miðvikudagur, október 12, 2005

Lestur

Allt í einu fór ég að spá hvort nokkur kíki á þetta lengur því ég er alltaf að hætta og byrja aftur. RSS sjúklingarnir munu nú sjá þetta sama hvað en þeir eru nú ekki svo margir. Kannski ég ætti að fara að skrifa í svona dagbókarstíl með tímasetningum og örstuttri lýsingu. Þá ætti færsla dagsins að líta svona út:
Vaknaði við klukkuna kl. 7.30 en nennti ekki framúr svo útvarpið malaði óáreitt til 8.15 þegar ég fór framúr og rauk í tíma hjá Trausta Valssyni.
Gerði grein fyrir verkefni mínu í Mati á umhverfisáhrifum og hlaut lof fyrir ítarlegan texta og góða ensku.

þriðjudagur, október 11, 2005

Kominn á lappir

Sverrir er kominn á lappir. Ég varð eiginlega skítstressaður af því að mæta aftur í skólann eftir viku í rúminu og án þess að hafa gert handtak. Nú vinn ég yfirvinnu við að reyna að koma málum í rétt horf. Meðal þess sem þarf að gera er að klára að skrifa kafla um hafnarstæði víða um landið og umhverfisáhrif þess að setja þar upp olíuflutninga eða vörumiðlunarhöfn. Svo sýndum við Biggi hraðsoðna hugmynd um umferðarskipulag í Vatnsmýrinni. Ætlunin er að taka þéttan vinnufund fyrir helgi og koma fleiri málum á hreint í þessu skipulagsverkefni okkar.
Heyrði í fréttum af skoðanakönnun samgönguráðuneytis þar sem kannað var hvort fólk hefði áhuga á að flytja innanlandsflug til Keflavíkur. Kemur ekki í ljós að landsbyggðin var á móti en Reykvíkingum virtist mörgum vera sama eða fylgjandi flutningnum. Áróður embættismanna landsbyggðarinnar hefur þó haft sín áhrif og vakið samúð borgarbúa sem eru með samviskubit yfir að hafa flutt á mölina. Áhugaverðast var samt að jaðarbyggðir Reykjavíkur, Árborg og Borgarnes o.þ.h. voru frekar fylgjandi flutningi flugsins til Keflavíkur.
Spurning hvort maður eyði laugardeginum á ráðstefnu um skipulag Vatnsmýrar?

föstudagur, október 07, 2005

Veikindaplogg

Nú hef ég legið í á sjötta dag í veikindum og er farið að leiðast svo að ég held bloggfærsla gæti jafnvel drepið niður leiðindin. Kannski munu þá einhverjir með RSS yfirlit yfir bloggið mitt hafa samband og vekja veikann andann minn.
Í veikindum síðustu daga hef ég eignast nýjan vin, sjónvarpið. Ég er alveg flæktur í mikið sjónvarpsnet núna, sérstaklega var gaman þessa tvo daga sem það var opið fyrir stöð 2. þeir á 365 gleymdu nefnilega að kveikja á ruglaranum sínum eftir rafmagnsleysið hér um daginn (ég er hættur að gera dagamun, afsakið). Ég sakna þess mjög að geta ekki horft á rugludallana í Simpsons fjölskyldunni. Kannski verð ég bara að leita á netið eftir efni?
Fékk einhver annar en ég rosalegan bjánahroll við að lesa um það hvernig Kiri Te Kenawa þurfti að biðja fólk um að slökkva á símanum sínum í tvígang? Ég meina hvers konar hálfviti eyðileggur vísvitandi fyrir sjálfum sér 10.000 króna miða með því að vera í sífelldu spennukasti, bíðandi eftir því að Nokia konsertinn hefjist í brjóstvasanum? Nei svona fólk á heima á Litla Hrauni enda búið að valda tugþúsunda króna skaða, spurning hvenær fyrsta skaðabótamálið vegna símhringingar verður höfðað og hvort hægt sé að fá eitthvað út úr því?