miðvikudagur, janúar 31, 2007

Græni maðurinn orðinn grár

Ég held að Ómar Ragnarsson sé eitthvað aðeins að misskilja. Á sama tíma og hann þykist vera að bjarga landinu með ankannalegum æsingi og furðuverkum þá mælist hann til þess að bílaumferð í Reykjavík sé aukin! Hann vill endurvekja rúntinn og þá þarf að vera hægt að keyra Austurstræti til beggja átta... Maðurinn er búinn að tapa því.
Sjálfur hef ég reyndar haldið því fram að Bankastræti eigi að loka fyrir umferð og raunar Laugaveginum öllum upp að Frakkastíg að minnsta kosti. Hver þarf í alvörunni að keyra þarna? Flestir sem eiga erindi í verslanirnar hafa hvort eð er komið úr nærliggjandi hverfum eða lagt á bílastæðum í nágrenninu. Hreint tölulega séð getur ekki munað um ca. 30 bílastæði og nokkra bíla á klukkustund sem flestir eru hvort eð er að rúnta.
Þessi tvískinnungsháttur Ómars bendir samt á þann vanda sem umhverfismál eiga við að glíma hér á landi, umræðan um þau er ekki á eðlilegum nótum. Við gleymum í þessu eins og svo mörgu öðru að átta okkur á því hvað það er sem við viljum fá út úr umhverfisvernd því að það er ekki bara óljós greiðastarfsemi heldur alvarleg kaup kaups. Við erum bæði of lítið og of mikið sjálfmiðuð í þessu sambandi. Umhverfisverndarsamtök víða um heim hafa t.d. yfir ánægju með "sjálfbær álver" af því tagi sem við byggjum hér og áhrifum þeirra á loftslagið. En íslensk samtök hafa skiljanlega áhyggjur af íslenskri náttúru en minnast ekki orði á ábyrgð okkar gagnvart umheiminum. Við hreykjum okkur af því að framleiða allt rafmagn með hreinni orku og megnið af upphitun húsanna okkar. En á sama tíma notum við óhemju orku í flutninga, innflutt orka (þ.e. olía) er 30% af notaðri orku á Íslandi. Er það ekki frekar dapurlegur árangur miðað við að orkan gýs bara upp úr jörðinni hér?
Átti annars góðan afmælisdag, sushi og kampavín yfir leiknum, svo hélt Árni Matt upp á afmælið okkar með mögnuðum tónleikum á Nasa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home