Mín skoðun er sú að öll önnur föt en þau sem eru klæðskerasniðin og saumuð séu í raun óásættanleg málamiðlun. Ég eins og aðrir sætti mig þó við að klæðast fjöldaframleiddum flíkum sem sniðnar eru á vísitölukropp. Þó á ég því láni að fagna að ég er ekki svo ólíkur í vextinum og vísitölukroppurinn sem notaður er við hönnun sniðanna. En með stafrænni tækni er miklu auðveldara nú en áður að búa til "mass-customised" vörur eða fjöldaframleitt handverk. Ég hef dálítið verið að skoða
síðuna hans Ravi sem er klæðskeri í Tælandi og getur saumað eftir óskum manns og máli fyrir hlægilegt verð. Svo er hann með fjöldann allan af tilboðum sem gott er að nýta sér t.d. tvenn jakkaföt og 6 skyrtur á hlægilega 890 dollara eða 58 þúsund krónur á gengi dagsins í dag! Og vel að merkja eru allar flíkurnar sniðnar að manns eigin máli og líkamsstöðu en ekki bara út í bláinn.
Til upplýsingar læt ég fylgja með færslu þessari ráðleggingar klæðskeranna
Kilgour við Savile Row nr. 8 um ásættanlegan fataskáp herramanna:
Þung fötÞess konar fatnaður sem hentar ísköldum kaupsýslumönnum og frostdögum í Moskvu og London. Tvenn tvíhneppt og tvenn einhneppt dökk ullarföt úr c.a. 400g/meter þungu efni.
Milli þung fötÞessi föt henta fyrir flestar árstíðir og þá sérstaklega hér á landi þar sem munur á vetri og sumri er nær enginn af síðustu vikum að dæma. Menn skulu eiga svo sem 5 föt úr venjulegu efni en 5 til úr fínna efni til notkunar í samkvæmum.
Létt fötÍslendingur mun sjaldan þurfa á þessu að halda en við sem stundum frönsku Rivíeruna stíft og sinnum erindum á Spáni þurfum á ljósum og léttum sumarfötum að halda. 5 stykki nægja til að verða sér ekki til skammar.
Að auki skyldi maður vera vel byrgur af buxum og jökkum af sportlegra taginu. Skyrtueign eru engin takmörk sett en 20 ættu að vera nógu margar enda fari 5 til nauðstaddra við vorhreingerningar.
Formlegur klæðnaður er mismikilvægur en hafi maður ekki tvenn smókingföt og ein kjólföt hið minnsta í skápnum (og notkun) má segja sem svo að maður sé lítill þátttakandi í samkvæmislífinu.
Kilgour telur 3 frakka nægja herramanni en það er þó bara til að verjast helstu tegundum þess harðræðis sem veðráttan býður manni upp á, 6 frakka þarf að mínu mati til að verjast ágangi veðurs með fjölbreyttum stíl. Vetrar frakkar úr þykkri ull mega vera 2 eða fleiri, eilítið þynnri vor/haust frakkar eru nauðsynlegir og svo eru regnfrakkar undirstöðuatriði, persónulega mæli ég með Burberry´s.
Við þetta hef ég að bæta að nærbolir frá JBS eru af óviðjafnanlegum gæðum og fást hjá Herrafataverslun Guðsteins á Laugavegi. Góðkunningi minn og fyrrum ritstjóri Wallpaper Hr. Tyler Brulê fullyrðir að sokkar frá Falke séu þeir allra bestu og neyðumst við til að trúa því. Ásættanlegan framleiðanda nærbuxna hef ég þó ekki fundið enn og bið um að fá ábendingar þar að lútandi.