fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Prófbúinn vínáhugi

Ég er núna prófbúinn maður, gekk að ég held frekar vel á prófinu þótt ég hafi bara getað klárað 5 af 6 dæmum. Ekki það að ég hafi reyndar búist við því að geta klárað prófið. Gærdagurinn fór svo bara í að njóta þess að vera í bænum án þess að þurfa að gera neitt sérstakt. Orri var boðinn og búinn að hjálpa mér með þetta og við dóluðum okkur við át og kaffidrykkju fram eftir degi. Svo fórum við út um kvöldið og ég má til með að deila með ykkur skemmtilegum myndum úr partíi sem við lentum í en þær má skoða hérna.

Annars er það nú helst á döfinni að Orri var æstur yfir grein Steingríms Sigurgeirssonar í Tímariti Morgunblaðsins nú síðast sem var svo fylgt eftir með viðtali við víninnflytjendur á mánudaginn. Þessar greinar fjalla sem sagt í stórum dráttum um það að framboð á víntegundum hefur skroppið rækilega saman og krafan um framlegð er mikilvægari en framboð sem er alveg fáránlegt í ríkiseinokunarfyrirtæki. Ég er svo búinn að vera á leiðinni að setja fram einhverjar kröfur, studdar undirskriftalista um betri vínbúð í miðbænum. Ætli nú sé ekki lag að sameina þessar pælingar og fara í kröfugerðir. Allir áhugasamir vínneytendur eru hvattir til að senda mér póst hafi þeir áhuga á að hjálpa til við að gera eitthvað í málinu. Greinar um málið er að vænta á blogginu innan skamms.

1 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hæ Sverrir. Ég hef ekki kíkt á bloggið þitt lengi en eftir að hafa kíkt núna þá verða reglulegar heimsóknir hér eftir. Ég hreinlega sprakk úr hlátri yfir þessum húmor þínum, þeas myndirnar úr partýinu sem þú "fórst í" hehheehe ! Ansi hreint myndarlegar konur þar á ferð :)

8:51 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home