fimmtudagur, júlí 21, 2005

Borgir í Asíu

Ég er með færslu um borgir í Asíu í vinnslu með sjálfum mér. Ætli ég reyni ekki að halda til haga nokkrum gagnlegum hlekkjum til framtíðarnotkunar. Hér eru tvær greinar sem ég held að séu frekar áhugaverðar fyrir marga: Ein á BBC um fátæktarhverfin sem myndast og stækka dag frá degi í stórborgum fátækra landa og svo ein á Worldchanging sem er eins konar samanburður á þróun mála í Indlandi og Kína. Potturinn og pannan í gerð íbúðarhúsnæðis í Kína er William A. McDonough sem verður rýndur þegar þar að kemur.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Tískuryskingar

það er mjög fyndin lítil frétt aftast í Fréttablaðinu frá Iceland fashion week þar sem segir að sést hafi til Kolbrúnar Aðalsteinsdóttur lenda í ryskingum við einhvern starfsmann sýningarinnar. Miðað við það sem maður hefur heyrt af henni kemur þetta ekki beint á óvart og ég held að það sé ekki tilviljun að sagt sé frá þessu atviki í Fréttablaðinu með tilvísun á forsíðu og allt.
Þessi meinta tískuvika er náttúrulega bara einhver steypa sem þessi manneskja hefur sett saman og hefur að því er virðist ekkert að gera með flesta íslenska hönnuði heldur er einhver einka upphafning þessarar Kolbrúnar. Það er kannski dálítið lýsandi fyrir þetta fyrirbæri að það er í fyrsta sinn í ár sem sagt er frá þessu í Mogganum þótt IFW hafi verið í gangi í all nokkur ár. Eitt skiptið minnir mig að hún hafi útilokað alla íslenska fjölmiðla á þeim forstendum að þeir væru bara ekkert nógu flottir fyrir svona fínheit.
IFW er nokkuð gott og hagnýtanlegt dæmi um það hvernig maður á ekki að láta viðburði ganga upp og hvernig hægt er að baka sér ómældar óvinsældir með því að vera steik. Á meðan var t.d. Mosaic Fashions sýningin fyrr í sumar er nokkuð pottþétt dæmi um hvernig svona viðburður getur virkað frábærlega sem gott PR.

Nördahlerun

Bragi benti mér á að ritstjóri Engadget.com er hér á landi og vill fá að hitta tækjaóða Íslendinga. Eftir nokkur tilboð og steiktar umræður í kjölfar beiðninnar varð ofan á að hittast skyldi á Kaffibarnum á fimmtudagskvöldið. Við ætlum að koma okkur fyrir úti í horni snemma kvölds og sjá hvers kyns nördalýður mætir og ef það eru kúl nördar ætlum við að vera með en ef það eru nördalegir nördar ætlum við að vera svölustu nördarnir sjálfir. Nörd?

mánudagur, júlí 18, 2005

Bómull í hausnum

Líðan mín er áþekk því og þegar búið er að fjarlægja heilann og koma fyrir bómull í staðinn. Allt er frekar dempað í skynjuninni á þessum sól- og vindríka mánudagsmorgni. Ég gæti ímyndað mér að þetta séu bara eftirköst eftir kannabismökkinn kringum Snoop Dogg í gærkvöldi. Við Orri og Atli fylgdumst með kappanum og upphitunarböndum í brakandi/ískrandi hljóðgæðum, Kári vinur Atla átti ekki erindi sem erfiði og fékk ekki inngöngu þrátt fyrir að hafa látið af hendi Korg hljómborð.
Það var einkenni á tónleikunum að alltaf heyrðist ekkert í einhverjum míkrófón eða þá að tónjöfnun var út úr kortinu. Mig grunar reyndar að liðsmenn Snoop hafi verið frekir með uppstillingartímann og látið hinum lítið eftir til að pússa sitt hljóð. Sjálfum fannst mér Hjálmar magnaðir og Hæsta hendin átti línu kvöldsins:
Heimurinn minn er svartur og hvítur
ég held með KR
en restin er skítur.

FL group fannst mér eiginlega vaða reyk, hugsanlega sinn eigin. Um frammistöðu Snoop er fátt að segja, hann tók smellina sína af fyrstu plötunni og svo þessa tvo frá s.l. vetri. Svo var hann bara í að segja fólki að gera svona og segja hitt eins og t.d. "við elskum Snoop!" Nuff said.

föstudagur, júlí 15, 2005

Föt

Mín skoðun er sú að öll önnur föt en þau sem eru klæðskerasniðin og saumuð séu í raun óásættanleg málamiðlun. Ég eins og aðrir sætti mig þó við að klæðast fjöldaframleiddum flíkum sem sniðnar eru á vísitölukropp. Þó á ég því láni að fagna að ég er ekki svo ólíkur í vextinum og vísitölukroppurinn sem notaður er við hönnun sniðanna. En með stafrænni tækni er miklu auðveldara nú en áður að búa til "mass-customised" vörur eða fjöldaframleitt handverk. Ég hef dálítið verið að skoða síðuna hans Ravi sem er klæðskeri í Tælandi og getur saumað eftir óskum manns og máli fyrir hlægilegt verð. Svo er hann með fjöldann allan af tilboðum sem gott er að nýta sér t.d. tvenn jakkaföt og 6 skyrtur á hlægilega 890 dollara eða 58 þúsund krónur á gengi dagsins í dag! Og vel að merkja eru allar flíkurnar sniðnar að manns eigin máli og líkamsstöðu en ekki bara út í bláinn.
Til upplýsingar læt ég fylgja með færslu þessari ráðleggingar klæðskeranna Kilgour við Savile Row nr. 8 um ásættanlegan fataskáp herramanna:
Þung föt
Þess konar fatnaður sem hentar ísköldum kaupsýslumönnum og frostdögum í Moskvu og London. Tvenn tvíhneppt og tvenn einhneppt dökk ullarföt úr c.a. 400g/meter þungu efni.
Milli þung föt
Þessi föt henta fyrir flestar árstíðir og þá sérstaklega hér á landi þar sem munur á vetri og sumri er nær enginn af síðustu vikum að dæma. Menn skulu eiga svo sem 5 föt úr venjulegu efni en 5 til úr fínna efni til notkunar í samkvæmum.
Létt föt
Íslendingur mun sjaldan þurfa á þessu að halda en við sem stundum frönsku Rivíeruna stíft og sinnum erindum á Spáni þurfum á ljósum og léttum sumarfötum að halda. 5 stykki nægja til að verða sér ekki til skammar.

Að auki skyldi maður vera vel byrgur af buxum og jökkum af sportlegra taginu. Skyrtueign eru engin takmörk sett en 20 ættu að vera nógu margar enda fari 5 til nauðstaddra við vorhreingerningar.
Formlegur klæðnaður er mismikilvægur en hafi maður ekki tvenn smókingföt og ein kjólföt hið minnsta í skápnum (og notkun) má segja sem svo að maður sé lítill þátttakandi í samkvæmislífinu.
Kilgour telur 3 frakka nægja herramanni en það er þó bara til að verjast helstu tegundum þess harðræðis sem veðráttan býður manni upp á, 6 frakka þarf að mínu mati til að verjast ágangi veðurs með fjölbreyttum stíl. Vetrar frakkar úr þykkri ull mega vera 2 eða fleiri, eilítið þynnri vor/haust frakkar eru nauðsynlegir og svo eru regnfrakkar undirstöðuatriði, persónulega mæli ég með Burberry´s.
Við þetta hef ég að bæta að nærbolir frá JBS eru af óviðjafnanlegum gæðum og fást hjá Herrafataverslun Guðsteins á Laugavegi. Góðkunningi minn og fyrrum ritstjóri Wallpaper Hr. Tyler Brulê fullyrðir að sokkar frá Falke séu þeir allra bestu og neyðumst við til að trúa því. Ásættanlegan framleiðanda nærbuxna hef ég þó ekki fundið enn og bið um að fá ábendingar þar að lútandi.

Nortón á tónleikum

Ég steingleymdi því þegar ég var að henda inn síðustu færslu að bæði Nortón og Ampop eru að spila á Stúdentakjallaranum í kvöld. Og reyndar er Nortón líka í Smekkleysubúðinni kl. 17. Kvöld með Nortón er ógleymanlegt og þú skalt ekki missa af tækifærinu til að upplifa eitthvað ógleymanlegt lesandi góður.

Helgarpakkinn

Ekki ber á öðru en að helgarpakkinn sé á leiðinni og mér sýnist innihaldið vera fremur þungt en óljóst. Ætli undirbúningsfundur fyrir fund Flottræfla sé ekki á dagskrá í kvöld og svo er hið svokallaða "litla ættarmót" við Elliðavatn á morgun. Helst hefði ég nú viljað bruna útúr bænum og upp á eitthvað fjall en ég tel nær engar líkur til þess að það eigi sér stað.
Inga Rún sem er nú formaður skemmtananefndar heimilisins er í fríi fyrir norðan svo ég er hálfpartinn utangátta. Skyldu ekki einhverjir vinir manns vera í stuði til að gera eitthvað skemmtilegt með manni?
Það eru met fáir í vinnunni og stemmningin alveg jafn melló og maður skyldi ætla á tómri borgarskrifstofu. Ég reyni þó að halda dampinum enda ekki langt eftir í vinnu með utanlandsferð og próflestur á næsta leyti.

fimmtudagur, júlí 14, 2005

ÚÚÚje

Loksins eru þessi ský að fara. Ætli það tengist rússneska herskipinu sem spúir svörtu í Reykjavíkurhöfn? Ég ætla a.m.k. í sund í hádeginu og mun njóta þess að baða sólarvana líkamann í guðdómlegri birtu sunnu.
Það kemur nú smá PartyZone fílíngur í mann þegar sólin byrjar að skína, það sem af er sumri er ég búinn að vera meira svona Nick Cave og Radiohead.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Dauði

Kíkið á merkilega framsetningu dauðsfalla hermanna hinna staðföstu þjóða á þessari síðu. En hvernig væri nú ef föllnum írökum væri bætt við líka?

ArtKonseptKonsert

Við Bragi og Júlía röltum okkur upp í Klink og bank í gær að sjá Eika og vini speisa í einhverju frjálslegu hljóðdjass grúvi. Mest voru þetta óhljóð og talað var um að drepa tónlist yfir bjór á eftir. Café Kultur varð fyrir valinu sem bjórbúlla post konsertum sem er yfirleitt mjög góður staður fyrir stóran hóp sem vill röfla saman. Plötusnúðurinn var greinilega að trappa sig niður eftir hálfan mánuð á Ibiza af tónlistinni að dæma. Ekki það að ég fúlsi nokkurn tímann við góðri house tónlist en kannski var þetta full kraftmikið fyrir þriðjudagskvöld.
Inga er að fara norður í Skagafjörð á eftir og verður í viku svo við hittumst í hádeginu og fengum okkur að borða á Deli með risastórum hóp af þýskum konum. Svo fórum við í Yggdrasil og keyptum meira runnate á la Mma Ramotswe, kvenspæjara nr. 1 í Botswana. Svo keyptum við líka snakk fyrir partíið sem ég ætla að halda þegar Inga er farin. Nei djók.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Sólarorka

Skyldi sólarorka geta leyst raforkuframleiðslu með brennslu kolefna af hólmi? Sumir segja að svo geti aldrei orðið því sjálf framleiðsla sólarpanelanna kosti sé svo orkufrek. Hefur einhver kynnt sér hvernig þessu er háttað? Fyrst það þarf svona mikla orku í framleiðsluna ættum við Íslendingar ekki að framleiða svona sólarorkugjafa í stað áls? Í Kaliforníu er vonandi að opnast stór markaður með átaki Schwarzeneggers í uppsetningu svona tækja og svo er Þýskaland gríðarstór markaður líka.
Lýsi eftir viðskiptafélögum til að setja upp og fjármagna sólarpanela verksmiðju á Íslandi.

Skortur á umhverfi

Tæknihungrið sækir á mig þessa dagana og ég er í stöðugri leit að einhverju sniðugu til að lífga upp daginn sem líður og verður eldri hverri mínútunni. Í þessum tæknileiðöngrum mínum hef ég rekist á alls kyns hugmyndir sem einhverjir snjallir kanar virðast geta fengið einhverja til að borga fyrir. Svona hugmyndir dúkka svo sumar upp hér á landi sem auglýsingatrikk einhvers símafyrirtækisins. Eitt svona fyrirbæri voru s.k. flash mobs sem aldrei hlutu umræðu né athygli hér á landi (og því hafa engar tillögur að islensku nafni komið fram). Nema hvað að fólk í auglýsingabransanum virðist alltaf hirða upp svona sniðugheit og í auglýsingu Símans GSM var einmitt sýndur flash mob sem stóð kringum klukkuna á Lækjartorgi og lét sig falla á slaginu 12. Svona uppákomur voru víst dálítið algengar í London þegar þetta var í tísku en ég held að 70 mínútna Strákarnir hafi samt sýnt það best hvernig svona heppnast hér á landi, þeir mæta einir en aðrir hefðu í besta falli gaman af að horfa á úr fjarlægð sérstaklega ef löggan skyldi koma og hirða þá.
Ég rakst á eitt fyrirbæri sem heitir meetro og verður örugglega hittari eftir því sem það fær tíma til að þróast. Þetta virðist vera kerfi sem leyfir borgarumhverfinu að eiga í samskiptum við tölvukerfi. Svona MSN messenger (og fleiri slíkir) sem sýnir þér hverjir eru í næsta nágrenni við þig og á sama neti þótt það séu ekki endilega vinir. Gallinn við svona kerfi í Reykjavík er að maður þekkir hvort sem er alltaf flesta í kringum sig og hina vill maður ekkert kynnast frekar....

mánudagur, júlí 11, 2005

Komin í hús

Myndavélin fannst í Elko í Smáranum, þetta er sko urban jungle þarna úti. Ég er feginn að ég fer ekkert mikið oftar í þetta hverfi því það dregur alveg úr mér allan mátt. Með viljaleysið sett í mig af auglýsingahermönnun Smárakringlunnar féll ég fyrir Burger King og slafraði í mig Whopper eins og ekkert væri. Minn fyrsti Rey de la Hamburguesa hér á landi, ég fékk mér nú oft BK borgara í Svíþjóð því þar eru þeir við allar helstu lestarstöðvar og ekki slæmt að taka einn á tíkall til að seðja sárasta hungrið áður en maður fer í lestina.

Myndavélavekk

Mig er búið að vanta myndavél æði lengi og hef aldrei átt stafræna vél en það átti að breytast í gær. Ég gerði fljóta könnun hjá snillingunum á dpreview.com sem beindu mér fljótt á rétta slóð. Ég greip Ingu með mér og við fórum í Elko þar sem ég fór að renna gegnum úrvalið. Ein Panasonic vél vakti athygli mína vegna stórs skjás en svo áttaði ég mig á því að það vantaði s.k. viewfinder og að skjárinn var ekkert svo góður þótt hann væri stór. Eftir að hafa rökrætt þetta, komist að niðurstöðu um að taka Canon vél og fundið til aukahluti stóð ég við afgreiðsluborðið með kortið í höndunum. Vélin var upseld. Gaaaa #&%! Hún er samt til í Kópavoginum og ég ætla að fara í hádeginu að kaupa hana.
Maður verður að geta tekið myndir þegar maður er að fara að skoða jafn myndrænt land og Frakkland. Nú eru innan við tvær vikur í brottför til Bourgogne eða Búrgundar. Myndir og upplýsingar um dvalarstað fjölskyldunnar eru hér ef einhver hefur áhuga.

föstudagur, júlí 08, 2005

Kominn á ról á ný

Það mun gleðja litlu hjörtu lesenda minna að ég hef ákveðið að snúa mér á ný að skriftum á bloggtetur þetta. Hugmyndin um að byrja aftur hefur komið til mín nokkrum sinnum s.l. vikur og ég get bara ekki látið það vera. Sem fyrr verða hérna skarpar ádeilur á málefni líðandi stundar, frétta og skemmtiefni sem er á fárra færi að nenna að setja sig inn í og svo einn og einn persónulegur biti.
Umhverfistækni og skipulagsmál verða fyrirferðamikil sem endranær ásamt smá pólitík. Svo mun ég reyna að koma vínum betur fyrir á síðum þessum.
Við Inga munum halda til Frakklands í lok mánaðarins þar sem við munum vera í sumarhúsi með fjölda manns, þ.á.m. fjölskyldunni minni. Þetta verða gósentímar og ég ætla mér að heimsækja eina eða tvær (eða 10) vínekrur í Coté d´Or og Beaune. Dijon og Chablis eru nú staðir sem vert væri að heimsækja líka. Ef einhver þekkir til í Búrgundarhéraði þá má sá hinn sami láta mig vita af því sem þar er ómissandi.
Hamingjuóskir til Einars bróður míns sem útskrifast í dag frá Handelshögskolan í Stokkhólmi. Hann er nú orðinn MBA og verðandi milljónamæringur.