föstudagur, desember 10, 2004

Mogginn úr miðbæ öðru sinni

Það hefði kannski ekki átt að koma manni á óvart að Mogginn ætli sér að flytja upp í Hádegismóa þangað sem prentsmiðjan flutti fyrr í ár. Ég hafði rætt þetta mál við nokkra starfsmenn blaðsins og þessi möguleiki skaut upp kollinum, a.m.k. var rætt um alla lóðina sem Árvakur á á þessum dýrasta bletti landsins. Þó komust allir að því að sennilega myndi svona miðsækin starfsemi eins og útgáfa er ekki flytjast út á jaðar byggðarinnar. Á níunda áratugnum var flutt úr Morgunblaðshöllinni, í miðbænum inn á nýtt spennandi svæði í Kringlumýri.
þetta svæði sem eitt sinn kallaðist ?Nýi miðbærinn? er miðstöð fjölmiðlunar á landinu öllu því þarna og í nágreninu eru öll dagblöðin, Fréttablaðið og DV er í gamla Tónabæ ekki alllangt frá. Þá eru tvær stærstu útvarpsstöðvarnar, Rásir 1 og 2 ásamt sjónvarpinu steinsnar frá í Efstaleiti. Ég held því að með þessu sé Mogginn að setja sig dálítið á jaðarinn í tvennum skilningi. Enn skiptir staðsetning nefnilega máli, sérstaklega hvað varðar sýnileika fyrirtækja í fjölmiðlun. Mér hefur alltaf fundist það dálítið plebbalegt hjá Stöð 2 að vera í einhverjum kumböldum í miðju iðnaðarhverfi þegar það ætti að geta komið sér fyrir á fjölfarnari, meira áberandi stað, í hringiðunni.
En með brottför Moggans og fyrirætlunum Klasa undir forystu Ragnars Atla Guðmundssonar sem lengst af hefur haft umsjón með Kringlunni opnast ný og spennandi tækifæri. Sú hugmynd hefur nefnilega kviknað með mér undanfarið að kannski var það illa ráðið að fara ekki í öflugri uppbyggingu á Kringlusvæðinu undir merkjum ?Nýs miðbæjar? á sínum tíma. Kringlan er nefnilega alvöru miðbæjarsvæði að innihaldi en ekki að formi. Þar er leikhús, bíó, bókasafn, Skemmtistaður, Háskóli, fyrrnefndir fjölmiðlar og margt fleira sem margt fólk notar á hverjum degi. Það fólk á rétt á því að vel sé búið að umhverfi þess en það verður að segjast að heildaryfirbragð svæðisins alls er ákaflega ómannvænt enda hannað fyrir farartæki fólks en ekki fólkið sjálft. Í Mogganum í dag sem allsóforvarendis skúbbar fréttina um eigin flutning er rætt um ætlanir Klasa að byggja á svæðinu blandaða byggð sem verður gaman að sjá útfærsluna á. Og þá kannski stígur þróun svæðisins skref í betri átt íbúum og notendum svæðisins til hagsbóta.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home