fimmtudagur, febrúar 15, 2007

Umhverfismálin á toppinn

Ég get svarið það, umhverfismál virðast vera orðin alvörumál. Það líður varla sá dagur að ekki sé fjallað um umhverfismál af einhverju tagi og þá af alvöru án yfirlætis.
Athyglisverð er umræðan um svifrykið sem nú fer mikinn. Morgunblaðið hefur með réttu ákveðið að leggja töluverða áherslu á mengun í kringum opinberar stofnanir og kom í gær með frétt á forsíðu um mann sem benti umhverfisyfirvöldum á vandann fyrir mörgum árum síðan. Þetta á svo að nota til að finna höggstað á umhverfisstefnu R listans. En sú taktík gerir ráð fyrir því að svifryksmengun sé á einhvern hátt staðbundin og þó óháð skipulagi umferðarkerfisins. En hvernig er það? Munu mislægu gatnamótin við Kringlumýrarbraut - Miklubraut minnka svifryksmengun í borginni? Bara svo eitt dæmi sé nefnt. Eða mun aukin áhersla á réttindi einkabílista og veigrun við að taka gjald af nagladekkjum hafa góð áhrif á svifryksmengun? Er lakari strætisvagnaþjónusta á stofnleiðum vísir að minni svifryksmengun? Svarið er nei og Sjálfstæðismeirihlutinn í borginni ber ábyrgð á þessum þáttum.
Nagladekkin eru klárlega mikill sökudólgur í þessu máli og það er hreinasti barnaskapur að ímynda sér að auglýsingaskilti sem hvetja til minni notkunar hafi einhver áhrif. Vandamál hinna svokölluðu hægri manna í Sjálfstæðisflokknum er að þeir hafa enga trú á markaðnum sem tæki til breytinga. Staðreyndin er sú að fólk velur sér ekki einkabíla með nagladekkjum af löngun eða vegna meðvitaðrar ákvörðunar. Það er einfaldlega hagkvæmasti kosturinn í borg sem dekrar svona við einkabílinn. Með sama hætti eru Kaupmannahafnarbúar ekki bara rosalega hrifnir af reiðhjólum og lestum og velja þess vegna að nota þá ferðamáta. Það er bara svo ömurlegt að aka í borginni og engin bílastæði að fá (1 stæði á hverjar 5 íbúðir samanborið við 1,5 stæði á íbúð hér). Þar eru hinir kostirnir hagkvæmari í samkeppni.
Annað mál er svo grein Péturs Blöndal um umhverfismál Íslendinga í alheimssamhengi. Innihald greinarinnar er gott en eins og svo margir af hans kynslóð á hann erfitt með að koma kjarna málsins til skila og kann ekki að nota réttan orðaforða til að lýsa hugtökum. Ég eins og aðrir alheimssinnaðir umhverfisverndarsinnar hef löngum skilið þann ábata sem álframleiðsla hér á landi skilar í útblásturssparnaði. Og það er rétt sem Pétur segir að ál verður framleitt hvort sem við byggjum álver eða ekki og því getum við lagt eitthvað af mörkum til heimsbyggðarinnar með því að framleiða það undir ströngum skilyrðum hér með vistvænni orku. En það er samgönguþátturinn sem ég efast um í grein Péturs. Nú eru 3/4 hlutar orku á Íslandi innlend framleiðsla og restin innflutt olía. Sem er mikið. Hann segir að losun CO2 á einstakling sé stöðug í kringum 10 Mtonn. En það getur ekki staðist sé horft til fjölgunar bíla, fjölgunar stórra bíla, bætts vegakerfis og umtalsvert fleiri flugkílómetra. Ætla að skoða málið. Einhver sagði á samgönguþingi á Akureyri um daginn að við Íslendingar værum svo aftarlega á merinni að við þyrftum sjónauka til að sjá merina.
En nú vonast ég til að sjá aukna umræðu um bindingu kolefnis, kolefniskvóta og kílómetrana að baki matvælunum okkar svo fátt eitt sé nefnt.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home