þriðjudagur, október 11, 2005

Kominn á lappir

Sverrir er kominn á lappir. Ég varð eiginlega skítstressaður af því að mæta aftur í skólann eftir viku í rúminu og án þess að hafa gert handtak. Nú vinn ég yfirvinnu við að reyna að koma málum í rétt horf. Meðal þess sem þarf að gera er að klára að skrifa kafla um hafnarstæði víða um landið og umhverfisáhrif þess að setja þar upp olíuflutninga eða vörumiðlunarhöfn. Svo sýndum við Biggi hraðsoðna hugmynd um umferðarskipulag í Vatnsmýrinni. Ætlunin er að taka þéttan vinnufund fyrir helgi og koma fleiri málum á hreint í þessu skipulagsverkefni okkar.
Heyrði í fréttum af skoðanakönnun samgönguráðuneytis þar sem kannað var hvort fólk hefði áhuga á að flytja innanlandsflug til Keflavíkur. Kemur ekki í ljós að landsbyggðin var á móti en Reykvíkingum virtist mörgum vera sama eða fylgjandi flutningnum. Áróður embættismanna landsbyggðarinnar hefur þó haft sín áhrif og vakið samúð borgarbúa sem eru með samviskubit yfir að hafa flutt á mölina. Áhugaverðast var samt að jaðarbyggðir Reykjavíkur, Árborg og Borgarnes o.þ.h. voru frekar fylgjandi flutningi flugsins til Keflavíkur.
Spurning hvort maður eyði laugardeginum á ráðstefnu um skipulag Vatnsmýrar?

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home