Nú hef ég legið í á sjötta dag í veikindum og er farið að leiðast svo að ég held bloggfærsla gæti jafnvel drepið niður leiðindin. Kannski munu þá einhverjir með RSS yfirlit yfir bloggið mitt hafa samband og vekja veikann andann minn.
Í veikindum síðustu daga hef ég eignast nýjan vin, sjónvarpið. Ég er alveg flæktur í mikið sjónvarpsnet núna, sérstaklega var gaman þessa tvo daga sem það var opið fyrir stöð 2. þeir á 365 gleymdu nefnilega að kveikja á ruglaranum sínum eftir rafmagnsleysið hér um daginn (ég er hættur að gera dagamun, afsakið). Ég sakna þess mjög að geta ekki horft á rugludallana í Simpsons fjölskyldunni. Kannski verð ég bara að leita á netið eftir efni?
Fékk einhver annar en ég rosalegan bjánahroll við að lesa um það hvernig Kiri Te Kenawa þurfti að biðja fólk um að slökkva á símanum sínum í tvígang? Ég meina hvers konar hálfviti eyðileggur vísvitandi fyrir sjálfum sér 10.000 króna miða með því að vera í sífelldu spennukasti, bíðandi eftir því að Nokia konsertinn hefjist í brjóstvasanum? Nei svona fólk á heima á Litla Hrauni enda búið að valda tugþúsunda króna skaða, spurning hvenær fyrsta skaðabótamálið vegna símhringingar verður höfðað og hvort hægt sé að fá eitthvað út úr því?