Þá er próflestur hafinn. Í annað skiptið reyni ég við sumarpróf, hið fyrra gekk ómögulega en vonir standa til að mér muni ganga glimrandi vel í prófinu núna. Andlegur stuðningur þeginn, ég held til á 4. hæð Hlöðunnar á daginn. Bjartur flötur er að það eru engir sólskinsfylltir dagar á Austurvelli sem lokka mann út.
Til að bæta gráu ofan á svart er Inga mín í útlöndum, henni var boðið á Öya festival í Osló. Ég hlakka til að lesa það sem hún kemur með úr ferðinni því mér sýnist dagskráin frekar áhugaverð, sem og hátíðin öll. Það munar miklu um stemmninguna í stofunni heima þegar fækkar um helming.
Ofsalega þykir mér það ódýrt hvernig Sjallarnir eru að reyna að beita leiðakerfi Strætó fyrir sig í áróðursherferð sinni þessa dagana. Þetta er greinilega dagskipanin að reyna að ganga frá R listanum meðan hann er varnarlaus og ég lái þeim það svo sem ekki en þetta er alveg sérstaklega ósannfærandi af tveim ástæðum.
1) 5 af 7 stjórnarmönnum í Strætó bs eru Sjálfstæðismenn. Það má ekkert gleyma því að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eiga öll sinn hlut í félaginu og hvert og eitt hefur fulltrúa í stjórn. Ætti ekki frekar að ráðast á meirihlutann í stjórn Strætó ef þessu fylgir alvara?
2) Næstum allir Sjálfstæðismenn sem ég hef talað við segja umbúðalaust að leggja eigi almenningssamgöngur niður. En svo koma þeir fram sem einhverjir miklir verndarar Strætó á síðum blaðanna... afskaplega trúverðug framkoma eða þannig. En það er ekkert nýtt fyrir Sjálfstæðismenn að segja eitt opinberlega en svo eitthvað allt annað í einkasamtölum. Á þessu er þó undantekning sem eru pirruðu kapítalistarnir á Andríki/Vefþjóðviljanum sem einhverjir eru sjálfstæðismenn.
Svo þykir mér full geist farið í fullyrðingar um að kerfið hafi versnað og að það sé eitthvað sérstaklega verra fyrir gamalmenni í dag en það var. Viðmiðunarmörk um fjarlægðir milli stoppistöðvar voru stækkuð en það á algerlega eftir að sýna fram á að heildargöngufjarlægð farþega hafi aukist. Ég segi það alla veganna að kerfið hefur síst versnað í mínu hverfi þótt það hafi breyst, en sumir eiga alltaf erfitt með að sætta sig við breytingar, sérstaklega íhaldsfólk.