laugardagur, ágúst 06, 2005

Kominn heim

Loksins er maður kominn heim, kom reyndar heim á miðvikudaginn en við Inga brunuðum í bústað til Ívars Páls á fimmtudaginn og komum aftur í gær. Ekki mikill tími gefist við bloggið eftir heimkomuna sem sagt.
Fyrst ber kannski að geta þess að ég er núna trúlofaður maður, Inga tók bónorði mínu sem ég bar upp á afmælinu hennar úti í Bourgogne. Það skyldi þó aldrei fara svo að maður gengi ekki út. Nákvæm dagsetning brúðkaups hefur ekki verið ákveðin en það má búast við fréttum af því fljótlega.
Öll ferðin var með þeim skemmtilegustu sem ég hef farið. Dvölin í húsinu var æðisleg og við átum yfir okkur af dásamlegum frönskum mat sem matráðskonan hafði til. Ostarnir flæddu yfir bakkana og nóg var til af víni í þessu hjarta vínframleiðslunnar í Frakklandi. Svo var það París sem tók við eftir sveitadvölina. Maður lifandi, París er borg borganna. Þar gæti ég sko hugsað mér að dvelja, maturinn að sjálfsögðu eitthvað sem heillar mikið en svo er þetta sérlega dýrmæt upplifun á vel heppnuðu skipulagi, mónúmentalísku skipulagi sem reyndar hefur ekki átt upp á pallborðið hið síðasta.
Sú hugsun sem leitaði hvað sterkast á mig við komuna til Parísar var hversu ofboðslega rík þessi borg er og hversu ofboðslega rík hún hefur verið lengi. Sama hversu ríkt fólk er á Íslandi í dag og hversu mikill methagnaður fjárfestingarfyrirtækjanna er að þá getur það aldrei jafnast á við það þéttriðna net ríkidæmis sem er bersýnilegt í París. Breiðstrætin með gullhúðuð þök halla til sitt hvorrar handar, minnismerki sigra og auðs í beinum línum og raðað symmetrískt í borgarlandslagið eru merki mikilmennsku og ríkidæmis sem er vandfundið nokkurs staðar. En það eru líka merki um kúgun og ofbeldi yfirstéttarinnar sem hélt pöpulnum utan við glæsileikann og gerði breiðstrætin svona breið til að koma herdeildum sínum fljótar að berja niður byltingaróróann í úthverfunum.
Við Orri Huginn (sem nb fékk glymrandi dóma í Lesbókinni fyrir sinn þátt í Kabarett) ræddum þessi samskipti ríkra og fátækra í gærkvöldi. Við sáum fyrir okkur að enn væru reistir múrar um ríkidæmi forréttindastéttanna en að múrarnir væru komnir mun fjær, út fyrir landamæri ríkja og að þeir væru gjarnan ósýnilegir og óáþreifanlegir í stað grjótveggjanna áður. Það er vandlifað.

3 Comments:

Blogger Arna said...

Elsku Sverrir, innilega til hamingju með að vera búinn að festa þér konu! Við viljum svo sannarlega fá nánari fréttir af þessu fyrr en síðar, svona verandi í útlöndum og allt það. Knúsaðu unnustuna frá okkur! Ást og friður, Arna

2:15 e.h.  
Blogger EGG said...

Sæll snúllurinn minn.
Til hamingju með trúlofunina. Þetta er spennandi. Þú lætur okkur vita um leið og praktíska hliðin skýrist. Bið kærlega að heilsa Ingu.
Þinn bróðir, EGG

11:29 f.h.  
Blogger Sverrir Bollason said...

Takk útlendingarnir mínir.

4:49 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home