Mannréttindaskrifstofu Íslands, Þjóðhagsstofnun og ætli listinn nái ekki út fyrir mitt takmarkaða minni. Ég hef trú á stofnunum að því gefnu að þær séu samkvæmar sjálfum sér, sjálfstæðar í vinnubrögðum og verkefnavali og vel fjármagnaðar. Vel á þá við bæði magn og gæði.
Stofnanir og samtök eru mikilvæg fyrir lýðræðið og umræðuna því þær hafa mátt til að standa upp í hárinu á stjórnvöldum án þess að þurfa að ganga erinda sérhagsmunaaðila heldur geta verið málsvarar almennings.
Tökum dæmið sem Náttúrufræðistofnun er. Þar eiga menn að hafa það fyrir stafni að safna upplýsingum um náttúru Íslands í allri sinni dýrð. Og að safna upplýsingum um svo víðfeðma dýrð kostar peninga, nokkuð mikla peninga, peninga sem raunar hafa aldrei verið til. Safnið er í bráðabirgðahúsnæði síðan fyrir einhverjum áratugum síðan. Helstu verkefnin hafa aldrei komið til framkvæmda. A.m.k. ekki fyrir rétta peninga. Helsti kostunaraðili náttúrufarsrannsókna hér á landi er... bam bam bammm Landsvirkjun. Og hvað þýðingu skyldi það hafa fyrir andmælarétt þeirrar stofnunar til dæmis þegar sökkva á friðlýstum svæðum eða einstökun náttúruminjum?
En meginniðurstaðan er að ef ríkisstjórnin ber niður þá sem henni eru ósammála þá kemur það þeim eða fulltrúum þeirra í framtíðarkynslóðum í koll. Einhverjir munu benda á að málfrelsi einkasamtaka mun sennilega alltaf virt í samfélagi eins og okkar og að þau munu geta haldið baráttunni áfram telji þau málstaðinn verðugan. Kannski eftir mikla vinnu og hörmungar já, þá er það í raun satt. En ég tel að ríkisstjórnin eigi að styrkja andstæðinga sína til að tryggja að ekki þurfi að berjast gegn áframhaldandi hörmungum heldur hafa styrkar stofnanir sem geta komið í veg fyrir hörmungar áður en berjast þarf gegn þeim. Því vinur er sá er til vamms segir. Og what goes around comes around en það er það hættulegasta.

Fullveldi með foresetanum og frú

Ég gerðist svo æði mikið merkikerti í gær að fara í heimsókn til forseta íslenska lýðveldisins þangað sem mér var boðið ásamt öðrum forkólfum í stúdentalífinu. Þið munuð hafa séð mig á síðum Stúdentablaðsins undanfarið vænti ég og vegna þessa mikilvæga embættis míns var mér boðið að taka þátt í hátíðarhöldum stúdenta á Bessastöðum. Ég snapaði far með Magga kollega mínum á blaðinu og hans kærustu sem var í óðaönn að naglalakka sig í bílnum þegar þau flautuðu utan við Fálkagötuna. Hristingurinn var slíkur að við neyddumst til að koma við í apóteki og kaupa asetón og bómull. Dorrit sá svo ástæðu til að hrósa henni fyrir refinn sem hún bar um hálsinn þegar við heilsuðum þeim hjónum í Suðurstofunni.
Fólkið var að tínast inn, Páll Skúla, Ármann Snævarr, Vigdís Finnboga, Ingibjörg Sólrún o.fl. þegar Ólafur R. sló í glas og hélt tölu. Anna Pála hafði svo á orði að ræða forsetans hefði verið hressilega ólík þeirri sem hún heyrði hjá honum í haust þegar hún var þar vegna ICEMUN. Honum fannst það hressandi eins og við var að búast. Sjálfur var ég svo dasaður vegna blóðskorts og cava á fastandi maga að ég forðaðist umræðuefni sem kröfðust mikillar greiningar við.
Bessastaðir eru flott pleis með skemmtilegu bókasafni þar sem Dorrit stóð í djúpvitrum umræðum um Íraksstríðið og ástand heimsmálana við ýmislegt fólk með ýmsar skoðanir. Ég hafði mig lítið í frammi taldi mig geta lært meira af að hlusta en að blaðra.
Svo var tilkynnt hátt og snjallt af forsetans einkaþjóni að rektor skyldi halda tölu. Við sem höfðum þvælst upp á loft að skoða misfagra gjafir erlendra þjóðhöfðingja hentumst niður og hlýddum Pál pæla. Tölur dagsins voru á línunni sem gefin var fyrr um daginn ?Konur og fullveldi.? Páll bað konurnar í lengstu lög að beita okkur karlmenn ekki sömu kúgun og við þær þegar þær tækju við.
Forsetinn tilkynnti svo að hann myndi kveðja fólk í Suðurstofunni, kjúið gefið: allir heim.
Við Maggi, kærastan hans og Bragi Skafta fórum og slöfruðum í okkur tilboð B á Indókína til að fylla upp í snittuleysið í maganum.

miðvikudagur, desember 01, 2004

Bolir og belgir

Dieselsweeties eru með mjög kúl boli. Sjálfur er ég að spá í að fá mér "I had an iPod before you knew what one was" bolinn. Ég mæli líka með "My name is M.C. Menses and my flow be fresh" svo má ég til með að minnast á hinn sígilda sannleika "Nothing is any good if other people like it." Það á t.d. við um tónlist sem var kúl en fór svo í spilun á Effemm og varð instantly mainstream og hallærislegt drasl.
Nú til dags er það þó fágaðri skemmdarverkastarfsemi sem fer í mig og ber þar helst að nefna þegar gott vín fær einhvern drasl femin.is eða Bylgju bleðil á sig. Hver myndi í alvörunni kaupa vín sem er Fólk með Sirrý vín eða Bylgju vín?? Inga skammaðist sín bara niður í gólf um daginn þegar hún áttaði sig á að vínið (Rosemount Cabarnet/Merlot gott eitt og sér) sem hún hafði keypt var vín mánaðarins hjá femin.is... Ég meina maður gerir ekki svoleiðis mistök tvisvar.