sunnudagur, ágúst 21, 2005

Eftir menningardaginn

Það er greinilegt að Menningarnótt er í raun engin Menningarnótt heldur Menningardagur, amk talar löggan um þetta þannig og að svo fylgi óMenningarnóttin á eftir Menningardeginum. En þetta var nú bara ágætis skemmtun í heildina litið. Að fá að sjá Frímúrarahúsið fannst mér eiginlega best, alveg sérstaklega skemmtilegt. Mjög ríkmannlega búið verð ég að segja og greinilegt að menn hafa safnað miklum fjárhæðum í langan tíma til að koma þessu upp. Nú er bara að brýna FRF meðlimi til að gera álíka umbúnað um starfsemi sína....
Ætli göngutúr sé ekki það sem ég þarf núna, kíkjum á það.

föstudagur, ágúst 19, 2005

Það var eitthvað með fötin

Ég var á mínu venjubundna rölti á leið heim úr vinnu í gær en þá þykir mér svo ágætt að ganga í hægðum mínum um miðbæinn. Ég fór að veita því athygli hversu mikið fatasmekkur landans hafði batnað, skyndilega var annar hver karl orðinn frekar snyrtilegur til fara og sumir höfðu greinilega haft nokkuð fyrir að eignast fín jakkaföt. Bindishnútarnir voru vel hnýttir og skórnir burstaðir. Það var svo ekki fyrr en ég varð þess áskynja að þetta væri frekar strolla en dreifður mannfjöldi, strolla sem náði frá Melunum að það rifjaðist upp fyrir mér frétt sem ég hafði lesið. Lögfræðingarnir koma var fyrirsögnin enda norrænt lögfræðingaþing í bænum.

Merkilegur þáttur í gærkvöldi, ?Holdið er veikt? sem staðfesti það sem allt venjulegt fólk vissi, að Kaþólskur siður er bara pervertismi í dulbúningi guðsástar. Skírlífið og píslin hefur aldrei snúist um nálægð við guð heldur eingöngu það að byggja upp spennu og fá losun á réttu augnabliki, þ.e. með Hann fyrir ásjónu sér en ekki ástvin sinn.

Hefur ekki einhver áhuga á að fá betra Ríki í miðbæinn? Sendið póst.

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Prófbúinn vínáhugi

Ég er núna prófbúinn maður, gekk að ég held frekar vel á prófinu þótt ég hafi bara getað klárað 5 af 6 dæmum. Ekki það að ég hafi reyndar búist við því að geta klárað prófið. Gærdagurinn fór svo bara í að njóta þess að vera í bænum án þess að þurfa að gera neitt sérstakt. Orri var boðinn og búinn að hjálpa mér með þetta og við dóluðum okkur við át og kaffidrykkju fram eftir degi. Svo fórum við út um kvöldið og ég má til með að deila með ykkur skemmtilegum myndum úr partíi sem við lentum í en þær má skoða hérna.

Annars er það nú helst á döfinni að Orri var æstur yfir grein Steingríms Sigurgeirssonar í Tímariti Morgunblaðsins nú síðast sem var svo fylgt eftir með viðtali við víninnflytjendur á mánudaginn. Þessar greinar fjalla sem sagt í stórum dráttum um það að framboð á víntegundum hefur skroppið rækilega saman og krafan um framlegð er mikilvægari en framboð sem er alveg fáránlegt í ríkiseinokunarfyrirtæki. Ég er svo búinn að vera á leiðinni að setja fram einhverjar kröfur, studdar undirskriftalista um betri vínbúð í miðbænum. Ætli nú sé ekki lag að sameina þessar pælingar og fara í kröfugerðir. Allir áhugasamir vínneytendur eru hvattir til að senda mér póst hafi þeir áhuga á að hjálpa til við að gera eitthvað í málinu. Greinar um málið er að vænta á blogginu innan skamms.

föstudagur, ágúst 12, 2005

Vælukapítal

Nú er ég ekki maður sem setur sig upp á móti því þegar ríkið vill hjálpa til í samfélaginu þar sem þess er þörf. En mér finnst þessi hvatning FÍB til stjórnvalda um að lækka bensínskatt algert vælukjóa vein. Það er ekki eins og að hækkandi bensínverð hafi haft þau áhrif að rekstrarkostnaður vegakerfisins hafi minnkað. Hvernig geta menn ætlast til þess að ríkið komi að bjarga málum þegar þeir hafa ekkert lagt til lausnarinnar sjálfir?
Það er í raun og veru ekki einingarverð bensíns eða dísel olíu sem er vandamálið heldur er það heildarkostnaður bílreksturs sem er þungur baggi á fólki. Ef bensínverðið væri aðalvandamálið þá væri fólk kannski farið að hugsa út í stærð og hagkvæmni bílvélanna sem það kaupir. En svo er ekki og fólk heldur áfram að kaupa dýra bíla í von um að skattar á bensín verði lækkaðir. FÍB er sem sagt að biðja ríkið um að niðurgreiða dýran smekk landsmanna fyrir stórum jeppum.

fimmtudagur, ágúst 11, 2005

Seinni hálfleikur - blús

Þá er próflestur hafinn. Í annað skiptið reyni ég við sumarpróf, hið fyrra gekk ómögulega en vonir standa til að mér muni ganga glimrandi vel í prófinu núna. Andlegur stuðningur þeginn, ég held til á 4. hæð Hlöðunnar á daginn. Bjartur flötur er að það eru engir sólskinsfylltir dagar á Austurvelli sem lokka mann út.
Til að bæta gráu ofan á svart er Inga mín í útlöndum, henni var boðið á Öya festival í Osló. Ég hlakka til að lesa það sem hún kemur með úr ferðinni því mér sýnist dagskráin frekar áhugaverð, sem og hátíðin öll. Það munar miklu um stemmninguna í stofunni heima þegar fækkar um helming.

Ofsalega þykir mér það ódýrt hvernig Sjallarnir eru að reyna að beita leiðakerfi Strætó fyrir sig í áróðursherferð sinni þessa dagana. Þetta er greinilega dagskipanin að reyna að ganga frá R listanum meðan hann er varnarlaus og ég lái þeim það svo sem ekki en þetta er alveg sérstaklega ósannfærandi af tveim ástæðum.
1) 5 af 7 stjórnarmönnum í Strætó bs eru Sjálfstæðismenn. Það má ekkert gleyma því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga öll sinn hlut í félaginu og hvert og eitt hefur fulltrúa í stjórn. Ætti ekki frekar að ráðast á meirihlutann í stjórn Strætó ef þessu fylgir alvara?
2) Næstum allir Sjálfstæðismenn sem ég hef talað við segja umbúðalaust að leggja eigi almenningssamgöngur niður. En svo koma þeir fram sem einhverjir miklir verndarar Strætó á síðum blaðanna... afskaplega trúverðug framkoma eða þannig. En það er ekkert nýtt fyrir Sjálfstæðismenn að segja eitt opinberlega en svo eitthvað allt annað í einkasamtölum. Á þessu er þó undantekning sem eru pirruðu kapítalistarnir á Andríki/Vefþjóðviljanum sem einhverjir eru sjálfstæðismenn.

Svo þykir mér full geist farið í fullyrðingar um að kerfið hafi versnað og að það sé eitthvað sérstaklega verra fyrir gamalmenni í dag en það var. Viðmiðunarmörk um fjarlægðir milli stoppistöðvar voru stækkuð en það á algerlega eftir að sýna fram á að heildargöngufjarlægð farþega hafi aukist. Ég segi það alla veganna að kerfið hefur síst versnað í mínu hverfi þótt það hafi breyst, en sumir eiga alltaf erfitt með að sætta sig við breytingar, sérstaklega íhaldsfólk.

laugardagur, ágúst 06, 2005

Eyðsla bílvéla

þeir sem vilja verja einkabílismann sama hvað með ráðum og dáðum benda oft réttilega á að með betri tækni batni nýtni bílvéla. Og þetta hafa verið nokkuð sterk rök fyrir því að breyta engu í því hvernig við högum akstri okkar heldur halda áfram á sömu braut og láta tækniframfarirnar minnka bensíneyðsluna til jafns við aukinn akstur. En nú hefur umhverfisverndarstofnun Bandaríkjanna sýnt fram á það sem umhverfis umhugað fólk hefur alltaf vitað, að þetta er ekki raunin. Raunin er sú að bílar hafa sífellt þyngst og því hefur bensínsparnaður tækninnar bara farið í að draga áfram hinn aukna þunga. Ef hins vegar eyðsla á bílþyngd er skoðuð má sjá bætta nýtingu orkunnar. Mest varð aukningin á ?mílum á gallon? á áttunda áratugnum eftir bensínkreppuna en þróunin hin síðustu ár hefur verið mun hógværari. Skoðið grein um málið á Green car congress, veitið sérstaklega athygli skýrum og einföldum gröfum sem fylgja greininni.

Kominn heim

Loksins er maður kominn heim, kom reyndar heim á miðvikudaginn en við Inga brunuðum í bústað til Ívars Páls á fimmtudaginn og komum aftur í gær. Ekki mikill tími gefist við bloggið eftir heimkomuna sem sagt.
Fyrst ber kannski að geta þess að ég er núna trúlofaður maður, Inga tók bónorði mínu sem ég bar upp á afmælinu hennar úti í Bourgogne. Það skyldi þó aldrei fara svo að maður gengi ekki út. Nákvæm dagsetning brúðkaups hefur ekki verið ákveðin en það má búast við fréttum af því fljótlega.
Öll ferðin var með þeim skemmtilegustu sem ég hef farið. Dvölin í húsinu var æðisleg og við átum yfir okkur af dásamlegum frönskum mat sem matráðskonan hafði til. Ostarnir flæddu yfir bakkana og nóg var til af víni í þessu hjarta vínframleiðslunnar í Frakklandi. Svo var það París sem tók við eftir sveitadvölina. Maður lifandi, París er borg borganna. Þar gæti ég sko hugsað mér að dvelja, maturinn að sjálfsögðu eitthvað sem heillar mikið en svo er þetta sérlega dýrmæt upplifun á vel heppnuðu skipulagi, mónúmentalísku skipulagi sem reyndar hefur ekki átt upp á pallborðið hið síðasta.
Sú hugsun sem leitaði hvað sterkast á mig við komuna til Parísar var hversu ofboðslega rík þessi borg er og hversu ofboðslega rík hún hefur verið lengi. Sama hversu ríkt fólk er á Íslandi í dag og hversu mikill methagnaður fjárfestingarfyrirtækjanna er að þá getur það aldrei jafnast á við það þéttriðna net ríkidæmis sem er bersýnilegt í París. Breiðstrætin með gullhúðuð þök halla til sitt hvorrar handar, minnismerki sigra og auðs í beinum línum og raðað symmetrískt í borgarlandslagið eru merki mikilmennsku og ríkidæmis sem er vandfundið nokkurs staðar. En það eru líka merki um kúgun og ofbeldi yfirstéttarinnar sem hélt pöpulnum utan við glæsileikann og gerði breiðstrætin svona breið til að koma herdeildum sínum fljótar að berja niður byltingaróróann í úthverfunum.
Við Orri Huginn (sem nb fékk glymrandi dóma í Lesbókinni fyrir sinn þátt í Kabarett) ræddum þessi samskipti ríkra og fátækra í gærkvöldi. Við sáum fyrir okkur að enn væru reistir múrar um ríkidæmi forréttindastéttanna en að múrarnir væru komnir mun fjær, út fyrir landamæri ríkja og að þeir væru gjarnan ósýnilegir og óáþreifanlegir í stað grjótveggjanna áður. Það er vandlifað.